Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 12. mars 2021 - Gestahöfundur er Eygló Tómasdóttir, deildarstjóri Viðey dagþjálfun

Dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun

Í október síðastliðnum tók ég við starfi deildarstjóra á Viðey sem er dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun. Mig langar að segja ykkur aðeins frá starfseminni sem þar fer fram.

Viðey hóf starfsemi sína í maí árið 2019. Deildin er staðsett á 3. hæð fyrir ofan Skálafell, kaffihúsið/borðsalinn, á Hrafnistu í Laugarási og getur tekið á móti 30 manns á degi hverjum. Þeir sem nýta sér þjónustu okkar á Viðey er fólk sem er greint með heilabilun og býr ennþá heima. Deildin er opin frá kl. 8-16 alla virka daga.

Heilabilun er regnhlífarhugtak sem nær yfir u.þ.b. 200 mismunandi tegundir heilabilunarsjúkdóma og getur fjöldi sjúkdóma haft einhvers konar heilabilun í för með sér. Heilabilun gerir það að verkum að fólk missir ýmiskonar færni og getur framgangur sjúkdómsins verið misjafnlega hraður á milli einstaklinga.

Markmið starfsins á deildinni er að rjúfa einangrun einstaklinga og gefa þeim kost á að umgangast jafningja. Taka þátt í daglegum athöfnum og þjálfa hug og hönd eins og geta hvers og eins býður upp á. Áhersla er á að gera einstaklingnum kleift að búa heima og viðhalda sjálfsbjargargetu.

Á deildinni fer fram fjölbreytt félagsstarf, eins og t.d. upplestur úr dagblöðum og bókum, bingó, gönguferðir, boccia, söngur, dans, ýmiskonar handavinna og margt fleira.  

Lögð er áhersla á að hafa eitthvað fyrir alla því eins og gefur að skilja þá hentar ekki öllum það sama. Starfsemin þarf að vera sveigjanleg og er mikilvægt að starfsfólkið þekki vel skjólstæðingana og þeirra þarfir. Mikill hluti af starfi okkar felst í því að hvetja fólk til að taka þátt í þeirri virkni sem er í boði, sumir eru ragir við að prófa og hafa ekki trú á því að þeir ráði við verkefnin. Það er því ótrúlega gaman að sjá þegar skjólstæðingar okkar ná að endurvekja færni sem það var búið að missa niður. Til dæmis er hjá okkur kona sem prjónaði mikið á árum áður en hafði ekki prjónað í nokkur ár þegar hún kom til okkar. Hún taldi sig ekki kunna að prjóna lengur. Eftir að hafa verið hjá okkur í nokkrar vikur, fékk hún kjark til að endurvekja gamla áhugamálið og hún hefur ekki hætt að prjóna síðan. Við höfum fullt af samskonar sögum að segja og er það svo sannarlega gefandi að verða vitni að framförum skjólstæðinga okkar.

Heilavinur

Í lokin langar mig að vekja athygli á verkefni sem Alzheimersamtökin á Íslandi og Akureyrarbær stendur fyrir. Verkefnið heitir Heilavinir og er markmið verkefnisins að gera Ísland að styðjandi samfélagi fyrir fólk með heilabilun. Markmiðið er að safna einum Heilavini fyrir hvern greindan Íslending.

Heilavinur tekur eftir og bregst við aðstæðum sem kunna að koma upp þar sem einstaklingur er í vanda og virðist ekki ráða við.

Heilavinur getur sýnt samhug og vinsemd á margan hátt:

  • Sýnt þolinmæði og komið einstaklingi til hjálpar sem lendir í erfiðleikum t.d. í verslun við að finna vörur, í biðröð á kassa og þegar greiða á fyrir vörurnar.
  • Ef einstaklingur hefur villst af leið og ratar ekki heim, að koma þá viðkomandi til hjálpar.
  • Ef einstaklingur er í búningsklefa og finnur ekki salernið og margt fleira.

Hugsa má það að vera heilavinur á svipaðan hátt og skyndihjálparnámskeið, maður kemur fólki í neyð til aðstoðar.

Nánari upplýsingar má finna á: https://www.heilavinur.is/

 

Góða helgi!

Eygló Tómasdóttir

Deildarstjóri Viðey dagþjálfun

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur