Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 17. febrúar 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 17. febrúar 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

Fréttatíminn fer með alvarlegar rangfærslur um íbúa Hrafnistu

Það var illa og ómaklega vegið að vinnustað okkar í morgun, í einum fréttamiðli landsins. Hreint ótrúlegt hvað einstakir fjölmiðlamenn geta viðhaft óvönduð vinnubrögð stundum og verður þetta líklega aldrei hægt að leiðrétta að fullu - "æ, fyrirgefðu" er stundum bara ekki nóg.

Á aðalsíðunni okkar má sjá tilkynningu Hrafnistu vegna málsins, sem kynnt var fyrir vel á annað þúsund manns í dag; íbúum, ættingjum og starfsfólki.

En við hér á Hrafnistu látum þetta ekki trufla okkur í að gera góða hluti áfram og lítum jákvæðum augum á lífið!

 

Hrafnista er EKKI að fara að breytast í hótelkeðju

Í fréttum nýlega var nokkuð fjallað um að Hrafnista og Grund séu að undirbúa að breyta hluta af starfseminni í gistirými fyrir ferðamenn. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og reyndar eru Hrafnista og Grund ekki í neinu samstarfi um þetta. Grund hefur reyndar gefið út fyrir nokkru að þeir séu að reyna koma hluta af sínu húsnæði í Vesturbænum í leigu og þegar er byrjuð ferðaþjónusta í einhverjum húsum þeirra í Hveragerði, sem áður voru notuð sem dvalarrými fyrir geðfatlaða.

Hvað varðar Hrafnistu, þá hefur aldrei staðið til að breyta neinu í hótel. Hins vegar var á haustfundi Sjómannadagsráðs 2015 samþykkt heimild til stjórnar að skoða möguleika á því að nota hluta af húsnæði Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði í aðra þjónustu fyrir aldraða en hjúkrunarrými. Slíkt stendur þó ekki til, a.m.k. ekki í nánustu framtíð.

Mergur málsins er sá að við og Grund höfum um töluvert skeið staðið í deilum við ríkið um að ríkið borgi húsaleigu fyrir afnot af þessum eignum okkar. Ríkið neitar að greiða húsleigu til okkar en í fjölda annarra tilvika greiðir ríkið húsaleigu. Meðan við fáum ekki eðlilega og sanngjarna greiðslu fyrir húsnæðið eins og aðrir, er erfitt að viðhalda því með sómasamlegum hætti. Þess vegna er eðlilegt að skoða aðra notkun á húsnæðinu til samræmis við aðra starfsemi.

Líklegt er að þetta mál fari allt saman fyrir dómstóla enda finnst okkur (og mörgum öðrum) óskiljanlegt að ríkið sé ekki tilbúið að borga okkur húsaleigu. Meira um það síðar, þegar málin skýrast betur.

 

Þorrablótum Hrafnistu lokið í ár – kærar þakkir fyrir ykkar framlag!

Fyrir sléttri viku fór fram glæsilegt Þorrablót okkar á Nesvöllum og lauk þar með þorrablótum Hrafnistu þetta árið en þau hafa staðið reglulega yfir síðan á bóndadag. Þetta árið náði ég að taka þátt í öllum þorrablótum okkar enda eru þessar hátíðir með stærstu stundum ársins á hverju heimili.

Þorrablótin okkar hafa sannarlega verið hvert öðru glæsilegra eins og sjá má á myndum sem birst hafa hér á heimasíðunni okkar á þorranum. Mikil ánægja er með matinn, skreytingar og framsetningu blótanna sem eru sannarlega skrautfjöður í hatt Hrafnistu svo eftir er tekið víða.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn við að gera þessi blót jafn glæsileg og raun ber vitni! … En glæsileg blót sem þessi gerast sko alls ekki að sjálfu sér.

Hafið heiður og þökk fyrir!

 

Starfsafmæli í janúar og febrúar

Síðast en ekki síst er gaman að geta þeirra starfsmanna Hrafnistu sem fagna formlegum starfsafmælum hjá okkur nú í janúar og febrúar og fá afhentar viðeigandi gjafir frá okkur vegna tímamótanna.

Þetta eru:

3 ára starfsafmæli:Í Hafnarfirði eru það Íris Björk Gylfadóttir og Karitas Kristgeirsdóttir, báðar á Bylgjuhrauni, Sandra Jónsdóttir á Sjávar- og Ægishrauni og Sunneva Björk Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Einnig Súsanna Oddný Jónmundsdóttir í Kópavogi og Hulda Birna Frímannsdóttir í Reykjavík.

5 ára starfsafmæli:Guðrún Jónsdóttir í Kópavogi og Svanhildur Eysteinsdóttir í sjúkraþjálfun í Hafnarfirði.

10 ára starfsafmæli:Þóra Ingibjörg Sigurjónsdóttir í Kópavogi, Anna Thorlacius á Báruhrauni í Hafnarfirði. Í Reykjavík eru það Cecilia Cruz Castro í borðsal, Rima Juddisiene í ræstingu og Sigrún Linda Birgisdóttir.

25 ára starfsafmæli:Ásta María Sigurðardóttir í eldhúsi í Reykjavík.

30 ára starfsafmæli:Bryndís Fanný Guðmundsdóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar í Hafnarfirði.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar störf í þágu Hrafnistu og aldraðra.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

 

Síða 246 af 330

Til baka takki