Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 29. janúar 2021 - Gestahöfundur er Bryndís Rut Logadóttir, deildarstjóri dagdvalarinnar Röst á Sléttuvegi

 

Það var seint á haustmánuðum 2019 að ég réði mig til starfa sem deildarstjóri dagdvalar Hrafnistu Sléttuvegar. Ég hóf formlega störf í byrjun árs 2020, full eftirvæntingar og spennu yfir þessari nýju og spennandi áskorun.

Í fyrstu vettvangsferð minni á Sléttuveginn þurfti viðeigandi hlífðarbúnað, vesti í skærum litum og hjálm merktan Sjómannadagsráði. Húsnæðið var ekki mikið meira en hrá steypa, ryk og urmull af iðnaðarmönnum. Allsstaðar var maður fyrir og mikið gekk á því stefnt var á opnun í febrúar. Eitthvað sem manni fannst algjörlega óraunhæft. Engu að síður fluttu fyrstu íbúar inn á hjúkrunarheimilið í lok febrúar. Sama dag og fyrsta COVID-19 smitið greindist á landinu.

Enginn hafði hugmynd um hvaða áhrif faraldurinn myndi hafa á okkur og þær hugmyndir sem við höfðum um þessa nýju og spennandi starfsemi . Starfsmenn dagdvalarinnar hófu störf í mars 2020 því stefnt var að opnun rúmri viku seinna. En í miðju samkomubanni þótti nokkuð ljóst að fáir hefðu áhuga á að koma og nýta sér okkar þjónustu enn um sinn. Það varð því ekkert að opnun og því þurfti að hugsa út fyrir kassann þegar kom að því að finna verkefni fyrir starfsfólkið.

Á þessum tíma var í fyrsta skiptið komið á heimsóknarbann á hjúkrunarheimilin. Það var því kærkomin viðbót við það frábæra starf sem starfsmenn hjúkrunarheimilins er að vinna að fá starfsmenn dagdvalar til þess að koma inn á deildir og aðstoða við að halda uppi félagsstarfi og virkni fyrir íbúana.

Í byrjun maí var loksins farið að sjá fyrir enda faraldursins, eða svo héldum við, og 5. maí mættu fyrstu gestir dagdvalar í hús og starfsemin hófst. Fyrstu vikuna voru allir frekar áttavilltir en mjög fljótlega fóru að myndast hefðir og venjur. Hægt og rólega bættust fleiri gestir í hópinn og á sumarmánuðum 2020 var dagdvölin orðin fullsetin. Nýr vinskapur myndaðist og jafnvel gömul kynni endurnýjuð.

Það er virkilega ánægjulegt að líta um öxl og hugsa til þess að ekki sé meira en ár síðan ég stóð með hjálminn, í gula vestinu og horfði yfir kalda steypuna og reyndi að sjá fyrir mér starfsemina og hvað ég þyrfti að gera til þess að þetta yrði að veruleika.

Mannauður er okkar dýrmætasta auðlind þegar kemur að hjúkrunarþjónustu og starfsfólk dagdvalarinnar er þar engin undantekning. Þær áskoranir sem starfsmenn hjúkrunarheimila og dagdvala hafa tekist á við síðastliðið ár eru margslungnar og flóknar en alltaf hefur verið tekist á við þær af miklu æðruleysi og jákvæðni. Fyrir þetta er ég óendanlega þakklát og ég tel mig geta sagt með vissu að þar séu allir stjórnendur Hrafnistu mér hjartanlega sammála.

Starfsmenn Hrafnistu mega vera stoltir af þeirri samstöðu og fórnfýsi sem þeir hafa sýnt í þessum fordæmalausu aðstæðum og mun verða til þess að styrkja enn frekar þær sterku taugar sem myndast hafa á Hrafnistu. Hrafnistuhjartað slær takfastara sem aldrei fyrr.

Góða helgi kæra starfsfólk.

Bryndís Rut Logadóttir,

Deildarstjóri dagdvalarinnar Röst

Hrafnistu Sléttuvegi Sléttan

 

Myndin af byggingarframkvæmdum á Sléttuvegi var tekin í byrjun mars 2019. Horft meðfram austurhlið hjúkrunarheimilisins og í áttina að þjónustumiðstöðinni þar sem dagdvölin er til húsa á neðri hæðinni. 

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur