Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 18. febrúar 2022 - Gestahöfundur er Kristín Thomsen, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Reykjanesbæ

Með jákvæðnina að leiðarljósi

Fyrir rúmu ári síðan tók ég við starfi deildarstjóra iðjuþjálfunar hjá Hrafnistu á Nesvöllum og Hlévangi í Reykjanesbæ. Þetta ár ásamt þeim fjórum sem ég starfaði sem iðjuþjálfi hjá Hrafnistu Hraunvangi hafa verið virkilega lærdómsrík og hef ég kynnst ótal mörgu yndislegu fólki, bæði íbúum og starfsfólki.

Eins og við flest vitum er starf með fólki oft krefjandi og reynir mikið á mannleg samskipti. Aldraðir eru þar engin undantekning en starf með öldruðum er samt það mest gefandi sem ég hef nokkurn tíma tekið mér fyrir hendur. Enginn dagur er eins og hlakka ég alltaf til að mæta í vinnuna.

Markmið iðjuþjálfunar er að auka þátttöku og viðhalda eða efla færni einstaklings í þeirri iðju sem hann hefur áhuga á. Þátttaka í mismunandi iðju eykur lífsgæði, sjálfstæði og gleði. Hækkandi aldur, aukin hnignun og minnkuð færni getur leitt til félagslegrar einangrunar og ýtt undir einmanaleika. Að finna fyrir einmanaleika skerðir lífsgæði og getur ýtt undir að einstaklingur þrói með sér þunglyndi. Því getur þátttaka í iðju haft jákvæð áhrif á þessa þætti og dregið úr einmanaleika.

Með því að taka þátt í tómstundum og eiga í samskiptum við aðra getur eldra fólk uppskorið aukna velsæld og hamingju. Þátttaka eldri einstaklinga í tómstundaiðju með öðrum getur einnig ýtt undir sjálfstæði þeirra og sjálfstraust og byggt upp sambönd við aðra og aukið félagsleg samskipti.

Starf mitt sem iðjuþjálfi gengur því mikið út á að efla gleði, veita nærveru, hlýju, snertingu og virka hlustun. Eins að auka virkni, draga úr einmanaleika, ræða um heima og geima því eldra fólk hefur frá svo mörgu frábæru og skemmtilegu að segja og koma á fót félagslegum samskiptum sem geta leitt til vináttu og sambanda þeirra á milli. Við rifjum upp liðna tíma en erum líka í núinu og lesum nýjustu fréttir. Við syngjum og hlustum á tónlist, við dönsum og förum í leiki og það er ótrúlegt hvernig keppnisskapið brýst fram. Í hópunum myndast góður vinskapur og uppbyggjandi samræður þó stundum séu einnig erfið mál rædd sem fá góðan hljómgrunn og skilning. Einnig er gripið í handavinnu þó það séu æ færri sem ráða við slíkt en þá finnum við einfaldari verkefni eins og að lita, mála eða púsla sem veitir mikla gleði.

Þó lífshlaupi margra okkar íbúa sé senn að ljúka þá búa þau yfir æviminningum, lífsreynslu og sínum einstaka persónuleika sem er svo dásamlegt að fá að kynnast og heyra um. Því finnst mér vel við hæfi að enda þennan stutta pistil á einu uppáhalds lagi okkar á Hlévangi sem segir svo margt.

Játning

Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,

hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.

Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr

hver minning um vor sumarstuttu kynni.

 

Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,

er innan stundar lýkur göngu minni

þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,

hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.

Sigfús Halldórsson / Tómas Guðmundsson

 

Með hækkandi sól og gleði í hjarta þá blásum við þessari blessuðu veiru á haf út og höldum bjartsýn inn í Góu.

Kristín Thomsen

Deildarstjóri iðjuþjálfunar á Hrafnistu Nesvöllum og Hlévangi, Reykjanesbæ.

 

 

  •  

    Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur