Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 28. janúar 2022 - Gestahöfundur er Anna Margrét Guðmundsdóttir, deildarstjóri sjúkra- og iðjuþjálfunar Hrafnistu Sléttuvegi

 

Nú í janúar eru rétt um tvö ár frá því að ég hóf störf sem deildarstjóri sjúkra- og iðjuþjálfunar og sem sjúkraþjálfari á hinu nýja heimili Hrafnistu að Sléttuvegi. Þegar ég horfi til baka, eins og títt er á þessum árstíma, þá hefur þetta verið hressilegt og lærdómsfullt ferðalag og er enn svo sú myndlíking sé notuð.

Formlegur opnunardagur í lok febrúar 2020 rann upp og tilhlökkunin leyndi sér ekki, fyrsti íbúinn flutti inn en viti menn fyrsta Covid smitið greindist hérna á Íslandi þann dag og framhaldið þekkjum við öll með þeim áhrifum sem það hefur haft á hvert og eitt okkar, hvert heimili, þjóð og heimsbyggðina alla.     Sú tilvera sem varð að veruleika næstu daga gerði það að verkum að upphaflegt plan um alla starfsemi, innflutning og aðlögun nýrra íbúa varð umturnað og hraðað svo hægt væri að losa fljótt og vel um pláss á Landspítalanum og fleiri stofnunun, allir tóku höndum saman svo það mætti ganga.

Það var aðdáunarvert hve allir okkar starfsmenn unnu sem einn og breytt ferðaplan varð okkar veruleiki, aftur og aftur eins og jafnan er með flest ferðalög það þekkjum við vel hérna á Íslandi; veður og vindar breytast skyndilega og þá er eins gott að vera við öllu búinn og tilbúinn að fara austur í stað vestur, jafnvel halda sig heima um stund,  taka upp regn og vindgallann í stað stuttbuxnanna, svo maður tali ekki um ullarbrókina og kuldagallann sem fær nú yfirleitt að fljóta með í sumarfríið.

Í upphafi starfseminnar voru bækistöðvar endurhæfingarinnar, okkar „base camp“, upp á deildum/hæðum. Þar unnum við vegna sóttvarna verklags og gaf það okkur jafnframt  tækifæri á að kynnast íbúunum og þörfum þeirra, endurhæfingalega séð. Á þessum tíma var líka lokað fyrir heimsóknir aðstandenda og reyndi það á okkar fólk sem var nýflutt á sitt nýja heimili og því gott að við starfsfólkið værum þeim eins nærri eins og kostur var.

Sóttvarnarlæknir og þríeykið okkar varaði okkur við að ferðast á milli landa og landshluta þarna á vetrarmánuðunum  en þegar voraði, sólin fór að hækka á himni og staðan tók að léttast, vorum við nú hvött að ferðast innanlands frekar en milli landa og þusti landinn í innanlandsferðalög sem enginn varð nú svikinn af enda fátt betra. Þarna vorum við farin að láta okkur dreyma um möguleikann á að ferðast innanhúss þegar aðbúnaður og aðstaða sjúkraþjálfunarinnar á jarðhæðinni var að verða tilbúin og tímabært að færa okkar aðalbækistöðvar. Eftir samráð og samtal við kollega á öðrum hjúkrunarheimilum og sýkingavarnafólk Hrafnistu fundum við það út að  það væri hægt sóttvarnalega séð og vel skyldi vandað til verka.  Það verklag upphófs svo, eins og víðast, að sótthreinsa allt og alla snertifleti eftir hverja notkun, í hádegi, milli deilda, hæða, daga og vikna.

Skemmst er frá því að segja að það var kærkomið á þessum lokunartímum að geta skipt um umhverfi og hafa íbúarnir sýnt því mikla ánægju og þakklæti að koma niður í þjálfun sem er megin tilgangurinn en þess utan er það líka mikilvægt andlega og félagslega enda gengur endurhæfingamódelið út á þessa þrjá þætti; andlega, líkamlega og félagslega. Starfsstöð sjúkraþjálfunar og tækjasalur eru á jarðhæð hússins á mót suðri og sól með möguleika á að skella sér út í suðurgarðinn sem óspart var notaður á sumardögunum.

Ekki eiga allir heimangengt og var og er því mætt á þeirra heimaslóð, æfingaaðstöður hafa verið útbúnar á hverri hæð og svo vinnum við líka á herbergjum og við rúmstokk þegar sú er staðan. Jú við megun nú ekki heldur gleyma því að nota og njóta okkar nærumhverfi.

Mestu máli skiptir að njóta ferðarinnar, jú áfangastaðurinn er í sjónmáli og til að allir komi heilir heim þurfum við á öllum tímum að vera tilbúin að breyta ferðaáætluninni og jafnvel halda okkur heima um stund.

Að lokum læt ég fylgja fyrsta erindi í Hótel jörð eftir Tómas Guðmundsson, Reykjavíkurskáldið.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag,
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

 

Eigið öll góða helgi!

Anna Margrét Guðmundsdóttir,

deildarstjóri sjúkra- og iðjuþjálfunar Hrafnistu Sléttuvegi.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur