Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 28. maí 2021 - Gestahöfundur er Halldór Eiríksson verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

 

Dagurinn í dag, fimmtudagurinn 27. maí þegar þetta er skrifað, markar merkileg þáttaskil í mínu lífi; ég hef fengið seinni sprautuna af AstraZeneca bóluefninu og telst þá frjáls maður á ný að svo miklu leyti sem Covid-19 ástandið annars býður upp á það. Ekki amarlegt það. Og ekki að spyrja að því að undirritaður lá kylliflatur eftir fyrri sprautuna en að sögn ku það vera ótvírætt merki um almenna líkamshreysti og æskuþrótt að bregðast þannig við mótefninu. Þeim mun veikari því mun betra. Ég kýs að trúa því.

Að sjálfsögðu hefur covid-ið haft sín áhrif á innkaup Hrafnistu en það hefur verið í ýmsu að snúast til að bregðast við aðstæðum, vöruskorti og verðhækkunum og að skipuleggja innkaup fram í tímann. Það bliknar samt í samanburði við það verkefni starfsfólks Hrafnistu í sóttvörnum og aðhlynningu sem hefur staðið sig eins og hetjur við að halda heimilunum lausum við smit. Hrós vikunnar (og alls síðasta árs eða svo) frá mér til ykkar.     

Annars er ekki úr vegi, úr því undirritaður hefur fengið tækifæri til að skrifa pistil vikunnar, að greina stuttlega frá nýlegum breytingum á þjónustu innkaupasviðs og hvað er framundan fyrir notendur.

Nú nýlega hefur hjúkrunarlager Hrafnistu fengið nýtt aðsetur á Hraunvangi eftir stutta viðkomu á Ísafold. Jafnframt hefur Laufey Sigrún Sigmarsdóttir nú tekið við umsjón hjúkrunarlagersins í stað Bjargar Snjólfsdóttur. Ég vil nota tækifærið til að þakka Björgu fyrir samstarfið og óska Laufeyju góðs gengis í nýju hlutverki. Að öðru leyti er rekstur hjúkrunarlagers í sama horfi og verið hefur.

Það er stöðug þróun í gangi á Timian innkaupakerfinu og hægt og bítandi reynum við að bæta innkaupaferilinn innan Hrafnistu. Fyrir all nokkru síðan var komið á kerfi yfirnotenda („super users“) Timian á hverju heimili. Yfirnotendum er m.a. ætlað að vera notendum til stuðnings á hverju heimili og leiðbeina um rétta notkun kerfisins. Þessi tilhögun hefur gefið góða raun og vil ég hvetja notendur til að leita til þeirra um aðstoð ef á þarf að halda. Að sjálfsögðu er ég svo einnig til þjónustu reiðubúinn.

Eins og þið mörg hver þekkið hefur verið í gangi tvöfalt samþykktarkerfi reikninga/pantana innan Hrafnistu; hið hefðbundna samþykktarkerfi reikninga í bókhaldskerfi og samþykkt pantana í Timian. Þetta er að sjálfsögðu ákveðinn tvíverknaður. Nú stendur hinsvegar yfir innleiðing á samþættu samþykktarkerfi á pöntunum og reikningum. Þá eru reikningar paraðir við pantanir í innkaupakerfinu og bæði pöntun og reikningur samþykkt á sama stað. Þessi ferill nær yfir birgja sem eru skilgreindir sem rafrænir birgjar og fyrst í stað eru nánast eingöngu matarbirgjar inn í þessu kerfi og fer þeim smám saman fjölgandi. Síðar munu önnur innkaup, s.s. hjúkrunarvöru- og rekstrarvöruinnkaup fara inn í þetta kerfi. Þar með munum við losna við þessa tvöföldu samþykkt sem mun án efa létta fólki mjög lífið.

Með þessari breytingu munu upplýsingar um innkaup liggja fyrr fyrir en ella og verða nákvæmari sem auðveldar skýrslugjöf. Nú stendur fyrir dyrum að taka í notkun öflugt skýrslugerðartól (Power BI) sem gefur færi á snemmbærari og nákvæmari greiningu á kostnaði en áður hefur verið mögulegt. Þegar þetta tól er komið í gagnið mun útgáfa hagtalna í núverandi formi að öllum líkindum leggjast af.

Læt þetta nægja að sinni. Njótið helgarinnar!

Halldór Eiríksson

Verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur