Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 16. apríl 2021 - Gestahöfundur er Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020__Y2A3199-20200517-26_resize.jpeg

Föstudagsmolar 16. apríl 2021

Þá líður að árlegum og ánægjulegum tímamótum okkar Íslendinga en það er þegar sumarið gengur í garð og liðinn vetur kvaddur. Á fimmtudaginn í næstu viku höldum við upp á Sumardaginn fyrsta, þó á annan hátt en viðgengist hefur  hér á Hrafnistuheimilunum  til fjölda ára.  Enn hangir vofa veirusýkingarinnar yfir okkur þó að tekist hafi að útbúa og framleiða bóluefni til varnar henni.  Allir íbúar Hrafnistuheimilanna ásamt starfsfólki hefur nú verið bólusett og hefur það létt á starfsemi heimilanna verulega. Sjá má það á göngum og í borðsölum að ásýndin hefur breyst. Fólki á ferli hefur fjölgað og ekki er lengur grímuskylda þeirra sem hér búa og vinna. Mér er tamt þegar ég hugsa til fólksins okkar á heimilunum hve allt hefur þó raunverulega tekist vel. Vágestinum hefur verið haldið frá og það er ljóst að illa hefði getað farið hefði ekki verið gripið til verulega íþyngjandi ráðstafana í tæka tíð. Því miður hefur þetta ástand bitnað á skjólstæðingum okkar af miklu afli þar sem skerða þurfti aðgengi ættingja og vina að íbúum. Það var ekki létt fyrir starfsfólk að þurfa að beita svo hörðum aðgerðum, en sem betur fer tókst þrátt fyrir allt að vísa þessum óboðna gesti frá.  Starfsfólk allt hefur sýnt mikinn dug og áræðni í störfum sínum og verður það seint fullþakkað.  Farnist okkur öllum vel við þessar aðstæður tekst væntanlega svo vel  að koma á eðlilegu ástandi  fyrr en síðar. 

Það var erfitt fyrir okkur Sjómannadagsráðsmenn að fella niður hátíðahöld á Sjómannadaginn í fyrsta skipti í rúmlega áttatíu ára sögu okkar en við fórum í einu og öllu eftir fyrirmælum sóttvarnarlæknis og almannavarna.  Á okkur var lítillega deilt vegna þess að hafa fellt minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði niður. Við gátum fallist á að það var mjög erfið ákvörðun en eins og með aðrar ákvarðanir hlýddum við því sem á okkur var lagt.  Því miður er útlit lítið skárra varðandi hátíðahöld Sjómannadagsins nú í ár og litlar líkur á að hægt verði að halda hátíð við Reykjavíkurhöfn.  Eins og fyrr erum við í góðri samvinnu við Faxaflóahafnir og Brim hf. um hátíðahöldin og þakklát fyrir hversu sú samvinna hefur skilað góðum árangri. Hafið þið þökk fyrir.

Á síðastliðnu ári var lokið við byggingu 60 leiguíbúða Sjómannadagsráðs við Sléttuveg og fluttu íbúar í húsið í ágúst.  Leiguíbúðirnar tengjast þjónustukjarna sem tengist hjúkrunarheimilinu.  Við teljum að afar vel hafi til tekist með þessar framkvæmdir og reiknum með að áfram verði haldið fljótlega og hafist handa við að byggja 80 leiguíbúðir við Skógarveg í eigu Sjómannadagsráðs, sem tengjast mun húsunum við Sléttuveg innandyra. Af öðrum framkvæmdum má nefna fyrirhugaða lagfæringu á „A -álmu“ Hrafnistu við Hraunvang í Hafnarfirði en það er ljóst að fyrir dyrum standa miklar lagfæringar á húsnæðinu öllu þó ekki verði ráðist í þær allar nú.  Húsið allt er farið að láta verulega á sjá og mikil þörf á að hafist verði handa innan fárra ára að taka það allt í gegn.  Hér hefur verið drepið aðeins lítillega á framkvæmdir sem standa fyrir dyrum en ljóst að mikið fjármagn þarf til, svo endum verði náð saman.

Fyrir hönd Sjómannadagsráðs óska ég ykkur gleðilegs og ánægjulegs sumars og þakka um leið fyrir góð og óeigingjörn störf  á liðnum vetri.

 

Hálfdan Henrysson,

Stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur