Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 10. desember 2021 - Gestahöfundur er Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, mannauðsstjóri Hrafnistu

Allt er breytingum háð

Það er fátt í lífinu sem við getum tekið sem gefnu en eitt er þó alveg víst en það er að allt er í heiminum hverfult og að breytingar eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Breytingar geta verið litlar og stórar, jákvæðar og neikvæðar, í persónulega lífinu eða í vinnunni, eitthvað sem við stýrum, aðrir stýra eða bara hreinlega eitthvað sem gerist án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Flest erum við vanaföst og ekki mjög hrifin af breytingum. Við höfum þörf fyrir stöðugleika og framkvæmum verkefnin með sama hætti án þess að velta því mikið fyrir okkur. Óöryggi og ótti við hið ókomna er okkur sammannlegt.

Undanfarin tvö ár höfum við verið hressilega minnt á hvernig hlutir geta breyst afar hratt án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Þessi tvö ár hafa hins vegar líka kennt okkur að slíkar breytingar knýja áfram vöxt og þroska mun hraðar en hefðu orðið ella. Við á Hrafnistu, eins og í samfélaginu öllu, höfum sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni og víða nýtt breytingarnar til framfara fyrir starfsemina, þjónustuna og okkur persónulega. Eitt af því sem fékk byr undir báða vængi hjá mannauðssviði, í þágu starfsfólks, er rafræn fræðsla. Í stað þess að skella í lás í fræðslumálum var allt sett á fullt að þróa Hrafnistuskólann sem er okkar rafræni fræðsluvettvangur, þróa rafræna nýliðaþjálfun og setja á fót rafrænan stjórnendaskóla. Auk þessa fékk Workplace aukið mikilvægi sem okkar vettvangur til upplýsingamiðlunar. Þar er hægt að koma skilaboðum til allra tæplega 1700 starfsmanna Hrafnistu á einu bretti eða ná sambandi við starfsfólk í einkaspjalli. Þetta er þróun og breytingar sem hefðu eflaust gerst  en gerðust miklu hraðar vegna utanaðkomandi breytinga sem við höfðum ekkert um að segja.

Það er ágætt að hafa í huga í ólgusjó lífsins og stöðugum breytingum nútímans að við höfum alltaf val. Við höfum val um að streitast á móti eða horfa á tækifærin sem geta falist í breytingunum. Við höfum val um það viðhorf sem við mætum með til vinnu og þeirra verkefna sem okkur eru falin. Við höfum val um hvort við ætlum að vera fórnarlömb aðstæðna eða taka stjórn á aðstæðum og nýta okkur tækifærin og lærdóminn sem í breytingum felast. Við höfum val um að taka ábyrgð á okkur sjálfum, hvernig við hegðum okkur og tölum og því hvernig við komum fram við aðra – svo sem samstarfsfólk, íbúa Hrafnistu og aðstandendur.

Ein leið til að hafa áhrif á starfsumhverfi okkar og jafnvel eiga frumkvæði að breytingum er þátttaka í vinnustaðagreiningu eins og Moodup. Starfsfólk Hrafnistu nýtti það tækifæri sannarlega vel þegar við keyrðum nýlega fyrstu könnunina á nýju formi. Alls svöruðu 82% starfsfólks könnuninni sem er algjörlega frábært og rúmlega 300 gáfu sér tíma til að veita skriflega endurgjöf á starfið á sinni deild. Þessi þátttaka sýnir að starfsfólki er ekki sama um vinnustaðinn sinn og vill hafa áhrif á vinnuumhverfi sitt til framtíðar. Stjórnendur þurfa svo að grípa þennan bolta og bregðast við því sem hægt er að bregðast við og útskýra það sem ekki er hægt að breyta.

Ég hvet okkur öll til að nýta tækifærið í desember til að horfa inn á við og hugsa - Hvernig ætla ég að takast á við breytingar framtíðarinnar og hvaða viðhorf ætla ég að velja mér í þeim breytingum sem óhjákvæmilega munu eiga sér stað? 

 

Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, mannauðsstjóri Hrafnistu.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur