Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 9. apríl 2021 - Gestahöfundur er Harpa Björgvinsdóttir deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði

 

Í starfi okkar iðjuþjálfa hér á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði notum við þó nokkuð minningavinnu (reminiscence) með heimilisfólkinu og má segja að við slíka vinnu skapi æfingin meistarann, þ.e.a.s.  æfing iðjuþjálfans, þar sem vitneskja og kunnátta um lífið hér áður fyrr vinnur með manni við slíka vinnu.

Það má eiginlega segja að ég hafi tekið mín fyrstu skref í minningavinnu þegar ég var lítil stelpa því ég var svo lánsöm að föðurafi minn bjó í kjallaranum á æskuheimili mínu í Vestmannaeyjum og sótti ég mikið til hans. Hann hafði gaman af því að rifja upp hvernig lífið var í sveitinni á hans yngri árum og bjó hann yfir snilldar frásagnarhæfileikum, svo lítil stelpa gat séð allar sögurnar ljóslifandi fyrir sér í huganum og kynnst þannig aðstæðum og skyldfólkinu í gegnum frásagnirnar hans. Núna, öllum þessum árum síðar, sé ég að á bak við frásagnir hans voru oft miklar tilfinningar, söknuður, gleði, hamingja og sorg sem að hann, sennilega ómeðvitað, vann úr með því að segja sögurnar og eiga samtalið þó það væri aðeins við litla stelpu sem spurði eflaust fullt af spurningum sem áttu misvel við aðstæðurnar hverju sinni.

En hugmyndin á bak við minningavinnu er einmitt að rifja upp minningar með skipulögðum hætti til að bæta líðan og færni einstaklingsins og nýtum við þannig minningarnar m.a. til sjálfstyrkingar.

Minningavinnan hjá okkur fer fram annað hvort í litlum hópum eða sem einstaklingsþjálfun, allt eftir því hvert markmiðið með þjálfuninni er ásamt því að horft er til getu og hæfni einstaklingsins sem tekur þátt í minningavinnunni þegar hún er skipulögð. Við undirbúning á slíkri vinnu er meðal annars hægt að nota upplýsingar úr Lífssögu heimilismannsins og getur hún spilað þar stóran þátt, því með góðum upplýsingum um einstaklinginn og innsýn inn í líf hans áður en hann varð aldraður eru meiri möguleikar á að ná betri tengslum og betri árangri.

Í hverjum tíma er ákveðið þema eða umræðuefni og undirbúum við okkur með því að safna að okkur ýmsum minningakveikjum sem hjálpa heimilisfólkinu að rifja upp. Minningakveikjur geta verið t.d. hlutir, myndir, frásagnir, lykt, bragð, tónlist og margt fleira.

Hver kannast til dæmis ekki við að heyra lag í útvarpinu og það flytur okkur aftur í tímann í einhverja minningu eða upplifun sem við eigum tengda þessu lagi. Eða við finnum lykt sem við höfum ekki fundið lengi, bragð, handfjötlum einhvern hlut eða sjáum mynd frá gamalli tíð eins og t.d. blessuðu fermingarmyndirnar af okkur og hugsum þá kannski í leiðinni hvað í ósköpunum kom fyrir tískuna á þessum tíma; herðapúðar fyrir allan peninginn, hárið sítt að aftan hjá sumum og greitt í „vængi“ hjá öðrum.....þið kannist kannski við þetta sem fermdust í kringum 1987.

Á þeim tæpu níu árum sem ég hef unnið á heimilinu má því segja að upp hafi verið rifjaðar töluvert mikið af minningum, mikið af þeim góðum en stundum ekki svo góðum en það er líka hluti af minningavinnunni, að vinna með erfiðar minningar og upplifanir sem setið hafa í fólki í jafnvel fjölda ára og finna þeim farveg sem hægt er að vera sáttur með. Í gegnum þessa vinnu hef ég lært ótrúlega mikið um fyrri tíma og verð ég að segja að þrátt fyrir að vera u.þ.b. helmingi yngri en margur viðmælandinn að þá eru margar minningarnar og viðburðir í sögu tímans sem að við eigum sameiginlegt. Eins og t.d. sjónvarpið; svört hvít mynd, engar útsendingar á fimmtudögum og ekkert sjónvarp í júlímánuði. Útvarpið: snúningstakki til að finna réttu bylgjulengdina, bara RÚV í boði áður en allar hinar stöðvarnar bættust við, óskalög sjúklinga, óskalög sjómanna, kanaútvarpið og fleira má nefna.

Og síðast en ekki síst áður en ég hætti langar mig að minnast á sveitasímann. Hver man ekki eftir sveitasímanum sem einhvern tímann hefur stigið fæti inn á sveitabæ fyrir örfáum árum. Ein stutt og tvær langar gat verið símanúmerið á bænum og fólk af næsta bæ fékk jafnvel afnot af símanum þar sem ekki voru allir svo lánsamir að eiga slík eðaltól. Það má eiginlega segja að sveitasíminn hafi verið samfélagsmiðill þessa tíma, þar sem oft voru fleiri á línunni en ætlast var til og sögurnar sem sagðar voru í símann flugu lengra en upphaflega var ætlað.  

Eftir „nokkur“ ár verða það svo eflaust Facebook, Instagram, Snapchat og hvað þetta nú allt heitir sem verður umræðuefni minningavinnu minnar kynslóðar í stað sveitasímans. Mikið sem það verður nú fróðlegt.

 

Góða helgi!

Harpa Björgvinsdóttir

Deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Hraunvangi.

 

  •  

    Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur