Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 12. febrúar 2021 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA
Föstudaginn 12. febrúar 2021.

 

Kæru samstarfsfélagar,

 

Svona rétt áður en þið brunið inn í helgina.

Fyrst jákvæðu fréttirnar að sjálfsögðu og það er auðvitað bólusetningar starfsmanna. Það eru sannarlega gleðifréttir að byrjað er að bólusetja starfsfólk hjúkrunarheimila. Bólusetningar á Hrafnistu hófust sem sagt í gær fimmtudag á nokkrum heimilum Hrafnistu, nánar tiltekið í Boðaþingi, Skógarbæ og Sléttuvegi. Flensueinkenni komu upp hjá mörgum eins og búast mátti við en í þetta sinn fögnum við flensueinkennunum þar sem það eru ákveðin merki um að bóluefnið er að virka. Ég veit að starfsfólk þessara heimila hefur tekið þessum veikindum af yfirvegun líkt og þeim einum er lagið, hafa sett undir sig hausinn og geta fagnað um helgina yfir að vera orðin bólusett. Við fögnum innilega með þeim og óskum þeim hjartanlega til hamingju.

Annað sem mætti vera betra er framkoma Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðherra gagnvart hjúkrunarheimilum landsins

Eins og fram hefur komið í fréttum vikunnar þá hryggir mig viðhorf heilbrigðisráðherra og stjórnenda Sjúkratrygginga Íslands gagnvart hjúkrunarheimilum landsins sem ekki eru rekin af ríkinu sjálfu. Það er án efa mikil vonbrigði að þessir aðilar hafi séð sér fært um að greiða hjúkrunarheimilum ríkisins og annarri heilbrigðisþjónustu sem rekin er af ríkinu jafnt og þétt greiðslur vegna aukins kostnaðar vegna Covid-19 yfir árið 2020 en hafa ákveðið að greiða ekki öðrum hjúkrunarheimilum landsins um leið. Þetta hefur sett heimilin í mikinn vanda.

Hjúkrunarheimili sem rekin eru af sjálfseignastofnunum eða félagasamtökum hafa ekki fengið krónu greidda síðan Covid-19 faraldurinn leit dagsins ljós í lok febrúar 2020. Samt standa þau upp úr á heimsvísu þegar kemur að verndun íbúa hjúkrunarheimila og það gerðu þau algerlega á eigin kostnað og treystu því að ríkið myndi greiða þeim það tap. Svo er aldeilis ekki. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki aðeins dregið greiðslur til þessara heimila heldur eru þau í dag að rökræða við stjórnendur heimilanna hvort það eigi að greiða þeim fyrir vannýtingu á notkun rýma sem varð vegna Covid-19 faraldursins. Hér er um að ræða dagdvalir og hjúkrunarrými. Þau eru að hugsa málið? Maður spyr sig hvort það tap eigi einnig að lenda á hjúkrunarheimilunum? Það er ekki eins og hjúkrunarheimilin hafi verið rekin með hagnaði síðustu tugi ára. Hjúkrunarþyngd hefur aukist jafnt og þétt með forgangsröðun einstaklinga inn á hjúkrunarheimilin EN greiðslur til heimilanna hafa ekki hækkað að sama skapi. Það þýðir meiri þörf en minni þjónustugeta. Síðan kemur Covid álag ofan á það. Hvert er markmið stjórnvalda fyrir þá sem þarfnast sólarhringsþjónustu? Við á Hrafnistu viljum hafa þessa hluti gegnsæja þannig að allir viti hvaða þjónustu ríkið er að kaupa og að allir séu upplýstir um það, en reyndin er önnur.

Við sem störfum á hjúkrunarheimilum höfum margvíslegum hlutverkum að gegna. En eitt hlutverk eigum við öll sameiginlegt og það er að standa vörð um þjónustuna og vera talsmenn þeirra sem þurfa á henni að halda. Við ætlum ekki standa þegjandi hjá og horfa upp á ofangreinda aðila leggja íbúa heimilanna í hættu þegar heimilum er mismunað eftir því hvort þau séu rekin af ríki eða félagasamtökum. Fyrir utan Covid-19 greiðslur þá er erfitt að vera vitni að því að heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands geti ákveðið einhliða hvað sé næg greiðsla fyrir þjónustu sem þeir sjálfir gera kröfu um. Hvernig samningar eru það? Þú getur ekki farið í Bónus, fyllt körfuna og sagt svo eigendum verslunarinnar að þú ætlir að fá þetta allt saman en greiða bara fyrir hluta af vörunum. Það gengur ekki upp, eða hvað?

Á Hrafnistu vinnur fólk sem hefur munninn fyrir neðan nefið og hjartað á réttum stað. Þess vegna get ég stolt sagt hverjum sem vill heyra að ég vinn á Hrafnistu með mögnuðu teymi sem hefur metnað til að gera vel.

Eins og áður er það vel við hæfi að enda föstudagsmolana með því að telja upp starfsafmæli mánaðarins, en með hverju ári í starfi skapast verðmæt þekking sem er dýrmæt fyrir okkur á Hrafnistu. Sú þekking skilar sér beint til þeirra sem þiggja þjónustu hjá okkur.

Starfsafmæli í febrúar eiga:

3 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru það Berglind Hrönn Edvardsdóttir í bókhalds- og launadeild, Ólöf Jónínudóttur á Viðey dagþjálfun, Árni Örn Jónsson í fasteignadeild, Ólafía Dröfn Halldórsdóttir á Lækjartorgi, Kareen Singco á Sól- og Mánateig, Arnika Clausen Ómarsdóttir og Margrét Magnúsdóttir báðar á Vitatorgi. Í Hraunvangi eru það Sara Dögg Júlíusdóttir og Jökull Bergsveinsson bæði á Báruhrauni, Stefanía Þorvaldsdóttir í borðsal, Ingibjörg Magna Hilmarsdóttir, Rebekka Rós Hafsteinsdóttir, Ingunn Vilhelmína Ólafsdóttir og Sesselja Stefánsdóttir allar á Bylgjuhrauni. Í Boðaþingi eru það Kristín Ólafsdóttir, Elva Sóley Schulin Jónsdóttir, Guðný Ólafsdóttir og Birta María Magnúsdóttir. Á Nesvöllum eru það Elín Sara Færseth, Ástríður Halla Jóhannsdóttir og Erla María Sigurðardóttir. Á Hlévangi er það Stefanía Vallý Eiríksdóttir. Á Ísafold eru það Elísabet Sif Elíasdóttir og Elfa Rún Björnsdóttir.

5 ára starfsafmæli: Í Laugarási er það Sólveig S. Benjamínsdóttir á Lækjartorgi. Í Boðaþingi eru það Diljá Rut Guðmundsdóttir og Helga Vilhelmína Vilhelmsdóttir. Á Nesvöllum er það Margrét Rósa Pétursdóttir. Á Hlévangi er það Guðbjörg Ægisdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir.

10 ára starfsafmæli: Björg Snjólfsdóttir á heilbrigðissviði.

15 ára starfsafmæli: Jaana Marja Rotinen á Sól-/Mánateig Hrafnistu Laugarási. 

Síðast en ekki síst eru það þær Kolbrún Pétursdóttir á Báruhrauni og Ágústa Hinriksdóttir á Ölduhrauni í Hraunvangi sem eiga hvorki meira né minna en 30 ára starfsafmæli.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu.

 

Kær kveðja,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

 

 


 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur