Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 11. júní 2021 - Gestahöfundur er Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs

 

Um daginn var það rifjað upp fyrir mér að þegar sjómenn ákváðu að „beita sér fyrir fjársöfnun til stofnunar elli- og hvíldarheimilis fyrir aldraða“, þá var það gert með mannúðar- og menningarsjónarmiði að leiðarljósi. Af þessum rótum og með dyggum stuðningi Happdrættis DAS, Laugarásbíós og fleiri velunnara er sprottið fyrirbærið dvalaheimili aldraðra sjómanna (DAS) sem síðar fékk heitið Hrafnista og enn síðar bættist Naustavör við.

Rúmlega átta áratugum síðar standa þessi dótturfélög Sjómannadagsráðs saman sem stærsta fyrirtæki landsins í öldrunarþjónustu. Daglega þiggja vel á annað þúsund aldraðir búsetu og þjónustu í húsnæði sem við annaðhvort eigum sjálf, eða önnumst rekstur þess fyrir aðra.

Ótrúlegt hvað sjómenn voru framsýnir á þessum tíma og magnað að það séu ennþá sjómenn sem gera út þetta risa fyrirtæki sem við störfum fyrir.

Um síðustu helgi var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur og að þessu sinni skárust sóttvarnarmálin enn og aftur í leikinn. Það varð til þess að ekki var hægt að halda opnar fjöldasamkomur eins og við viljum gjarnan á þessum hátíðardegi. Engu að síður skreyttum við öll okkar Hrafnistuheimili og leiguíbúðir Naustavarar. Þar að auki var íbúum boðið upp á kótilettur, síðdegiskaffi og dagskrá í tilefni dagsins. Sjómenn og fjölskyldur þeirra minntust þeirra sjómanna sem hvíla í votri gröf, en sú virðulega athöfn fór fram við minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskirkju. Að lokinni minningarathöfn var hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni sem helguð er sjómönnum og minningu þeirra. Loks komu boðsgestir saman í okkar fallega sal á Sléttunni, þar sem heiðraðir voru fimm sjómenn fyrir störf sín við björgun og félagsmál sjómanna. Þar náði nýi salurinn vel utan um athöfnina á meðan starfsfólk Hrafnistu stjanaði við gesti til að gera þessa stund eins hátíðlega og kostur var.

Á degi eins og Sjómannadeginum upplifir maður það vel hve þessi menningar- og mannúðarsjónarmið eru rík í hjörtum sjómanna.

Til hamingju með daginn sjómenn og ég þakka ykkur starfsfólki Sjómannadagsráðs, Hrafnistu og Naustavarar fyrir að taka þátt í því að gefa þessum degi sjómanna verðugan sess í íslensku þjóðlífi.

 

Sigurður Garðarsson

Framkvæmdastjóri Sjómannadagráðs

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur