Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 26. nóvember 2021 - Gestahöfundur er Þuríður I. Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ

 

„Þó að jarðskjálftar, eldgos frost og fárvirði sé fréttaefni þá er fegurðin og ástin já og sólskinið hið rétta efni. Sem er þess virði að það sé leitað uppi og notið sé vel. Því bjartsýni, bros og gleði í sálinni er best, það ég tel“.

Þannig hljóðar brot úr texta Þorsteins Eggertssonar um Sönginn um lífið. Þessi texti er einstaklega fallegur og mér finnst hann eiga svo vel við þetta ár sem senn er að líða og okkur sem störfum við umönnun. Þrátt fyrir að eitt og annað gangi á hjá okkur þá skipir öllu máli hvernig við tökumst á við þau verkefni sem að okkur eru rétt. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir öflum náttúrunnar þetta árið og þurft að gera hinar ýmsu ráðstafanir á hjúkrunarheimilunum til að verjast alls kyns vágestum. En með bjartsýni, brosinu og gleði í sálinni höfum við ítrekað sýnt og sannað að með samvinnu og samstöðu þá getum við komist yfir nánast hvaða hindranir sem á vegi okkar verða. Húrra fyrir okkur öllum….

Árið í ár er merkilegt á svo margan hátt. Við fengum að upplifa magnað eldgos á Reykjanesinu og til gamans má geta að einn íbúi í Reykjanesbæ sem hefur náð 100 ára áfanganum fékk að fara upp að gosstöðvunum með leyfi björgunarsveitarinnar, sem segir okkur öllum að lifa og njóta á meðan við getum. Við tókumst á við verkefnið Breyttur vinnutími af okkar alkunnu snilld. Við þurftum að herða og slaka í samkomutakmörkunum af og til allt árið og gerðum það alltaf full af bjartsýni um betri tíma framundan fyrir okkar íbúa og okkar fjölskyldur. Við höfum átt margar góðar stundir þrátt fyrir þær takmarkanir sem hafa verið í gangi og lyft okkur upp eins og okkur Hrafnistufólki einum er lagið. Fyrir stuttu síðan vorum við með hina árlegu haustgleði sem var hin dásamlegasta. Við bjóðum oftast upp á smá brjóstbirtu til að ylja okkur að innan. Einum íbúanum langaði svo til að stíga dansinn en hafði ekki alveg kjarkinn, það þurfti því tvö staup til að fá í sig kjarkinn og stíga svo dansinn. Og mikið varð hann glaður og ánægður með afrekið þegar dansinum lauk. Það þarf oft ekki mikið til að gleðja og fá brosin fram á andlit íbúanna okkar.

Í haust höfum við fengið mikið af nemum í verknám  til okkar í Reykjanesbæinn og felast í því bæði áskoranir og tækifæri fyrir okkur. Þetta er einstakt tækifæri til að kynna okkar starf og starfsemi á sama tíma og nemar koma oft með nýja þekkingu og hugmyndir sem við getum nýtt í okkar starfi. Að fá tækifæri til að  sýna og leyfa nemum að sjá hversu magnað og fjölbreytt starf er verið að vinna inni á hjúkrunarheimilunum er bæði markaðsetning fyrir okkur og mikil ímyndarvinna. Það skiptir því verulegu máli að við tökum vel á móti nemum og styðjum þau þann tíma sem þeir eru hjá okkur.

Nú er aðventan að ganga í garð með sínum dásamlegu jólaljósum, ilm af smákökum og jólasöngvum. Það er mikil gleði og eftirvænting hjá flestum en höfum það hugfast að þetta er einnig sá tími sem mörgum líður illa og eiga um sárt að binda. Þeir sem hafa misst ástvini eða upplifað sorg líður oft illa í desember, þetta getur bæði átt við okkar íbúa sem og samstarfsmenn. Munum því eftir kærleikanum og reynum að dreifa gleðinni því það veitir sálinni yl á erfiðum tímum.

Það þarf oft ekki mikið til að gleðja sálina í okkur starfsfólkinu. Fyrir skemmstu vorum við með bleikan dag í vinnunni og allir skörtuðu sínu fegursta. Einn íbúi langt á tíræðis aldri var að hrósa okkur starfsfólkinu fyrir glæsileika og þá fór ég nú að hugsa hvernig sjónin hjá herramanninum væri og spurði hann hvað hann héldi að ég væri gömul. Þá glottir sá gamli og svarar sposkur : „ja, þú ert alla vega yngri en hundrað ára“ og svo skellihló sá gamli. Hann bjargaði ekki bara deginum hjá mér heldur allri vikunni.

Munum að halda í húmorinn og gleðina og fá aðra í lið með okkur því eins og kemur fram í textanum : „því bjarstýni, bros og gleði í sálinni er best, það ég tel“.

Kærleiksríkar aðventukveðjur til ykkar allra.

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hlévangs og Nesvalla

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur