Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 24. mars 2017 - Gestaskrifari er María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs

Old letter
Lesa meira...

Kæru samstarfsfélagar!

Ég hef fengið þann heiður að skrifa föstudagsmola vikunnar. Mig langar að fjalla um menningu á vinnustaðnum okkar, hvort sem er á sérstakri deild eða bara almennt? Hvað er menning? Hverjum er það að þakka að menning sé góð eða slæm? Hvaða máli skiptir það okkur sem starfsmenn að hlúð sé að góðri menningu?

Ég hef velt þessum spurningum mikið fyrir mér, þ.e. hvað er þetta fyrirbæri og hvernig getum við haft áhrif á það? Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur lagt til að menning sé skilgreind sem: „... samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp.“ Þegar ég ræði við starfsfólk og stjórnendur almennt, um hvað skipti máli í vinnunni, þá er svarið yfirleitt góð menning og góður starfsandi. Við eyðum stórum hluta af lífinu í vinnunni og ættum því að vinna hörðum höndum að því að á okkar vinnustað sé góð menningin og okkur líði vel. Raunveruleikinn er sá að það er hvert og eitt okkar sem er í lykilhlutverki þegar kemur að því að ákvarða hvort menning sé góð eða slæm. Hvar er til dæmis athyglin hjá okkur dags daglega og hvar setjum við fókusinn? Er hann á það sem er miður og það sem vantar, eða er hann á það sem er jákvætt og gott? Ef maður setur fókusinn á vandamálið og það sem er EKKI til staðar, þá nærist það og það stækkar, sem sagt vandamálið. Ef athyglinni er aftur beint að því sem vel er gert og er sannarlega til staðar, þá vex sá partur. Hvora leiðina teljið þið vera vænlegri til að bæta menningu og eignast notalegan vinnustað?

Ég er tiltölulega raunsæ almennt og veit að heimurinn er ekki fullkominn. Því vandamál, vöntun, álag og of mörg verkefni hverfa ekki þó við höfum tekið ákvörðun um að vera jákvæð og skapa góða og notalega menningu á vinnustaðnum okkar. En við höfum vald til að breyta hugsun okkar þannig að fókusinn sé á það sem er jákvætt og er í lagi, muna að brosa, bera virðingu fyrir hvort öðru og þykja vænt um hvort annað. Verkefnin (vandamálin) sameinumst við svo um að leysa. Það er okkar ALLRA að skapa góða menningu á vinnustaðnum. Góð menning er verkefni sem við verðum að vinna að í sameiningu eins og önnur verkefni sem upp koma og er ekki eitthvað sem stjórnandi einn getur breytt með valdi. Ég hvet ykkur til að taka þeirri ábyrgð að skapa góða menningu á ykkar vinnustað, leggja ykkar af mörkum til að svo verði. Til þess þarf frumkvæði, þor og vilja. Það þurfa allir að vera um borð ef vel á að takast. Það jafnast ekkert á við að mæta á vinnustaðinn sinn og hlakka til að hitta  góða vinnufélaga.

Ég fullyrði að við erum öll þar!

 

Kær kveðja, María Fjóla

Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs.

Síða 241 af 330

Til baka takki