Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 21. október 2022 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Lesa meira...

Kæru samstarfsfélagar,

Ég hef verið að lesa bók sem kallast Lífsreglurnar fjórar, viskubók Tolteka. Hún fjallar um lífsreglur sem Toltekar hafa þróað með sér og hefur þekking þeirra þróast mann af manni fram til dagsins í dag. Toltekar voru þekktir um alla Suður-Mexíkó sem fólk þekkingar. Sumir hafa kallað þá vísindamenn og jafnvel listamenn. Ein af lífsreglum Tolteka er: „Ekki taka neitt persónulega.“  Þessi lífsregla kennir okkur að samþykkja ekki það sem einhver annar er að segja við okkur um okkur.

Stundum eru hlutir sagðir við okkur sem hitta okkur beint í mark. Það hittir á eitthvað innra með okkur og við leyfum því að særa okkur. En þá er mikilvægt að muna að við höfum sjálf valdið í okkar höndum til að VELJA hvernig við ætlum að bregðast við. Ætlum við í alvöru að láta einhvern þriðja aðila breyta því hvernig okkur líður? Svarið er nei. Við getum aftur á móti með viðbrögðum okkar breytt því hvernig öðrum líður og það er sigur. Umvefðu fólk, sem augljóslega líður illa, fastar og sýndu þeim enn meiri kærleika.

Grunnurinn að því að eiga góð samskipti er að þekkja okkur sjálf. Við erum í raun ekkert annað en „hrúga“ af okkar eigin viðbrögðum. Lífið er þannig að enginn dagur er nákvæmlega eins og það gerist ýmislegt í kringum okkur sem við höfum ekki beint stjórn á. Galdurinn við að láta sér og öðrum í kringum okkur líða vel er að velja viðbrögð við því sem er að gerast.  Ég vel hvort ég leyfi öðrum að koma mér úr jafnvægi eða ekki.  Ætla ég að velja að vera pirruð og reið vegna þess að einhver kom illa fram við mig eða ætla ég að velja að taka það ekki persónulega? Ég get ekki sagt að ég hafi „masterað“ þetta en ég er að reyna að muna að velja.

Einn starfsfélagi minn hér á Hrafnistu sagði mér ansi góða sögu í gær þegar við vorum að ræða samskipti. Ég ætla að deila henni hérna með ykkur og vona að hann fyrirgefi mér að ég bað ekki um leyfi. Hann ákvað á sínum tíma að taka strætó í vinnuna yfir sex mánaða tímabil frá Keflavík til Reykjavíkur. Það voru oftast sömu bílstjórarnir að keyra og hann bauð þeim öllum góðan daginn á hverjum degi. Hann tók eftir því að það var einn bílstjóri sem tók aldrei undir kveðjuna. Starfsfélagi minn ákvað að láta það ekki trufla sig og bauð honum alltaf vingjarnlega góðan daginn í hvert sinn sem hann hitti viðkomandi bílstjóra. Eftir nokkrar vikur þá tók viðkomandi bílstjóri allt í einu undir kveðjuna. Okkar manni dauðbrá auðvitað en var nokkuð ánægður með kveðjuna. Hann valdi að láta viðbrögð bílstjórans ekki trufla sig og valdi að bjóða honum alltaf góðan daginn þrátt fyrir að bílstjórinn virti hann ekki viðlits. Bílstjórinn á klárlega sína sögu sem við þekkjum ekki og eitthvað olli því að hann valdi að taka ekki undir kveðjuna góðu. En ég trúi því að vegna þess að starfsfélagi minn valdi að gefast ekki upp hafi hann gefið bílstjóranum meira en hann hefur getað ímyndað sér.

Það er nákvæmlega svona sem ég sé fyrir mér að samskipti okkar á Hrafnistu eigi að vera. Alla daga sé ég ykkur sinna fólkinu okkar og aðstandendum þeirra af hlýju og kærleika. Munum að gera það líka þegar við mætum dónaskap og sársauka. Munum þá að við eigum öll okkar sögu, við eigum öll okkar erfiðu tímabil í lífinu og ýmsar ástæður sem valda því að okkur líður illa. Munum þá hvað það gefur okkur mikið að mæta kærleika, brosi og hlýju. Mundu að viðbrögð þín eru val og þau hafa áhrif.

Eigið dásamlega helgi hvar sem þið eruð stödd í veröldinni.

Bestu kveðjur,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 15 af 330

Til baka takki