Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 30. apríl 2021 - Gestahöfundur er Sigurður Á. Sigurðsson, forstjóri happdrættis D.A.S.

 

Das ist gut!

 

Framundan eru „áramótin“ í Happdrætti DAS. Fyrsti útdráttur á nýju happdrættisári fer fram 11. maí n.k. Dregið verður tvisvar í þeirri viku. Seinni útdrátturinn fer fram 14. maí.

Slagorðið í ár verður: „Fimmtudagar eru DAS dagar“.

Árangur Happdrættis DAS á því happdrættisári sem er að líða stefnir í að verða eitt það besta í sögu happdrættisins. Er þetta annað árið í röð sem svo góður árangur næst. Leita verður tugi ára aftur í tímann til að sjá álíkan árangur. Því ber að fagna.

Símasala hefur staðið yfir nú í nokkur ár og hefur það verið vítamínssprauta í að auka við sölu happdrættismiða. Stígandi hefur verið í símasölunni og vonandi að það haldist.

Þá hefur mikil aukning verið í aðsókn á heimasíðu happdrættisins www.das.is

Þess má geta að Happdrætti DAS heldur einnig úti facebook-síðu https://www.facebook.com/HappDAS

Vinningar á nýju happdrættisári verða með svipuðu sniði. Óbreytt miðaverð helst í 1.700 kr. (einfaldur miði) eða 3.400 kr. (tvöfaldur miði).

Heildarverðmæti vinninga helst óbreytt eða 1,3 milljarður. Í boði verða 6 aðalvinningar hver að upphæð 30 milljónir, 5 aðalvinningar að upphæð 8 milljónir og 41 aðalvinningur að upphæð 4 milljónir hver. Allt á tvöfaldan miða. Heildarfjöldi vinninga verður rúmar 51 þúsund.

Í hvað hefur ágóðinn að Happdrætti DAS farið í?

Á allra síðustu árum hefur ágóðinn verið nýttur m.a. í nýja eldhúsið á Hrafnistu í Laugarási sem vígt var í nóvember 2019. Sama má segja um Skálafell, kaffihúsið á Hrafnistu í Laugarási og anddyrið þar fyrir framan. Svo ekki sé talað um breytingar á vistaverum á Hrafnistu í Laugarási, þegar tvö herbergi voru gerð að einu.

Framundan eru endurbætur á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði og ef vel tekst til í Happdrætti DAS mun hagnaðurinn nýtast vel í það verkefni.

Happdrætti DAS hefur verið í 66 ár fjárhagslegur bakhjarl í uppbyggingu og viðhaldi á fasteignum Hrafnistuheimilanna. En fjármagnið dettur ekki að himnum ofan. Það þarf að hafa fyrir hlutunum með öflugri markaðssetningu og áminningu til Íslendinga um mikilvægi Happdrættis DAS í málefnum aldraða.

Starfsemi Happdrættis DAS hefur sem betur fer ekki stöðvast á COVID-19 tímum. Starfsfólki var skipt upp í 2 hópa og vann annar hópurinn heima á meðan hinn var á vinnustað. Allir útdrættir fóru fram á tilsettum dráttardögum.

Stöndum saman og hvetjum fólk til að kaupa miða. Um leið og góðu málefni er lagt lið er von á góðum vinningum.

Fyrir hönd Happdrættis D.A.S. og starfsfólks óskum við starfsfólki Hrafnistu í Laugarási, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Garðabæ, Skógarbæ og Sléttunni gleðilegs sumars.

 

Sigurður Ágúst Sigurðsson,

forstjóri  Happdrættis D.A.S.

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur