Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 8. október 2021 - Gestahöfundur er Inga Guðrún Sveinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Laugarási

 

Hinn 27. október næstkomandi er Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar, í tilefni af því ætla ég að koma að fáeinum punktum varðandi iðjuþjálfun.

Iðjuþjálfun er faggrein sem fer vaxandi á heimsvísu og starfsvettvangur iðjuþjálfa er afar margbreytilegur. Iðja er allt sem einstaklingar taka sér fyrir hendur daglega s.s. að koma sér á fætur, annast sig og sína, stunda atvinnu og/eða tómstundaiðju og að sinna hlutverkum sínum varðandi fjölskyldu, vináttu og þátttöku í hverskonar félagsstarfi.

Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af ýmsum ástæðum glíma við iðjuvanda. Sumir verða fyrir skerðingu á færni með sjúkdómum, áföllum og hækkandi aldri. Iðjuvandi getur komið upp þegar samspil einstaklings, iðju og umhverfis hefur raskast og kallar á aðlögun á umhverfi, iðju, samskiptum og aðstæðum til að leysa úr iðjuvanda. Markmið iðjuþjálfa er að efla iðju, heilsu, færni og lífsgæði einstaklinga og starfa með þeim í að yfirstíga hindranir við þátttöku í iðju í víðasta samhengi.

Flutningi á hjúkrunarheimili fylgja miklar breytingar á lífi fólks. Möguleikinn á að sinna iðju sem hefur merkingu og tilgang og skiptir einstaklinginn máli getur verið mikilvægur stuðningur við að aðlagast breytingunum. Hvatning til þátttöku í hópastarfi og fylgd á viðburði í húsinu er áríðandi og getur stuðlað að nýjum kynnum og ný hlutverk skapast með þátttöku í hópum og klúbbum. Nú er lag að nýta það svigrúm til samveru sem skapast hefur með tilslökun á sóttvarnarreglum.

Öll erum við einstök og þátttaka einstaklings þarf að vera í samræmi við óskir hans, vilja og getu. Miklu máli skiptir í þessu samhengi að þekkja lífssögu og bakgrunn þeirra sem farnir eru að gleyma. Að njóta samveru, geta spjallað um heima og geima, virðing og áhugi á manneskjunni eru eiginleikar sem nýtast öllum vel og ekki er úr vegi að rifja upp sígildan sannleik úr einræðum Starkaðar eftir skáldið Einar Ben:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

 

Að því sögðu hvet ég lesendur til að njóta augnabliksins, huga vel að eigin heilsu, gæta að jafnvægi í daglegu lífi og rækta tengsl við fjölskyldu og vini. Fara út í náttúruna, hreyfa sig og dást að litadýrð haustsins. Þó að birti þegar við brosum breitt skríður skammdegið að svo ekki gleyma endurskinsmerkjunum á útivistarfatnað og ljósabúnaði á hjól þegar verið er að viðra sig í rökkrinu.

 

Góðar stundir.

Inga Guðrún Sveinsdóttir

Deildarstjóri iðjuþjálfunar

Hrafnistu við Laugarás

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur