Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 3. desember 2021 - Gestahöfundur er Rebekka Ingadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ og Hrafnistu Boðaþingi

 

Annar í aðventu er á sunnudaginn og við erum búin að ná í jólakassana, farin að draga upp jólaskrautið á heimilunum, hengja upp ljós í glugga og setja fallega dúka á borð. Heimilin okkar eru stór og jólaskrautið samhliða því. Ljósið frá seríum í glugga og rafmagnskertum á borðum gefur manni svo mikið og sérstaklega þegar það er búið að vera svona dimmt úti. Mér varð hugsað til jólanna í fyrra þar sem þau voru frábrugðin þeim fyrri útaf covid. Fámenn boð, engin jólahlaðborð eða jólapartý. Aðeins samvera með þeim allra nánustu sem var án efa svo ótrúlega notalegt og rólegt. Hvernig ætli jólin verði í ár? Það er ekki gott að segja!

Ég hlustaði á erindi frá Sorgarmiðstöðinni um daginn sem bar heitið Jólin og sorgin. Halldór Reynisson prestur hélt erindið og það er hægt að hlusta á það á facebooksíðu Sorgarmiðstöðvarinnar ef einhver hefur áhuga. Margir í kringum okkur á heimilum Hrafnistu eru að ganga í gegnum erfiðan tíma sem jólin og aðventan geta verið. Margir af okkar íbúum eru að upplifa sín fyrstu jól á nýju heimili, hafa þurft að kveðja gamla heimilið sitt, jafnvel þurft að kveðja maka eða náin vin. Það sem skiptir svo miklu máli er að við starfsfólk Hrafnistu séum meðvituð um að hlúa að, sýna umhyggju, kærleika og skilning á þessum oft erfiðu tímum. Verum óhrædd að ræða þessa hluti okkar á milli og sýnum íbúum á heimilunum kærleika í verki.  

Í Skógarbæ hafa nokkrar deildar haldið Jólasokkaleik í desember síðustu ár. Leikurinn snýst um að við drögum okkur leynivin úr nafnapotti sem við gleðjum með þremur litlum gjöfum yfir aðventuna. Gjafirnar setjum við í jólasokk sem er merktur hverjum starfsmanni. Sokkarnir eru í leiðinni skraut á deildum og á skrifstofunni svo fleiri en bara sá sem gefur og þiggur gjöfina fá að njóta. Gjafirnar opnum við svo saman og reynum að giska á hver er okkar leynivinur. Við ætlum að halda jólasokkaleikinn í ár og ég er orðin mjög spennt!

Ég vona að starfsfólk Hrafnistuheimilanna eigi fallega og hlýja aðventu í vændum. Verum dugleg að knúsa okkar nánasta fólk, njótum samveru við þau og samstarfsfólks okkar í vinnunni.

 

Rebekka Ingadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ og Hrafnistu Boðaþingi.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur