Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 10. mars 2017 - Gestaskrifari er Björgvin Jónsson, deildarstjóri fasteigna Sjómannadagsráði

Old letter
Lesa meira...

Ungmennafélagsandinn

Þegar ég var yngri heyrði ég reglulega talað um ungmennafélagsandann. Þá var átt við félagsskap þar sem fólk kom saman og vann sjálfboðavinnu. Ég man eftir því að fótboltavöllurinn í mínum gamla heimabæ Garðinum, var alfarið reistur í sjálfboðavinnu, eins og fótboltavöllurinn í Njarðvík þar sem ég bý í dag. Allir lögðu sitt af mörkum og skipti engu hvort um var að ræða fyrirtæki, konur eða karla.

Hvað er ungmennafélagsandi?
Ég hafði ekki heyrt þetta orð í háa herrans tíð fyrr en mágur minn stofnaði Júdódeild Njarðvíkur þar sem ungmennafélagsandinn átti að vera í hávegum hafður. Hugsjónin höfð að leiðarljósi, eins og áður fyrr. Hann vildi byggja upp deild sem gæti orðið sjálfbær og þar sem öll börn og ungmenni hefðu jafnan rétt til að stunda íþróttina, hver sem staða þeirra eða foreldra/forráðamanna væri. Hugmyndin var sú að þjálfarar, foreldrar og börn ynnu saman að því að skapa íþróttafélag, byggða á þessum margumrædda ungmennafélagsanda. En hvaðan er hugtakið ungmennafélagsandi komið?

Á sambandsþingi Ungmennafélags Íslands árið 2005 var ungmennafélagsandinn skilgreindur á þennan hátt: ,,Ég er heiðarleg(ur) og hlýði samvisku minni skynsamlega. Ég treysti öðrum og mér er treystandi. Ég veit að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér, þess vegna hlusta ég og læri. Ég ber virðingu fyrir mér og öðrum og vil að aðrir beri virðingu fyrir mér. Ég anda að mér hreinu lofti, borða hollan mat og hreyfi mig reglulega svo að mér líði vel. Ég nota ekki vímuefni. Ég tek þátt, mér og öðrum til ánægju. Ég stefni á sigur, samgleðst með sigurvegurunum og get sett mig í spor þeirra sem verða undir. Ég lifi lífinu lifandi og nýt þess sem á vegi mínum verður. Ég vil deila með öðrum og skila því sem lífið lánar, bættu til komandi kynslóða.’’ Í kjölfarið var Björn B. Jónsson, þáverandi formaður UMFÍ spurður nánar um skilgreiningu ungmennafélagsandans og hvernig hann fléttast inn í nútímann. Hans svar  var svona: „Ungmennafélagsandinn hefur aldrei virkað betur en í dag, í nútímaþjóðfélaginu, þegar alls staðar leynast hættur fyrir ungt fólk. Andinn virkar þannig að mörg þúsund ungmennafélagar vinna sjálfboðavinnu um allt land og svo virðist sem ungmennafélögin séu tilbúin til að leggja mikið á sig til að unga fólkið fái sín tækifæri.“

Finnum ungmennafélagsandann 
Við megum ekki gleyma grunngildum ungmennafélagshreyfinganna. Ég tel að það hafi aldrei verið mikilvægara en nú að standa vörð um íþróttaiðkun barna og unglinga og byggja yngstu kynslóðinni þannig bjartari framtíð. Íþróttir og félagsstörf eru frábær forvörn gegn sjúkdómum, fíkn og félagslegum kvillum og því nauðsynlegt að möguleiki barna og unglinga til að stunda íþróttir sé ekki skertur vegna fjárhagslegra stöðu foreldra. Það eru vissulega mjög margir sem sinna óeigingjörnu starfi fyrir hin ýmsu félög og deildir en alltaf vantar gott fólk til starfa við góð málefni. Ég vil því hvetja alla til að taka höndum saman og finna ungmennafélagsandann hjá sér og nýta hann til góðra verka hvar sem hægt er.

Björgvin Jónsson, deildarstjóri fasteigna

Sjómannadagsráð.

Síða 243 af 330

Til baka takki