Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 27. ágúst 2021 - Gestahöfundur er Gígja Þórðardóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Laugarási

Ert þú farin(n) að lita þvottinn??

Vá hvað tilvera okkar allra hefur breyst á COVID tímum! Heiminum hefur verið snúið á hvolf, lífið sett í þvottavél á eitthvað prógram sem enginn kanna að stoppa. Alls staðar í heiminum keppast sérfræðingar (og einstaka „Covidar“) við að finna leiðir til að stoppa þvottavélina eða að minnsta kosti  hægja á henni og lækka hitastigið til að gera lífið bærilegra. Það hefur gengið misvel eins og við vitum en það magnaða er að flest höfum við uppgötvað að við þolum meiri bleytu, hærra hitastig og hraðari snúning en við hefðum getað ímyndað okkur fyrirfram.

Ég er nýlega komin út langþráðu sumarfríi og satt best að segja hoppaði ég ekki hæð mína við að koma aftur til vinnu þar sem snúningshraðinn hafði verið aukinn enn og aftur og ég varð vör við þreytu ansi margra samstarfsfélaga þrátt fyrir sumarfrí. Þessi endalausi þvottur skilur marga eftir  úrvinda. Tætta. Tóma. Vonsvikna. Hjálparlausa. Einmana. Pirraða. Þetta eru allt mjög eðlilegar tilfinningar og skiljanlegar. En þurfa þær að ráða för? Þarf þessi blessaða þvottavél og endalausa suðuprógram að ráða lífi okkar?  Við sem einstaklingar getum ekki stöðvað prógramið en við höfum alltaf val. Val um að sýna æðruleysi og breyta því sem við getum breytt; finna leiðir til að þola bleytuna, hitastigið og snúningshraða vélarinnar betur. Val um að styðja við hvort annað og hjálpa hvort öðru að aðlagast breyttri heimsmynd. Ef við tökum ekki stjórnina í eigin lífi fljótum við sofandi, þreytt og pirruð að feigðarósi. En spurningin er –HVAÐ get ég gert sem einstaklingur til að bæta eigin líðan og hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum mig ?

Fyrsta skrefið er að líta í eigin barm. Hvernig hefur mér tekist að aðlagast snúningshraða þvottavélarinnar? Er ég upptekin(n) af  endalausum viðvörunarhljóðum sem vélin gefur frá sér? Er mér alltaf of heitt/kalt? Hvað hef ég gert til að minnkað kvíða, einmannaleika og dofa yfir þessum síþvotti? Er ég kannski svo slæm(ur) að ég er farin að lita þvottinn?

Hér eru 5 leiðir til að lifa af þvottavélarprógrammið:

  • Vertu í sambandi
    • Það eykur vellíðan og sjálfsmat að tengjast öðru fólki og eiga góð samskipti hvort sem er á vinnustað eða í persónulegu lífi. Það kostar lítið að sýna öðrum áhuga og samkennd og skilar sér í aukinni lífsfyllingu.
    • Prófaðu að
      • Slökkva á öllum snjalltækjum við matarborðið, njóta matarins og eiga gæðastund með viðstöddum.
      • Skipuleggðu spilakvöld með fjölskyldu og vinum í  stað þess að horfa á enn einn þáttinn á Netflix
      • Hringdu í ömmu, pabba eða vin í stað þess að senda skilaboð á samfélagsmiðlum. Það er nánari tenging  að heyra rödd einhvers en skrifa skilaboð.
  • Vertu virk(ur)
    • Hreyfing léttir lífið á margan máta, bæði líkamlega og andlega. Aðalatriðið er að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og passar inn í þína daglegu rútínu.
    • Hreyfing utandyra bætir hressir og kætir og virðist endurnæra fólk jafnvel enn betur en hreyfing innandyra. Á Íslandi erum við einstaklega rík af fallegri náttúru, sundlaugum og fersku lofti þannig að það er engin afsökun fyrir því að hanga inni
  • Lærðu eitthvað nýtt
    • Hefur þig langað að læra nýtt tungumál, dans, nýja tækni, skrautskrift, tréútskurð? Kannski er kominn tími til að breyta svefnvenjum? Mataræði? Rannsóknir sýna að það eflir andlega heilsu og skerpir greind að læra nýja hluti alveg fram í rauðan dauðan. Endurforrita hugann. Eftir hverju bíður þú? Nú er tíminn!
  • Gefðu af þér
    • Það er sælla að gefa en þiggja kennir kristin trú okkur og hvort sem þú ert trúaður eða ekki þá hefur þú örugglega upplifað gleðina sem fyllir hjartað við að finna þakklæti annarra í þinn garð. Það þarf ekki að vera mikið og litlir hlutir skipta oft máli; spila uppáhaldstónlist íbúa,  lakka neglurnar á mömmu, sýna sveigjanleika í umferðinni, skilja eftir fallegan miða með hlýjum orðum á skrifborði samstarfsfélaga, bera krem á þreytta fætur íbúa eða jafnvel bara brosa. Gjafmildi og tillitssemi fyllir kroppinn af gleði og gefur margfalt til baka.
  • Vertu á staðnum
    • Ert þú ein(n) af þeim sem ert alltaf skrefi á undan þér? Farin(n) að skipuleggja morgundaginn þegar fjölskyldan situr við matarborðið og rými skapast til samræðna? Ert svo niðursokkinn í tölvunni/símanum að þú heyrir ekki þegar barnið þitt er að segja þér frá upplifunum dagsins eða íbúi kallar á hjálp? Ertu fastur í mistökum gærdagsins og kvíðir morgundeginum?
    • Þeir sem tileinka sér núvitund, þá list að vera í NÚINU, eru í betra jafnvægi, taka betur eftir hvað er að gerast í umhverfi sínu, taka betri ákvarðanir og eiga auðveldara með að tækla daglegt líf. 
    • Núvitund er í raun ekki flókin en krefst æfingar eins og annað. Best er að taka nokkra djúpa andardrætti reglulega yfir daginn til að núllstilla sig, minna sig á að það er allt eins og það á að vera og að við höfum val. Eins eru alls konar hugleiðslur m.a. á Spotify og veraldarvefnum sem virka vel.
    • Eitt besta ráð sem ég hef fengið er að ANDA nokkrum sinnum djúpt og meðvitað áður en maður kemur inn í vinnuna  eða heim eftir vinnudag. Þannig minnkar maður líkurnar á því að bera áhyggjur af heimilinu inn í vinnuna eða áhyggjur vinnunnar inn á heimilið sitt.
    • Er núvitund ekki einmitt það sem við þurfum til að takast á við þvottavélahristinginn?

 

You must take personal responsibility. You cannot change the circumstance, the seasons, or the wind, but you can change yourself. – Jim Rohn

 

Gígja Þórðardóttir,

Deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Laugarási.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur