Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 9. október 2015 - Gestaskrifari er Lucia Lund, mannauðsstjóri Hrafnistu

Viðhorf

Ég kynntist konu á besta aldri fyrir nokkru síðan. Hún er alltaf hvetjandi og skemmtileg og lifir að mínu mati öfundsverðu lífi. Eitt var það sem truflaði mig þó og það var að hún er öryrki. Hvernig getur manneskja sem alltaf er svona hress, gengur flesta daga 5-10 km og hugsar vel um fjölskylduna sína verið heima á bótum? Af hverju er hún ekki að vinna. Þegar ég kynntist henni betur kom skýringin. Hún hafði veikst fyrir nokkrum árum og misst vinnuna því það var ekki hægt að treysta á að hún mætti alltaf. Málið er að hún á oft slæma daga og á þá erfitt með að komast fram úr þó erfitt sé að sjá það utan á henni. Ég sá að ég hafði hlaupið á mig og dæmt hana út frá röngum forsendum. Ekki er allt sem sýnist. Ég veit að þessi kona vildi ekkert frekar en að fá gamla starfið sitt aftur.

Meistaramánuður

Í vikunni sagði þessi vinkona mín mér frá því að hún ætlaði að taka þátt í meistaramánuði. Hún ætlar að hlaupa 100 km. í mánuðinum. Mér svelgdist á  en hún benti mér á að það væri ekkert mál. Bara eins og að éta fíl. Þú tekur einn bita í einu. Þetta er kjörið tækifæri til að bæta sig í einhverju. Það getur verið stórt eða bara smátt. Ég held ég reyni að setja mér eins og eitt markmið en það þarf að vera SMART (Skýrt, Mælanlegt, Aðlaðandi, Raunhæft og Tímasett). Ég set mér það markmið að hreyfa mig í 45 mínútur á dag að minnsta kosti 5 daga í viku.

Kjarasamningar

Kjarasamningar flestra starfsstétta á Hrafnistu eru lausir um þessar mundir og hafa verið frá því í vor. Töluvert hefur verið um fundarhöld og samningar við Fíh, BHM og Flóann eru langt komnir. Vonandi verður hægt að ganga frá þessum samningum og hækka laun í nóvember. Samningar við SFR og sjúkraliða eru stopp hjá ríkinu og það verður ekki fyrr en sátt næst á milli þeirra sem Hrafnista hefur viðræður við þau stéttarfélög. Vonandi leysast málin farsællega án verkfalla einkum launþeganna vegna en ekki síður vegna skjólstæðinga okkar, heimilisfólksins.

Mannauðs- og fræðsludeild

Í byrjun ársins voru þær breytingar gerðar á skipulagi Hrafnistu að fræðsludeildin var færð til Mannauðsdeildar. Með því fylgdi liðsauki en Soffía Egilsdóttir félagsráðgjafi kom á deildina með fræðslumálin. Helstu verkefni deildarinnar eru

-          ráðningar, en á bilinu 300 – 500  manns eru ráðnir á Hrafnistuheimilin á hverju ári eða að meðaltali einn til tveir á hverjum degi.

-          aðstoðum stjórnendur við ýmis mál en þeir eru rúmlega 30 á fimm heimilinum.

-          förum yfir alla ráðningasamninga, röðum í launaflokka og pössum upp á að allar hækkanir samkvæmt kjarasamningum skili sér til launþega

-          sitjum fundi með stéttarfélögum til að gera kjarasamninga eða til að skoða einstök mál

-          skipuleggja fræðslu í samráði við framkvæmdaráð

-          útbúa launaáætlun en hún er um 80% af útgjöldum Hrafnistu

-          gera starfsánægjukönnun, sem gera á í vetur

-          ýmis önnur verkefni eins og að undirbúa árshátíð og bjóða í bíó

Eins og sést á þessari upptalningu er deildin þjónustudeild og ef við getum eitthvað liðsinnt þér ágæti starfsmaður ertu velkominn til okkar alla virka daga kl. 13-14

 

Lucia Lund
Mannauðsstjóri

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur