Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 22. janúar 2021 - Gestahöfundur er Helga Björk Jónsdóttir, umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu

Í dag er fyrsti dagur Þorra. Bóndadagur.

Flest höfum við heyrt orðatiltækið að þreyja þorrann. Fyrr á öldum var þetta notað um að komast í gegnum erfiðasta hluta vetrar. Veturnir voru oft dimmir og kaldir og veðurofsar miklir hér á norðurhjara veraldar og eins var lítið eftir af mat og vistum fyrir heimilisfólk og heyi fyrir skepnurnar. Margir gengu því í gegnum miklar þrengingar á þessum tíma árs en þurftu að gera allt sem þau gátu til þess að lifa af þangað til sólin tók að skína á ný og vorið fór að birtast með sína bjartari daga og von um betri tíð og blóm í haga.
Að þreyja þýðir að þrauka eða að komast í gegnum tímabundna erfiðleika án þess að gefast upp.
Í dag er upphaf Þorra samkvæmt gamla norræna dagatalinu og þess vegna er bóndadagurinn í dag. Menn gerðu sér dagamun í tilefni þess að myrkasti tíminn var að baki en áfram þurfti að bíða vors og erfiðasti tíminn var enn ekki liðinn hjá. Enn var bið í vorið og endalok vetrar.
Eiginkonur færðumönnum sínum eitthvað til að gleðja þá og hvetja þá til að gefast ekki upp og hefur sú hefð haldið áfram í áranna rás þó við konur færum mönnum okkar í dag frekar blómvönd eða vellyktandi verksmiðjugerðan rakspíra og kort heldur en þykka, handgerða peysu úr ullinni af lömbunum og nýja botna á heimagerða skóna sem gátu komið mönnum lengra í miklum kulda og ófærð.
Við þekkjum það sennilega flest að þegar við höfum beðið lengi eftir einhverju er tíminn, þegar styttast fer í að við sjáum fyrir endann á biðinni, oftast miklu lengur að líða en þegar enn var langt í markmiðið.  Við munum til dæmis sennilega öll hvernig afmælin okkar urðu næstum eins og fjarlægari í tímatali þegar mánuðirnir hættu að vera margir og urðu að vikum eða jafnvel dögum. Þá fyrst var erfitt að bíða og þá fór óþolinmæðin og tilhlökkunin að láta á sér bera.
Í dag er upphaf nýrra tíma hjá okkur á Hrafnistu. Í gær fengu íbúarnir okkar seinni skammtinn af langþráðri bólusetningu og það þýðir að þau geta eftir nokkra daga fagnað því að vera varin fyrir þeirri ógn sem veiran hefur verið þeim síðustu mánuði.
Þau sjá nú fram á að geta aftur hitt fólkið sitt og við sjáum fram á að geta aftur opnað heimilin fyrir gestum og gangandi og smátt og smátt minnkað takmarkanir í heimsóknum sem hafa reynst mörgum erfiðar.
En á sama tíma og við fögnum því að fólkið okkar er að komast fyrir vind í baráttunni er ekki komið að því að alveg strax að við starfsfólkið getum slakað á sóttvörnum þar sem við fáum ekki bólusetningu strax.
Ekki er komin tímasetning á það en við vitum að það nálgast með hverjum deginum sem líður. Hvort það verður eftir einhverjar vikur eða lengur verður tíminn að leiða í ljós en við vitum að það kemur að því.  
Nú erum við því, kæra samstarfsfólk, komin á þann stað að þurfa að prófa raunverulega að þreyja þorrann. Að komast í gegnum veturinn eitt skref í einu án þess að gefast upp.
Oft var talað um að þreyja þorrann og góuna, sem var næsti mánuður á eftir, því að eftir góu kom birtan og vorið og sennilega þurfum við að þreyja bæði þorra og góu þetta árið þangað til við fáum vörn gegn veirunni.
En við getum það!
Við getum það þó okkur finnist allt í einu langt í „afmælið“ eins og þegar við vorum börn af því að nú styttist í það.
Við getum það af því að við erum komin alla leið hingað og höfum enn ekki gefist upp.
Við þurfum að hjálpast að við að þrauka og muna að sögnin að þrauka þýðir að komast í gegnum tímabundna erfiðleika án þess að gefast upp.
Einn daginn getum við öll horft til baka, (grímulaus með aðeins minna af spritti út um allt) og þakkað fyrir það að hafa saman komist í gegnum ótrúlega flókna tíma með nýjum áskorunum sem kenndu okkur svo margt.
Þá getum við, eins og nú, verið stolt af því að hafa þraukað þetta saman alla leið.

Gleðilegan þorra.

Helga Björk Jónsdóttir,

Umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur