Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 24. júní 2016 - Gestaskrifari er Svanhildur Blöndal, prestur á Hrafnistu

Old letter
Lesa meira...

 

Maður er ekki gamall fyrr en eftirsjá kemur í stað drauma, sagði bandarískur leikari. Þarna er leikarinn auðvitað að tala um mikilvægi hugarfarsins.  Ég held að það sé hugarfarið sem skiptir mestu fyrir okkur en ekki árafjöldinn. Og auðvitað líka líkamleg heilsa sem vegur þungt, hvernig okkur líður. Mér finnst áhugavert að spyrja:  Hve gömul eða gamall finnst þér þú vera? Það er kannski spurning sem við mættum spyrja oftar og horfa fremur á hinn huglæga aldur en lífaldurinn sjálfan. 

Ég hef tekið eftir því að aldraðir eru oft settir undir einn og sama hattinn.  Eru sem sagt látnir falla inn í staðlaða ímynd. Sú ímynd er auðvitað ekki rétt, eins og við vitum.  Aldraðir einstaklingar eru sannarlega ólíkir, með misjafnar þarfir og væntingar, rétt eins og fólk sem er yngra að árum.  Enda er það þannig að þau sem eru skilgreind sem öldruð, getur aldursmunurinn verið allt upp í 30 ár milli þeirra sem eru elst og þeirra sem eru yngst í hópnum.  Engum dytti í hug að setja þrítuga manneskju og sextuga manneskju undir sömu staðalímynd.

Í blaðaviðtali sagði þekktur popptónlistarmaður frá því að þegar afi hans dó 64 ára að aldri, fannst honum ekki neitt undarlegt að hans tími væri kominn.  Honum fannst nefnilega afinn vera orðinn gamall maður.  Núna þegar hann sjálfur er á þessum aldri upplifir hann sig ekki sem gamlan mann.  Hann tók sérstaklega fram að það skipti miklu máli að vakna á hverjum morgni og hafa eitthvað til að hlakka til, gera áætlanir og vinna að framhaldi.  Jákvætt hugarfar og viðhorf til aldurs er örugglega einna mikilvægast.  Ég tek sannarlega undir þessi orð söngvarans.  Það er okkur öllum mikilvægt að viðhalda virkni okkar og áhuga, því þannig verðum við síður gömul, hrum og áhugalaus.

Um daginn hitti ég fjölskyldu sem sagði mér frá syni sínum sem var afskaplega hændur að afa sínum.  Og eitt sinn þegar hann hafði verið í heimsókn hjá afanum var hann spurður að því hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór.  Stráksi svaraði að bragði:  Ég ætla að fara á eftirlaun eins og afi minn.

Einhverra hluta vegna, sem ég sjálf hef ekki skýringu á, hefur verið mikil æskudýrkun í samfélagi okkar.  En þegar við lesum Biblíuna sjáum við að á þeim tíma þegar hún var skrifuð var virðing borin fyrir þeim sem voru aldraðir.  Og einmitt í Gamla testamentinu kemur glöggt fram að það er mikil virðing borin fyrir gömlu fólki.  Sú hugsun að á langri ævi öðlist manneskjan lífsreynslu og visku.  Í Jobsbók segir:  Hjá öldruðum mönnum er speki og langir lífdagar veita hyggindi.  Við eigum að sjálfsögðu að hafa þetta í huga að viska og reynsla þeirra sem eldri eru, berst kynslóð fram af kynslóð og er samfélagi okkar sannarlega dýrmæt.  Ég held að okkur hætti til að vanmeta það. 

Ég held líka að það sé ágætt að hafa í huga eins og segir í Síraksbók sem er eitt af spekiritunum en þar segir:  Vanvirtu ekki neinn sem elli beygir, ýmsir af oss munu einnig eldast.  Og það er einmitt það við eigum öll eftir að eldast sem berum gæfu til þess.  Man eftir viðtali við mann sem átti 60 ára afmæliViðmælandi hans spurði:  Hvernig er að verða sextugur?  Svarið var:  Það er betra en að verða það ekki!

Með sumarkveðju,

Svanhildur

 

Síða 271 af 330

Til baka takki