Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Jólakveðja forstjóra 18. desember 2020 - María Fjóla Harðardóttir

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020_mynd-me-molum-18-des2020.jpeg

JÓLAKVEÐJA FORSTJÓRA
Föstudaginn 18. desember 2020.

 

Jólin koma þrátt fyrir allt og allt.

 

Ég er búin að heyra það frá allmörgum, bæði vinnufélögum og vinum, hvort við ættum kannski að fresta jólunum? Kannski bara til ca 24. febrúar 2021? En svo er það bara þannig að jólin koma þrátt fyrir allt, þótt við séum ekki alveg tilbúin, þótt við eigum eftir að gera allt sem við ætluðum okkur að gera og þótt Covid-19 sýni því ekki skilning að það séu að koma jól.

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur lagt línurnar fyrir jól og áramót í samræmi við reglur Almannavarna. Við biðlum til íbúa og aðstandenda að leggja eigin hagsmuni til hliðar fyrir hagsmuni heildarinnar. Nú þurfum við að halda þetta út, endasprettur er erfiður og sérstaklega þegar tími eins og jólin koma þar inn. Við biðjum ykkur kæra starfsfólk að gera slíkt hið sama, líkt og þið hafið gert svo vel hingað til. Veljið ykkur jólakúlu sem þið ætlið að tilheyra. Þetta verða sannarlega öðruvísi jól.

Sýkingavarnarstjóri og mannauðsstjóri Hrafnistu hafa unnið með heilsugæslustöð höfuðborgarsvæðisins við að undirbúa skipulag bólusetningar og hvernig því verður háttað. Ég held að við séum sammála um að hafa aldrei verið eins spennt fyrir bóluefni eins og nú.

Nýjustu fréttirnar eru þær að búið er að endurskilgreina forgangsröðunina fyrir bóluefnið þar sem von er á færri skömmtum til að byrja með en áður. Nú eru það skjólstæðingar okkar á Hrafnistu og öðrum hjúkrunarheimilum sem eru fyrstir í forgang. Það gleður okkur óendanlega mikið og við erum mjög svo sammála þeirri forgangsröðun. Þó svo við ætlum að vera skynsöm þá er í góðu lagi að vera einnig svolítið bjartsýn en það er stefnt að því að bóluefnið komi til landsins 24. desember. Fáum bóluefnið vonandi í jólagjöf ❤ Það er allt sem ég óskaði mér svo ég er glöð. Bið ykkur að krossleggja fingur með mér að þetta gangi eftir.

Hefur Covid-19 kennt okkur eitthvað?

Svarið er já, heldur betur. Covid-19 hefur kennt okkur á Hrafnistu hvað við erum öflugt teymi þegar við þurfum að ganga í takt. Þá er sama hvort horft er til starfsmannahópsins, íbúa eða aðstandenda. Hreint ótrúlega þéttur hópur þegar á reynir. Það hefur einnig kennt okkur að vanmeta ekki það sem venjulega er okkur svo hversdagslegt. Við lærum svo lengi sem við lifum. Ég hlakka til að takast á við öll þau fjölbreyttu verkefni sem við fáum að leysa á næsta ári.

Megi jólin verða ykkur góð og hátíðin öll hvort sem þið eruð í faðmi fjölskyldunnar eða í huggulegheitum með íbúum og starfsfólki Hrafnistu, því þið eigið það öll svo sannarlega skilið.

 

Kær kveðja,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

(meðf. mynd er fengin að láni á veraldarvefnum)

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur