Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 30. september 2022 - Gestahöfundur er Þuríður I. Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Reykjanesbæ

Lesa meira...

Reglubundin næring, hreyfing og góður félagsskapur eykur lífsgæði allra.

Í okkar starfi á hjúkrunarheimilunum sjáum við hversu gríðarlega miklu máli næringarstaða hefur á líðan íbúanna okkar. Reglulegar máltíðir og fjölbreyttar eru þar lykilatriði. Öll erum við misjöfn að upplagi og finnst stundum gott að lúra fram eftir á morgnana en þá skiptir líka miklu máli að við séum vakandi fyrir því að íbúarnir okkar séu ekki að missa úr máltíð. Mánaðarlega gerum við þyngdarmælingar á íbúunum okkar og þá er gott að fara yfir og bera saman niðurstöður við síðustu mánuði. Þetta gefur okkur góða vísbendingu um næringarstöðuna. Þurfum við að bæta inn auka viðbita ef við sjáum að íbúar eru að léttast, eða þurfum við að hafa áhyggjur af bjúgsöfnun eða hjartabilun ef þyngdaraukning er mikil á milli mánaða? Lítil vökvainntaka er einnig stórt vandamál á meðal aldraðra og þurfum við sífellt að vera að minna okkar íbúa  á að drekka og færa þeim drykki. Vökvaneysla hefur áhrif á vökvabúskap líkamans þannig að ef við drekkum lítið þá vantar vökva í líkamann og við verðum slöpp. Fólk finnur fyrir svima og þá eru íbúarnir okkar í meiri byltuhættu. Einnig er mikil hætta á þvagfærasýkingum hjá eldra fólki ef það er ekki að drekka nægilega vel. Upplifun íbúa á hversu mikið þeir eru að drekka er oft ekki í takt við það sem þeir innbyrða og stundum getur verið gott að vera með vökvaskráningu í nokkra daga til að sjá vökvaneyslu einstaklings. Máltíðir hvort sem það er inni á okkar eigin heimili eða á hjúkrunarheimilum er félagsleg athöfn. Það að setjast niður með öðru fólki, eiga samskipti og njóta þess að borða mat, sérstaklega ef hann er vel borinn fram eykur vellíðan allra og eykur matarlyst. Að skreyta brauðið sem borið er fram með kvöldsúpunni getur gert gæfumuninn hvernig íbúarnir nærast. Eins og sést á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig kvöldbrauðið leit út á einni deild Nesvalla um daginn. Verum dugleg að nýta okkur stundirnar sem við setjumst niður á með íbúunum okkar eða heima með fjölskyldunni á matmálstímum til að spjalla um lífið og tilveruna og taka stöðuna á okkar fólki. Eru íbúar með einkenni um verki, er fölvi yfir andliti sem gæti bent til blóðleysis eða hvernig líður þeim andlega. Matmálstímarnir eru einstakt tækifæri til að kanna líðan og heilsufar.

Sjúkraþjálfun, iðuþjálfun og félagsstarf aðstoðar fólk við að viðhalda hreyfigetu, dregur úr verkjum og byltum, eflir andann, og styrkir einstaklinga líkamlega sem andlega. Samverustundirnar í þjálfuninni geta dregið úr einmanaleika sem margir aldraðir einstaklingar upplifa. Því eru þessar stoðdeildir gríðarlega mikilvægur þáttur í okkar þjónustu sem og að auka vellíðan og auka lífsgæði hjá íbúunum okkar.

Það er mikið og óeigingjarnt starf unnið á hjúkrunarheimilum landsins þar sem allir leggjast á eitt til að auka lífsgæði og efla gæðastundir íbúanna okkar. Öll þessi vinna skilar árangri í góðri samvinnu og höfum við oft fengið að upplifa að þegar íbúar flytja á hjúkrunarheimilin til okkar þá sjáum við oft miklar framfarir nokkru eftir flutning eftir að regla kemst á næringuna og íbúar taka þátt í sjúkra- og iðjuþjálfun. Þegar þjónustuþegarnir okkar eru ánægðir þá gefur það okkur gott í hjartað og sýnir hversu mikilvæg okkar starfsemi er og hvetur okkur til dáða að gera enn betur í dag en í gær.

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Reykjanesbæ

 

Lesa meira...

Síða 17 af 330

Til baka takki