Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. maí 2022 - Gestahöfundur er Jakobína H. Árnadóttir, mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

Vorboðinn ljúfi

Á vorin bætist alltaf stór hópur af nýju starfsfólki við okkar frábæra hóp á Hrafnistu. Sumarstarfsfólkið kemur eins og vorboðinn ljúfi til að leysa af yfir sumarið. Á næstu vikum koma til starfa um 250 nýir einstaklingar sem gaman verður að kynnast og njóta starfskrafta í sumar.

Að koma í sumarstarf á Hrafnistu getur verið mjög gefandi og lærdómsríkur tími en starfið getur líka verið krefjandi og tekið á bæði líkamlega og andlega. Til að undirbúa starfsfólk sem best undir starfið og verkefnin í sumar hefur verið hannað  móttökuferli sem allt nýtt starfsfólk fer í gegnum. Móttökuferlið spannar 2-3 vikur og er farið yfir alla helstu þætti starfsins á þessum vikum. Jafnframt er ætlast til að allt nýtt starfsfólk horfi á nýliðafræðslu í Hrafnistuskólanum og kynni sér öryggismál heimilisins og deildarinnar. Með stöðluðu móttökuferli stuðlum við að meira öryggi í starfi, góðri og faglegri þjónustu og höldum uppi gæðum.

Það muna allir eftir fyrsta deginum sínum á nýjum vinnustað og viljum við að sú upplifun sé góð hjá öllu nýju starfsfólki á Hrafnistu. Fyrstu kynni af nýjum vinnustað geta mótað viðhorf nýrra starfsmanna til lengri tíma og haft áhrif á starfsánægju og starfsframlag. Það er því afar mikilvægt að reyndara stafsfólk taki vel á móti nýja starfsfólkinu, veiti því leiðsögn í ákveðinn tíma og komi þeim vel inn í starfið. Stjórnendur eða verkefnastjórar á hverri deild bera ábyrgð á ferlinu og að nýtt fólk fái viðeigandi þjálfun en samstarfsfólk skipar mikilvægt hlutverk í móttökuferlinu, verklegri þjálfun og félagslegum stuðningi. Einnig er  mikilvægt er að taka vel á móti nýju starfsfólki sem vinnufélagi, taka það inn í starfsmannahópinn, kynna fyrir hefðum og venjum og setja það inn í helstu þætti tengt félagslífinu á Hrafnistu.  

Nýr starfsmaður ber sjálfur ábyrgð á að afla sér upplýsinga, spyrja og leita sér aðstoðar. Það er því afar mikilvægt að nýtt starfsfólk nýti aðlögunartímann og auðvitað starfstímann allan til að læra nýja hluti, setja sig inn í starfið, kynnast nýju fólki og bæta sig  í samskiptum. Þannig nýtum við þennan skóla lífsins sem allra best til að efla okkur sem einstakling. Gott er að hugsa að við höfum alltaf val um hvað við viljum fá út úr tímanum okkar á hverjum vinnustað. Á Hrafnistu eru ótal tækifæri til vaxtar og þroska sem er hvers og eins að grípa.  Ef við tökum verkefnum og áskorunum opnum örmum, erum forvitin og spyrjum þegar við vitum ekki svarið, þá komum við alltaf út í plús.

Að lokum langar mig að minna á að glöggt er gests augað. Það er því gott að muna að taka því fagnandi þegar nýtt starfsfólk spyr af hverju við gerum hlutina eins og við gerum þá.

Megi sumarið færa okkur öllum gleði og gott veður.

 

Jakobína H. Árnadóttir

Mannauðsstjóri

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur