Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 8. maí 2015 - Gestaskrifari er María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs

Kæru samstarfsmenn!
Ég hef fengið þann heiður að skrifa föstudagsmola í þetta sinn og hef ákveðið að deila með ykkur hvernig það er að koma inn sem nýr starfsmaður ásamt því að gefa ykkur smá innsýn inn í störf Heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna, þótt það sé enn í mótun.
 
Eftir að ég var ráðin kom tilkynning á Hrafnistu.is eins og venja er þar sem ég var boðin velkomin í HrafnistuFJÖLSKYLDUNA. Þetta fannst mér dálítið sérkennilegt, þar sem ég hef ekki litið þeim augum á fyrirtæki áður. En þrátt fyrir að hafa aðeins verið þennan stutta tíma, þá er þetta raunin. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þið áttið ykkur hvernig andrúmsloftið er á ykkar vinnustað? Þið eruð eins og ein stór fjölskylda. Þetta er ómetanlegt og gerir allt samstarf einfalt, stirðlaust og árangursríkt. Þá hefur ekki skipt máli á hvaða heimili ég hef verið staðsett, hvort sem er í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Nesvöllum eða Hlévangi. Alls staðar er þetta sama notalega viðmót, þó svo að hvert heimili hafi sinn karakter. Ekki breyta þessari menningu - hún er gullnáma og alls ekki sjálfsögð.
 
Hvert er hlutverk Heilbrigðissviðs?
Heilbrigðissvið er stoðdeild sem þjónar öllum Hrafnistuheimilunum og undir því sviði er einnig Gæðastjóri Hrafnistu. Markmið sviðsins er að vera límið sem tengir heimilin fimm saman, og þannig nýta stærð okkar til að ná betri árangri þegar kemur að gæðum og þjónustu við íbúa Hrafnistu ásamt því að veita starfsfólki gott starfsumhverfi. Sviðið er stuðningur við Hrafnistuheimilin þegar kemur meðal annars að gæðamálum (Gæðahandbók og gæðavísar (RAI), sýkingavörnum, öryggismálum, atvikum, vinnuslysum og ábendingum. Það heldur utan um þá nemendur sem hér koma í verknám, sem og þá nema sem óska eftir að vinna rannsóknaverkefni eða annað á Hrafnistu. Sviðið heldur utan þá vinnuhópa sem eru í gangi hverju sinni og fylgir því eftir að verkefni fái lendingu og aðstoðar ef þörf er á. Einnig heldur sviðið utan um gæðahópa Hrafnistu og má þar t.d. nefna Sögu-hóp, RAI-hóp, Lyfjanefnd og Gæðateymi. Einnig eru til staðar sárateymi og byltuteymi sem sviðið heldur utan um.
 
Mikilvægt er þó að hafa í huga að Heilbrigðissvið Hrafnistu er í mótun og mikil vinna er framundan sem snýr að því að skerpa línurnar, þ.e. hvað felst innan heilbrigðissviðsins, ásamt því að takast á við ný verkefni. Mikið og gott starf hefur verið unnið á Hrafnistuheimilunum eins og Landlæknisembættið hefur fært sönnur á, því er mikilvægt að viðhalda því sem hefur verið gert og verða enn betri.
 
Enn og aftur þakka ég fyrir góðar móttökur og hlakka til að takast á við verkefni framtíðar með ykkur.

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur