Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 12. júní 2015 - Gestaskrifari er Svanhildur Blöndal, prestur á Hrafnistu

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá fyrirbæn Jesú, upphafsorðin eru:  Ég bið fyrir þeim.  Ég hef heyrt bæði heimilisfólk Hrafnistu og starfsfólk segja frá því hversu máttug bænin er.  En það eru líka til manneskjur sem gera lítið úr krafti bænarinnar.  Ég heyrði þessa sögu um daginn af stjórnanda hér í borg.  Starfsfólk fyrirtækisins var að ræða um bænina, þegar stjórnandinn gekk inn í kaffistofuna.  Hann sagðist vera of upptekinn til að biðja.  Prestur nokkur var einnig staddur á kaffistofunni en hann hafði nýlokið við að flytja erindi fyrir starfsfólkið.  Presturinn sagði þá:  Þú minnir mig á skógarhöggsmanninn sem stóð uppgefinn við að höggva trén með bitlausri öxi, af því að hann hafði ekki tíma, að því hann sagði, til að gera hlé og brýna öxina.
 
Fyrir nokkrum árum kom frétt í dagblaði í Chicago sem vakti heimsathygli.  Fréttin var á þá leið að bandarískir vísindamenn höfðu gert rannsókn sem benti til þess að fyrirbænir gátu dregið úr fylgikvillum hjá sjúklingum um allt að 10 %.  En einmitt þessi niðurstaða hafði birst í læknablaði þar ytra sem dagblaðið sagði síðan frá. 
 
Í blaðinu var líka sagt frá því að sérfræðingar í hjartasjúkdómum við St. Luke's spítalann í Kansas rannsökuðu 990 hjartasjúklinga, sem voru í meðferð á sjúkrahúsinu. Læknarnir skiptu þeim í tvo hópa. Sjálfboðaliðar voru fengnir til að biðja daglega fyrir sjúklingum en einungis þeim sem tilheyrði öðrum hópnum. Sjúklingarnir vissu hins vegar ekki að það var beðið fyrir þeim.
 
Athyglisvert er að segja frá því að eftir einn mánuð höfðu þessi hópur sem beðið var fyrir mælst með 10% færri fylgikvilla, en þeim sem ekki var beðið fyrir.
 
Við getum hugsað bænina þannig að hún sé eins og græðandi smyrsl sem líknar og læknar.  Eldri maður sagði við mig:  Ég kann ekki að biðja, ég veit ekki hvað ég á að segja.  Við þurfum ekki að setja okkur í ákveðnar stellingar til að tala við Guð.  Við getum alltaf talað við Guð og það er ekki spurning um orðalag heldur hjartalag.
 
Förum með okkur inn í daginn þessi viskuorð:  Treystu Guði, vertu eins og fuglinn, sem hættir ekki að syngja þótt greinin brotni.  Því hann veit að hann er með vængi. 
 
Með sumarkveðju, Svanhildur
 
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur