Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 1. október 2021 - Gestahöfundur er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

1. október, haustið er mætt í öllu sínu veldi. Las í blöðunum í gær að það hefðu ekki verið færri sólskinsstundir á höfuðborgarsvæðinu í 100 ár!

En hins vegar er svo sannarlega sól í hjarta þessa dagana, nýlega náðum við aftur því langþráða markmiði að geta aflétt heimsóknarbanni og einnig öðrum takmörkunum svo sem grímuskyldu og nú mega aðstandendur aftur mæta með íbúum á viðburði hjá okkur, fá sér kaffi og tertusneið í kaffihúsinu, koma á föstudagsballið, setjast með kaffibolla inn í betri stofuna okkar – allir þessir litlu hlutir sem manni fannst ekki svo merkilegir fyrir Covid en við sjáum nú hvað skipta okkur miklu máli.

Fyrsta opna ballið var með októberfest-þema, þvílíkt fjör, þvílíkur fjöldi sem mætti og gleðin skein úr andliti íbúa, gesta og starfsmanna. Við ætlum svo sannarlega að nota þennan glugga sem hefur opnast og vera dugleg að halda allskonar viðburði og bjóða til okkar gestum. Framundan er til dæmis haustfagnaður þar sem von er á frábærum listamönnum, Bleiki dagurinn, Halloween með tilheyrandi fjöri, Gaman saman deilda, Kótilettudagurinn, jólaball og svo miklu fleira – við ætlum svo sannarlega að vinna upp þessar sólskinslausu stundir á okkar hátt.

Finnst þessi tvö lokaerindi úr kvæðinu Kveðja að sumarmorgni eiga svo vel við þessa dagana:

Því með gleði í hjarta,
og endurfund í huga
föðumst við.

Loksins eftir svo langa bið
hlæjum við aftur
og erum saman

(Höf. Erna Eiríksdóttir)

Það er svo sannarlega ekki þannig að Covid lokanir og sólarlausar stundir hafi bara valdið okkur ama, við höfum lært að meta hlutina á annan hátt, allir þessir litlu hlutir sem við tókum vart eftir en við höfum nú lært að meta á nýjan hátt.

 

Eigið góða helgi,

Árdís Hulda Eiríksdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu Hraunvangi

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur