Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 12. nóvember 2021 - Gestahöfundur er Valgerður K. Guðbjörnsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Sléttuvegi

(mynd birt með góðfúslegu leyfi)
(mynd birt með góðfúslegu leyfi)

 

Við eigum okkur öll misjafna daga og vöknum mis hress og til í daginn. En það er nú einu sinni þannig að við ákveðum sjálf hvernig við viljum hafa daginn og koma öðrum fyrir sjónir. Við á Hrafnistuheimilunum erum í þjónustustarfi og því skipta samskipti, samvinna og framkoma miklu máli í okkar starfi.

Það er eðlilegt að upplifa erfiðar tilfinningar og líðan eins og streitu, álag, áhyggjur, kvíða, bjargarleysi og reiði í þeim rússíbana sem við höfum verið í undanfarin ár. Besta hjálpin er fólgin í því að huga vel að sjálfum sér og öðrum, sýna umhyggju, umburðarlyndi og kærleika. Það veitir stuðning, hjálpar til við að ná stjórn í óvissunni, eykur seiglu og veitir gleði. Það kunna flestir einhver bjargráð sem hafa hjálpað þeim í erfiðum aðstæðum.

Margir telja að mannleg samskipti séu það mikilvægasta í lífinu. Það eru nokkur hugtök sem er vert að hafa í huga í samskiptum þ.e umhyggja, jákvæðni, tillitsemi, góðvild og samkennd.

Þörfin fyrir góð samskipti hefur sjaldnast verið meiri en núna. Þegar einhver sýnir manni tillitsemi, hvetur mann áfram eða gefur sér tíma til að hlusta þá líður okkur vel. Við finnum fyrir auknum krafti og gleði og það gefur lífinu lit. Að finna fyrir umhyggju og góðvild getur skipt miklu máli fyrir vellíðan okkar og einnig hvatt okkur til að sýna öðrum hlýju og tillitsemi. Jákvæð og vingjarnleg samskipti smita út frá sér og við getum haft mikil áhrif á aðra með orðum okkar og gjörðum.

Umhyggja er lykillinn að því að byggja upp, viðhalda og bera hag annarra fyrir brjósti og sýna þeim velvild. Við erum til staðar fyrir vini okkar og fjölskyldu, sýnum væntumþykju, tölum hlýlega og réttum hjálparhönd. Umhyggja með hugulsemi og virðingu gagnvart íbúum, aðstandendum og samstarfsfólki er ekki síður mikilvæg. 

Við getum veitt öðrum innblástur og haft góð áhrif á fólkið í kringum okkur þegar við tileinkum okkur jákvætt lífsviðhorf. Þó aðstæður séu erfiðar er oftast hægt að finna eitthvað jákvætt ef við leitum nógu vel. Allt verður léttara og ánægjulegra með jákvæðu hugarfari, bæði á vinnustaðnum og heima fyrir. Athafnir og orð hafa áhrif og við getum valið að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. Fátt er mikilvægara í mannlegum samskiptum og að sýna öðrum virðingu og tillitsemi. Tillitssemi krefst þess að við setjum okkur í spor annarra, sýnum þolinmæði og skilning og hugum að tilfinningum fólks. Það er gæfa að umgangast tillitssamt og hlýtt fólk og gerir lífið og starfið svo miklu auðveldara og skemmtilegra.

Verum góð við hvert annað, jákvæð samskipti eru gulls ígíldi.

 

Valgerður K. Guðbjörnsdóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu Sléttuvegi.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur