Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 22. janúar 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 22. janúar 2016.

 

Gleðilegan bóndadag!!!

 

Þorrablótin framundan

Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur hins forna mánaðar, þorra. Þessi árstími er jafnan mjög skemmtilegur hér á Hrafnistu enda blótum við þorran af miklum móð á öllum vígstöðvum. Fjörið hefst strax í hádeginu í dag þegar Kópavogur ríður á vaðið með hádegisþorrablóti þar sem harmonikkuleikur og fleira verður til gamans ásamt matardásemdunum.

Í kvöld eru svo risafagnaður í Reykjavík þar sem enginn annar en Laddi sjálfur verður veislustjóri. Ræðuhöld verða einnig og skemmtiatriði og auðvitað er endað á dansleik.

Gaman er að segja frá því að fréttastofa Stöðvar 2 hefur boðað komu sína á blótið og stefnir á að vera með beina útsendingu frá gleðinni í fréttatímanum. Vonandi gengur það mál upp.

Í næstu viku er það Reykjanesbær og í vikunni þar á eftir verður hefðbundinn kvöldfagnaður í Hafnarfirði þar sem Laddi verður einnig veislustjóri. Hér er nánara yfirlit en blótin eru auglýst betur á hverju heimili fyrir sig. Gaman, gaman 

Föstudagur 22. janúar  – Hádegi – Hrafnista Kópavogi

Föstudagur 22. janúar – kvöldfagnaður – Hrafnista Reykjavík

Föstudagur 29. janúar – hádegi – Hrafnista Nesvellir og Hrafnista Hlévangur

Föstudagur 5. febrúar – kvöldfagnaður – Hrafnista Hafnarfjörður

 

Málefni hjúkrunarheimilanna

Málefni hjúkrunarheimila hafa sannarlega verið mikið í fréttum undanfarið. Því miður hafa okkar helstu baráttumál fengið litlar undirtektir hjá ráðamönnum undanfarið en sem betur fer virðast eyrun vera aðeins að opnast þessa dagana en málið var til dæmis rætt á Alþingi á miðvikudag. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem eru hagsmunasamtök okkar hjúkrunarheimilanna og fleiri aðila í velferðarþjónustu, hafa lengi barist fyrir sanngjörnum og gegnsæjum greiðslum fyrir þjónustuna sem við eigum að veita. Slíkt er auðvitað öllum í hag en því miður hefur þetta ekki verið svo undanfarin ár þar sem kröfur á þjónustu okkar hafa verið miklar en fjármagnið alls ekki verið í samræmi.

Vonandi eru breytingar framundan því fjárlaganefnd Alþingis hefur boðað fulltrúa SFV til sín í næstu viku ásamt fulltrúum velferðarráðuneytis og Sjúkratrygginga Íslands, til að fara yfir stöðuna. Jafnframt hefur heilbrigðisráðherra tekið vel í þá ósk SFV að fulltrúar samtakanna fái sameignlegan fund með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra þar sem farið verður yfir rekstrarstöðu hjúkrunarheimila og rætt um markvissar lausnir til að leysa úr okkar málum.

 

Fundað með fulltúum lögreglunnar

Hrafnistuheimilin eru stórt samfélag. Oft þegar við kynnum Hrafnistu tölum við um að hjá okkur sé að finna allt litróf samfélagsins enda eru við að þjónusta hátt í 1.000 aldraða einstaklinga á degi hverjum og í miklum samskiptum við aðstandendur þeirra. Margt getur því komið upp á í okkar daglegu störfum.

Í vikunni buðum við fulltrúum lögreglunnar til spjallfundar um ýmis mál en við eigum alltaf samskipti við lögreglu öðru hverju vegna mála af ýmsu tagi. Á fundinum, sem var mjög góður og ánægjulegur, var meðal annars rætt um samskipti, sameiginlega verklagsferla og aðkomu lögreglu af málefnum tengdum okkur.

Fundurinn mun án efa verða til þess að góð samskipti okkar við lögregluyfirvöld verða enn betri.

 

Starfsafmæli í janúar

Nú í janúar eru að vanda nokkur formleg starfsafmæli á Hrafnistuheimilunum. Þeir sem nú fagna slíkum áföngum eru:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Olga Sigurðardóttir á Vitatorgi og Hildur Rós Guðnadóttir á Sólteigi. Í Hafnarfirði eru það Erla Arnardóttir á Báruhrauni og Hrund Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur.Einnig Valgerður Dröfn Ólafsdóttir í Kópavogi.

10 ára starfsafmæli: Reynaldo Santos í ræstingu og Jaana Marja Rotinen á Mánateig, bæði í Reykjavík. Björg Ólafsdóttir í sjúkraþjálfun og Unnur Björnsdóttir í ræstingu, báðar í Hafnarfirði.

Loks á Sirina M.A.Dewage, í eldhúsinu í Hafnarfirði 15 ára starfsafmæli!

Hjartanlega til hamingju öll og bestu þakkir fyrir góð störf fyrir Hrafnistu gegnum tíðina!

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur