Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 23. apríl 2021 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

 

Kæru samstarfsfélagar,

 

Gleðilegt sumar.

Það er eitthvað svo gott við að vita að sumarið sé handan við hornið, trén eru farin að vakna og daginn að lengja á hverjum degi. Búið er að ganga á ýmsu hjá okkur á Hrafnistu, en bólusetningar ganga vel og umræðan um rekstur hjúkrunarheimila er raunsæ svo það er vel hægt að horfa fram á bjartari tíma.

Hrafnista í fréttum

Ykkur til upplýsingar er varðar uppsagnir á Hrafnistuheimilunum sem voru í mars sl. Þá voru þessar uppsagnir  mér og öðrum stjórnendum mjög erfiðar en eins og ég sagði í tilkynningu til starfsmanna á Workplace þá er þeim uppsögnum sem fyrirhugað var að fara í, lokið hér með. Að mínu mati þá eru þessar uppsagnir í fullkominni mótsögn við þær kröfur sem til okkar eru gerðar. Eins og við höfum margoft rætt þá vantar okkur  aukinn mannskap og megum ekki  við því að missa gott fólk. Hrafnistuheimilin eru samningsbundin Sjúkratryggingum Íslands með þjónustu til handa okkar íbúum. Hrafnistu ber að veita ákveðna þjónustu og Sjúkratryggingar Íslands hafa það hlutverk að sjá til þess að tekjurnar til okkar dekki þær kjarasamningsbundnu hækkanir sem ríkið semur sjálft um. Stjórnendur Hrafnistu höfðu bæði upplýst Sjúkratryggingar Íslands sem og heilbrigðisráðuneytið um þær aðstæður sem upp voru komnar, þ.e. að tekjurnar dygðu ekki fyrir kjarasamningshækkunum, og þær aðgerðir sem þyrfti að fara í ef ekki kæmi leiðrétting á þessu misræmi. Því miður var fátt um svör. Það voru því þung skref að þurfa að fara þessa leið. Góðu fréttirnar eru þó þær að í byrjun apríl sl. kom ákveðin hækkun á einingaverðinu, eftir að málið fékk umræðu í fjölmiðlum. Enn á eftir að koma í ljós hvernig tekjurnar verða leiðréttar fyrir Betri vinnutíma en við erum bjartsýn á að það eigi eftir að ganga vel.

Gylfaskýrslan

Þið hafið eflaust heyrt af skýrslu sem hefur verið í vinnslu af frumkvæði heilbrigðisráðherra og kölluð er Gylfaskýrslan. Heilbrigðisráðherra skipaði vinnuhóp þann 20. júlí 2020 sem samanstóð af fulltrúum frá heilbrigðisráðuneyti, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Henni var ætlað að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila ásamt því að greina hvað sú þjónusta kostar ef farið væri eftir viðmiðum Embætti landlæknis um mönnun hjúkrunarheimila. Þetta er það sem stjórn SFV og hjúkrunarheimilin hafa verið að kalla eftir í mörg ár. Hrafnista og Grundarheimilin höfðu gert sambærilega skýrslu fyrir nokkrum árum síðan.

Við bíðum spennt eftir að sjá hverjar niðurstöður skýrslunnar verða, en kynna á skýrsluna fyrir heilbrigðisráðherra í dag og væntanlega fljótlega eftir það fyrir almenning. Við bindum miklar vonir við að rekstrargrundvöllum hjúkrunarheimila landsins verði leiðréttur í samræmi við þá þjónustu sem okkur er ætlað að veita til handa okkar íbúum.

Care vision

Það gleður mig að segja ykkur frá því að í næstu viku mun Care vision, nýtt hjúkrunarskráningarkerfi/verkefnastjórnunarkerfi, fara formlega í gang til reynslu á einni hjúkrunardeildinni á Hrafnistu í Laugarási. Kerfinu er ætlað að tryggja betra upplýsingaflæði til starfsfólks Hrafnistu um hvern íbúa ásamt því að allir starfsmenn skrái upplýsingar í kerfið sem mun halda utan um sjúkraskrá íbúa. Kerfið heldur einnig utan um verkefni sem er mjög gagnlegt þegar muna þarf margt á stóru heimili. Heilbrigðissvið hefur unnið hörðum höndum að undirbúningi á þessu verkefni auk dyggrar aðstoðar frá rekstrarsviði Hrafnistu, Ólafi Aðalsteinssyni og Sensa. Við leyfum ykkur sannarlega að fylgjast vel með þessu verkefni.

Betri vinnutími

Það hefur verið spennandi að fylgjast með Hrafnistuhópnum undirbúa eina stærstu kjarasamningsbreytingu sem hefur verið gerð á vinnumarkaði svo lengi sem menn muna, Betri vinnutíma. Verið er að auka frítíma starfsfólks með það að markmiði að bæta vinnuumhverfi starfsmanns. Loksins hefur það verið viðurkennt að fjölbreyttur vinnutími, þar sem verið er að ganga fjölbreyttar vaktir, er meira krefjandi en önnur tegund af vinnu.

Þetta er langt frá því að vera einfalt verkefni og segja má að við séum að finna upp hjólið á hverjum degi. Því biðla ég til ykkar kæru starfsfélagar að aðstoða stjórnendur við að gera þetta vel en jafnframt sýna mér og þeim þolinmæði á meðan verið er að finna bestu útgáfuna. Það mun taka svolítinn tíma.

Eins og áður er það vel við hæfi að enda föstudagsmolana á því að telja upp þá starfsmenn sem eiga starfsafmæli. Sú verðmæta þekking sem skapast á hverju ári í starfsmannahópnum skilar sér beint til þeirra sem þiggja þjónustu hjá okkur á Hrafnistu. Starfsafmæli í apríl eiga:

3 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru það Magdalena Bogadóttir á Lækjartorgi, María Björg Júlíusdóttir á Miklatorgi/Engey Shahla Omar Othman og Sheymaa Omar Othman báðar í Skálafelli. Í Hraunvangi eru það Sara Mist Ingvarsdóttir á Báruhrauni, Vania Alexandra Gomes Almeida í ræstingu og Elín Dalrós Richter á Ölduhrauni. Í Boðaþingi er það Sigríður Jóhanna Sigurðardóttir hjúkrunardeildarstjóri. Í Reykjanesbæ eru það Beata Wiecko á Nesvöllum og Guðlaug Sirung Vestmann og Harpa Rós Hilmisdóttir, báðar á Hlévangi.

5 ára starfsafmæli: Í Laugarási er það Teodora Tagubase Apale í Skálafelli. Í Hraunvangi er það Anna Margrét Sigurjónsdóttir á Ölduhrauni.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu.

 

Enn og aftur, gleðilegt sumar!

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

Meðfylgjandi mynd af vorboðanum ljúfa er fengin að láni á veraldarvefnum https://www.nutiminn.is/folk-frettir/heidloan-er-fugl-arsins-2021/

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur