Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 26. mars 2021 - Gestahöfundur er Dagný Jónsdóttir hjúkrunardeildarstjóri á Bergi Hrafnistu Sléttuvegi

Fyrir rétt tæpum mánuði síðan fagnaði Hrafnista Sléttuvegi árs afmæli. Tíminn er fljótur að líða og ótrúlegt að hugsa til þess að ár sé liðið frá opnun. Ár sem engan hefði grunað að fór sem fór. Mikil vinna hefur verið lögð í að koma heimilinu og starfseminni allri upp, en þegar litið er til baka er ótrúlegt að sjá hversu vel allt verkefnið hefur heppnast. Gríðarlega mikil vinna hefur átt sér stað við að skapa fallegt heimili fyrir íbúana okkar og endurspeglast sú vinna um leið í góðu starfsumhverfi sem skapast hefur fyrir starfsfólkið okkar. Heimilið er svo sannarlega fallegt og vel búið öllum þeim búnaði sem þarf til að geta haldið úti starfsemi og vel rúmlega það. En til að geta gert hús að heimili verður menningin að vera góð, hún verður að vera meira en bara flott umgjörð. Hún snýst um virðingu fyrir íbúanum, viðhorfi starfsmanna gagnvart starfinu, vináttu, kærleika og gleði til að skapa notalegt andrúmsloft, sem maður finnur einmitt svo vel þegar gengið er inn á hverja deild Hrafnistuheimilanna. Hvert og eitt svo ólíkt en öll með sama markmið, að auka gæði og þá þjónustu sem við veitum okkar íbúum. Að mínu mati eru það forréttindi að starfa með öllu því hæfileikaríka fólki sem Hrafnista býr svo vel að eiga  og að sama skapi að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu og gæðastarfi sem átt hefur sér stað síðastliðin ár.

Við stjórnendur á Sléttuvegi lögðum í upphafi grunninn að þeirri menningu sem við sáum fyrir okkur. Heimilislegt og hlýlegt umhverfi fyrir íbúana. Þátttöku aðstandenda í daglegu lífi og heimilið ávallt opið. Mikið félagsstarf og mikið lagt upp úr gæðum starfseminnar. Við vinnum eftir hugmyndafræði sem snýst um viðhorf, samskipti og starfshætti sem stuðla að virðingu, vellíðan og lífsfyllingu í garð íbúanna þrátt fyrir færniskerðingu. Þessa þætti höfum við haft að leiðarljósi og náð að halda að mestu, en því miður var þörf á að breyta til og fara aðeins öðruvísi leiðir þegar heimsfaraldurinn skall á okkur. Fordæmalausir tímar kalla á fordæmalausar aðgerðir og neyddumst við til að breyta okkar stefnu og aðlaga okkur að þeim breytta veruleika sem nú var kominn. Okkar háleitu markmið, stefna og hugmyndir tóku smá breytingum og ýmislegt sett á bið. Heimilinu þurfti því miður að loka í sóttvarnarskyni viku eftir að við opnuðum. Áfram héldu þó inntökur nýrra íbúa á heimilið sem var mikil áskorun fyrir allt okkar starfsfólk, en ekki síður fyrir nýju íbúana og aðstandendur þeirra. Nýr veruleiki blasti við, aðstandendur þurftu að kveðja ástvini sína í dyragættinni við komu og var sá eini möguleiki fyrir hendi að eiga samskipti í gegnum síma og tölvur. Við þessar nýju erfiðu aðstæður brást allt starfsfólk gríðarlega vel við og lagði allt sitt í að gera ferlið sem best. Ekkert var eðlilegt við þessa stöðu en nálgun íbúa og starfsmanna var öðruvísi og fyrir vikið má segja að þau hafi orðið nánari að vissu leyti. Menningin okkar skiptir þarna höfuð máli, menningin sem starfsfólkið skapar með íbúunum. Virðingin, viðhorfið og vináttan. Að mynda tengsl sem eru svo mikilvæg. Á undanförnu ári hefur tíðarandinn breyst með hinum miklu höftum sem allt samfélagið hefur þurft að búa við. Við sem störfum á Hrafnistu vitum og höfum lært að mikilvægt er að hlúa að andlegri og félagslegri líðan, við tökum fastar utan um fólkið okkar en áður, hlæjum og samgleðjumst þegar gleðitíðindi bera að og huggum og syrgjum saman. Við erum til staðar fyrir hvort annað í gleði jafnt sem erfiðum aðstæðum.

Staðan var svo sannarlega góð fyrir stuttu síðan. Allt leit vel út og bjart var framundan. En fljótt skipast veður í lofti. Sóttvarnarreglur hafa nú verið hertar enn á ný og í þetta skiptið meira en nokkru sinni fyrr. Fjórða bylgjan vofir yfir okkur og það með nýju afbrigði. Við herðum heimsóknarreglur hjá okkur á Hrafnistuheimilunum til að vernda íbúana okkar, starfsemina alla og einnig þá starfsmenn sem staðið hafa vaktina frá upphafi og eiga óendanlega miklar þakkir skilið. Við höfum lært svo mikið í gegnum allt þetta ferli og vitum hvað þarf að gera. Við brettum upp ermar og tökumst á við þetta saman. Við vitum að þetta klárast að lokum og hversu ljúft það verður. Erum full tilhlökkunar og farin að bíða eftir að að takast á við nýjar áskoranir og ný verkefni sem snúast ekki um Covid. Höldum áfram að byggja upp falleg heimili með þeirri menningu sem við sköpum saman. Heimili sem gott er að búa á og starfa, þannig er Hrafnista.

Rafrænt knús til ykkar og góða helgi.

Dagný Jónsdóttir,

deildarstjóri á Bergi Hrafnistu Sléttuvegi

 

Meðfylgjandi mynd er birt með góðfúslegu leyfi.

Lesa meira...

Síða 15 af 278

Til baka takki