Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 7. ágúst 2015 - Gestaskrifari er Þóra Geirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Lækjartorgi, Engey og Viðey

Sumarið sem  ég kláraði fyrsta árið í hjúkrun vann ég við aðhlynningu á G-2.   Það voru fyrstu kynni mín af Hrafnistu.  Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og karlmenn klæddust hvítum spítalafatnaði í vinnunni en kvenfólk í aðhlynningu var í dökkbláum kjólum.  Ég gekk aldrei í kjól á þessum árum og fannst þetta hræðilegur vinnufatnaður en það var engin leið að fá að klæðast hvíta fatnaðinum.  Hann var eins konar stöðutákn og ég man enn hvað hún Ruth samskiptafulltrúi tók sig vel út í honum.  Hún var sem sagt sjúkraliði á deildinni á þeim tíma.    Bláu kjólarnir voru smelltir að framan og maður var alltaf að flækja þá í handföngum hjólastóla og já.. ég segi ekki meira.
 
Næst þegar ég kom að vinna á Hrafnistu var ég búin með tvö og hálft ár í hjúkrun.  Þá vann ég á E-2 og fékk að klæðast hvítu fötunum þar sem ég vann nú sem hjúkrunarnemi með öryggisvakt á bak við mig.  Ég man að rúmin voru með þungum heilum trégrindum að framan.  Eina kvöldvaktina hringdi bjalla og ég fór inn á herbergi til að aðstoða konu á klósettið.  Ég tók trégrindina af rúminu og reisti hana lóðrétt upp í loft en athugaði ekki að fyrir ofan mig var voldugt loftljós.  Ég braut það með látum og þegar starfsfólk kom hlaupandi inn  stóð ég á miðju gólfi í glerbrotahrúgu með blóðtauminn lekandi niður andlitið.
 
Eftir útskrift fór ég að vinna á blóðsjúkdóma- og krabbameinsdeild en Hrafnista hlýtur að hafa togað því ég var komin aftur  einu og hálfu ári seinna.  Og þá sem aðstoðardeildarstjóri á deild A-4 hjá Bergþóru Helgadóttir.  Á krabbameinsdeildinni hafði ég oft horft upp á ungt fólk deyja og sú hugsun var farin að leita á mig hvort ég næði að ferma öll börnin mín áður en ég færi sjálf.  Það var því hressandi að sjá að elstu íbúarnir á A-4 voru 70 árum eldri en ég, og ótrúlegt en satt – þar var fólk sem lifði það að sjá börnin sín fara á elliheimili !    Árin á A-4 voru eins og andleg endurhæfing,  gaman í vinnunni og Bergþóra yndisleg.
 
Eftir tvö ár á A-4 tók ég við sem deildarstjóri á EF-2.  Þá var ný búið að sameina E og F gang í eina deild.  Til að byrja með voru tveir aðstoðardeildarstjórar með mér.  Sameiningin gekk vel enda einingarnar svipaðar og gott starfsfólk á deildunum.   Þarna var ég í sex ár, eða þangað til enn ein breytingin átti sér stað.  Þegar deildarstjórastaða losnaði á H-2 var ákveðið að sameina EF og G gangana í eina deild og var okkur Sigrúnu Stefánsdóttir, sem þá var deildarstjóri á G-2, gefnar nokkuð frjálsar hendur með það hvor tæki við sameiningunni og hvor færi yfir á H-2.  Ég þakkaði fljótlega mínu sæla fyrir að hafa farið yfir á H-ið því farið var í að stækka herbergin á gömlu deildinni með múrbroti og látum og sá ég Sigrúnu fyrir mér grá-rykuga, í marga mánuði, með eyrnatappa í eyrunum að reyna að vinna vinnuna sína.  Á meðan sat ég í hreinu lofti og hlustaði á fuglasöng ☺.
 
Og nú er enn komið að því að ég breyti til.  Í þetta sinn er það sameining Lækjartorgs, Viðeyjar og Engeyjar.  Eftir 8 ár á Mánateig með frábæru fólki er ég aftur komin á gamlar slóðir.  Þegar ég vann á A-4 voru þetta fimm deildar sem urðu fjórar, þrjár og svo tvær.  Nú er verið að sameina þær í eina.  Heimilisfólki hefur fækkað að sama skapi með stækkun herbergja og betri aðstöðu.  
Ég hlakka til að takast á við komandi verkefni og kynnast því góða fólki sem á deildunum vinnur.
 
Þóra Geirsdóttir 
Deildarstjóri
Lækjartorgi, Engey og Viðey
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur