Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar mánudaginn 22. mars 2021 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

 

Kæru samstarfsfélagar, þessir föstudagsmolar eru aðeins seinni á ferðinni en vanalega og eru því hálfgerðir mánudagsmolar. 

 

Það er alltaf eitthvað um að vera á Hrafnistu sem gerir þetta starf okkar svo krefjandi en samt svo lærdómsríkt og áhugavert.

Berklar

Líkt og fram hefur komið í fréttum þá kom upp jákvæð svörun við berklum, samt ekki smitandi,  á Hrafnistu á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Berklar geta blundað í fólki án þess að það sýni einkenni og án þess að það sé smitandi. Stjórnendur Nesvalla hafa unnið hörðum höndum undanfarna viku, ásamt yfirlækni sóttvarna á heilsugæslunni, við að ná utan um þetta verkefni.

Sýkingarvarnarstjóri og framkvæmdaráð Hrafnistuheimilanna mun ákveða í framhaldinu verklag tengt skimun við berklum á Hrafnistu.

Við sendum samstarfsfólki okkar og íbúum Nesvalla hjartans kveðjur og stuðning í þessu verkefni sem þau glíma við.

Eldgos

Móðir jörð er engri lík, henni fannst við alveg geta bætt við okkur einu gosi. Hún var nú samt svo almennileg að hafa það lítið og sætt. Það hefur þó heldur betur reynt á suðurnesjamenn undanfarið þar sem jörð hefur hrist þau til á öllum tímum sólarhringsins sem er ansi þreytandi og erfitt til lengdar. Því er næstum hægt að þakka fyrir að loksins kom upp gos á þessum fína stað þar sem ekki stafar ógn af. Neyðarstjórn Hrafnistu sendi leiðbeiningar á öll heimilin um hvað beri að varast þegar kemur að áhrifum eldgossins og fylgist áfram vel með málum.

Kannski eru þetta álfarnir okkar að rétta okkur björgunarkút með þessu litla gosi svo að ferðamenn hópist til landsins, allavega þeir sem eru með mótefni, með von um að rétta hraðar við ferðaþjónustu landsins sem hefur átt erfitt uppdráttar á tímum Covid-19.

Rekstur hjúkrunarheimilanna

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá ykkur sú umræða sem hefur verið í gangi tengt rekstri hjúkrunarheimila og að sveitarfélögin hafi verið að skila inn rekstri hjúkrunarheimila til ríkisins. Ykkur til upplýsingar þá hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem Hrafnistuheimilin eru aðilar að, barist fyrir því í nokkur ár að greiðslur til hjúkrunarheimila séu leiðréttar í samræmi við þær kröfur sem ríkið gerir til hjúkrunarheimilanna. Í gangi hefur verið hópur sem heilbrigðisráðherra skipaði sem hafði það hlutverk að reikna út hvaða tekjur heimilin eru að fá og hvað þær kröfur kosta sem ríkið setur á hjúkrunarheimilin. Sú skýrsla er unnin af KPMG og eru niðurstöður væntanlegar á næstu dögum að mér skilst. Við bindum miklar vonar við þessa skýrslu þar sem þarna koma saman þeir aðilar sem hafa verið að deila um tekjur og kröfur og er fulltrúi frá SFV hluti af þeim hóp sem og heilbrigðisráðherra. Við vonum að rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila verði leiðrétt þannig að tekjur og kröfur haldist í hendur. Við leyfum ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með gangi mála þarna.

Covid-19 er ekki búið

Nei það er sko ekki búið. Eins og þið sjáið með fjölda hópsmita þá þarf lítið að gerast til að við missum þetta aftur af stað í nýrri bylgju. Mikilvægt er að við höfum öll í huga að Covid-19 er ekki búið og við verðum áfram að gæta okkar, hvert og eitt, og halda uppi sóttvörnum og fylgja þeim leiðbeiningum sem eru í gangi hverju sinni. Munum eftir handþvotti og verið vakandi fyrir einkennum bæði hjá ykkur sjálfum og hjá íbúum okkar. Notum andlitsgrímur ef við erum óbólusett eða þegar við erum að aðstoða óbólusetta íbúa.

Við ætlum að halda þetta út saman.

Starfsafmæli á Hrafnistu

Ég ætla að fá að enda á gleðiefninu sem eru starfsafmæli starfsfólks Hrafnistu.  Í mars áttu eftirfarandi starfsmenn starfsafmæli:

3 ára starfsafmæli: Í Laugarási er það Alma Dögg Torfadóttir á Miklatorgi/Engey.  Í Hraunvangi eru það Rebekka Rán F. Eriksdóttir á Bylgjuhrauni og Mary Kathleen Openia Alguno á Sjávar-/Ægishrauni.  Í Boðaþingi er það Birta Elíasdóttir. Á Hlévangi er það Sigríður Inga Eysteinsdóttir. Á Ísafold er það Signý Arnórsdóttir á skrifstofu.

5 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru það Yohana Puspita Dewi í Skálafelli, Jóna Petra Guðmundsdóttir í bóhalds- og launadeild, Sölvi Bernódus Helgason og Regína Vilhjálmsdóttir bæði á Lækjartorgi. Inga Bergdís Gunnarsdóttir á Sól- og Mánateig og Greta Norkeviciute á Vitatorgi. Í Hraunvangi er það Karin Eva Hermannsdóttir á Sjávar- og Ægishrauni. Í Boðaþingi eru það Álfhildur R. Halldórsdóttir og Kristine Joy B Dupaya.

10 ára starfsafmæli: Finnbjörg Skaftadóttir deildarstjóri í dagþjálfun Laugarási.

15 ára starfsafmæli: Jóhanna G. Erlingsdóttir á Vitatorgi í Laugarási og Rungjit T. Trakulma á Hrafnistu Sléttuvegi.  

Síðast en ekki síst er það hún Jónína Jörgensdóttir kaupfélagsstjóri í kaupfélaginu á Hrafnistu í Laugarási sem á hvorki meira né minna en 35 ára starfsafmæli!

 

Ég met hollustu ykkar mikils því með ykkur fylgir þekking og reynsla sem er íbúum Hrafnistu, nýju starfsfólk og okkur hinum ómetanleg. Með ykkur erum við betri. Innilega til hamingju öll.

 

Kær kveðja,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

meðf. mynd er fengin að láni á veraldarvefnum: https://www.facebook.com/reykjavikphoto/photos/pcb.2884159198525352/2884158711858734  

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur