Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 4. desember 2020 - Gestahöfundur er Þuríður I. Elísdóttir forstöðumaður Hrafnistu Reykjanesbæjar

 

Þegar litla stúlkan valhoppaði yfir gangbrautina

Hversu megnug erum við þegar áfall eða hætta er yfirvofandi? Nú styttist í árslok og áfallið með kórónuveiruna er enn vofandi yfir okkur og verður eitthvað áfram. Starfsfólk hjúkrunarheimilanna og í heilbrigðisþjónustu hefur lagt nótt við dag til að verjast vágestinum mikla og hindra að hann laumi sér til okkar.  Öll erum við mannleg og langþreyta sækir á. Þreytan sækir ekki bara að starfsfólkinu okkar heldur líka að íbúum okkar, aðstandendum þeirra og fjölskyldum okkar. Hversu margir hafa líklega heyrt íbúana segja að þeir upplifi sig eins og í fangelsi, lokaðir inni, sjá ekki nema hluta af andliti starfsfólksins vegna andlitsmaskans og hafa þurft að eiga takmörkuð samskipti við ástvini sína. Hjá sumum íbúunum er þetta að vera komið nærri ár. Já ótrúlegt hvað tíminn líður og aðlögunarhæfni allra er mikil.  Með gleði og baráttuvilja berjast allir áfram með það að markmiði að lífsgæði íbúanna okkar séu sem best.  En hvernig förum við öll að því halda áfram dag eftir dag í þessri baráttu? Allir þurfa að rækta sinn innri kraft til að vinna sig í gegnum erfiða tíma. Starfsfólk nærir sinn lífsneista á misjafnan hátt en eitt er víst að það er nauðsynlegt að rækta hann því annars dofnar neistinn eða deyr út. Útivera og hvers kyns líkamsrækt veitir aukna orku, gleði og veitir okkur innblástur í þau verkefni sem við tökumst á við í hinu daglega lífi. Finnum okkar takt og ræktum okkar neista því annars hverfur hann. Verum líka dugleg að tendra neista hjá samstarfsfólki okkar og okkar nánasta fólki. Ég hef ræktað minn neista mikið í gönguferðum um mitt nærumhverfi. Dag einn þegar ég var á minni göngu, ansi þreytt og í þungum þönkum sé ég litla stúlku valhoppa yfir gangbraut. Hjarta mitt tók kipp og ég fékk kökk í hálsinn. Gleðin að sjá þessa litlu saklausu stúlku valhoppa með blik í auga yfir gangbrautina þeytti burtu allri þreytunni og gleðin tók völdin. Ég kom full af orku, gleði og neista heim.

Það eru ekki stóru sigrarnir í lífinu sem veita okkur mestu gleðina og innblásturinn heldur eru það oft hinir hversdagslegu hlutir sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut og tökum varla eftir. Að upplifa heilbrigði líkamlega jafnt sem andlega er ekki sjálfsagt en ber að þakka fyrir og rækta. Að vakna að morgni er heldur ekki sjálfsagt og við þurfum að þakka verulega fyrir það. Tökum einn dag í einu og gerum það besta úr honum sem við getum. Eins og segir í textanum: „Líttu sérhvert sólarlag, sem þitt hinsta væri það. Því að morgni eftir orðinn dag enginn gengur vísum að“. Við erum hér og nú, ræktum sál og líkama og njótum stundarinnar.

Nú styttist í jólin, jólaljósin komin í glugga og jólalögin farin að hljóma. Hjá flestum veitir það mikla gleði en því miður ekki hjá öllum. Við ætlum að taka plan B í jólunum þetta árið þar sem kórónuveiran mun sveima með jólaandanum þessi jólin. En við kunnum svo vel að taka plan B því daglega þurfum við að aðlaga okkur að breyttum plönum. Ég er líklega búin að gera jólaísinn fjórum sinnum í nóvember og hann verður orðinn að hversdags ís þegar klukkurnar klingja inn hátíðina. Það skiptir ekki máli því það voru samverustundirnar með börnunum sem veittu mér gleði þegar við vorum að búa til ísinn saman.

Á þessum stundum þegar fólk er að líta til baka, fara yfir árið sem senn er að líða og farið að setja upp markmið fyrir það næsta þá er gott að hafa í huga hvernig við getum veitt samstarfsfólki okkar og samferðafólki innblástur og fyllt það af orku og gleði. Tendrað þeirra neista. Þetta ár hefur verið mörgum erfitt og margir átt um sárt að binda. Flestir bera áhyggjurnar ekki utan á sér. Besta gjöfin er oft sú sem ekki sést og kostar enga fjármuni. Kærleikur, hlý orð, klapp á bakið og gleði. Með þessum gjöfum getum við ekki bara glatt okkar nánasta fólk heldur alla í kringum okkur.  Löðum fram það besta í hverjum og einum. Verum dugleg að hrósa, segja fallega hluti við hvort annað og veita stuðning. Það þurfa allir á því að halda og það kunna allir að meta það. Við þurfum sérstaklega á því að halda á tímum sem þessum.

Þegar ég er þreytt þá hugsa ég um litlu stúlkuna sem valhoppaði yfir gangstéttina og ég fyllist af orku, þakklæti og gleði.

Ég sendi ykkur öllum kærleikskveðjur og vona að við verðum öll dugleg að tendra neista hjá hvert öðru.

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Reykjanesbæjar

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur