Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 9. október 2020 - Gestahöfundur er Valgerður K. Guðbjörnsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Sléttuvegi

Að opna hjúkrunarheimili á tímum COVID-19

Í upphafi árs unnum við á Hrafnistu Sléttuvegi við að undirbúa opnunina á nýja hjúkrunarheimilinu. Starfsfólkið tók flest til starfa þann 1. febrúar og voru allir fullir af metnaði og eftirvæntingu að gera allt tilbúið áður en fyrstu íbúarnir flyttu inn þann 1.mars. Áætlað var að fylla heimilið á sex vikum, en eins og lífið er þá er erfitt að sjá hlutina fyrirfram og breyttist áætlunin hjá okkur mjög hratt.

Fyrstu íbúarnir fluttu inn í síðustu viku febrúarmánaðar og var formleg opnun Hrafnistu Sléttuvegi 28. febrúar en sá dagur verður okkur lengi í minnum hafður. Ekki aðeins fyrir það að við vorum að opna þetta glæsilega hjúkrunarheimili heldur líka vegna þess að fyrstu COVID-19 tilfellin greindust hér á landi þann sama dag. Við fengum beiðni frá Heilbrigðisráðuneytinu og LSH að aðstoða við að leysa fráflæðisvandann svo þeir gætu tekið inn þá sem greindust með COVID-19. Strax þá sá ég hvaða mannauð við höfum að geyma hér á Sléttuveginum, án þess að hika þá brettu allir upp ermar og voru til í þetta stóra verkefni. Í stað þess að taka inn 99 íbúa á sex vikum eins og áætlað var þá fluttu inn um 60 manns í fyrstu vikunni.

Fresta þurfti opnun dagdvalar en búið var að ráða inn starfsfólk á þá deild. Án þess að hika þá tók það frábæra fólk þátt í að hjálpa okkur á hjúkrunarheimilinu að halda uppi félagsstarfi fyrir íbúa þar sem ekki voru leyfðar heimsóknir aðstandenda.  

Þetta ár er búið að vera ansi viðburðarríkt og erfitt á köflum, en við höfum tekið öllu því sem hefur verið rétt að okkur með stóískri ró. Að opna nýtt hjúkrunarheimili er áskorun en að opna nýtt hjúkrunarheimili á tímum COVID-19 er enn stærri áskorun.  Við höfum ekki enn fengið að upplifa það hvernig er að reka hjúkrunarheimili í „venjulegu“ árferði. En það hafa allir lagst á eitt til að tryggja öryggi og vellíðan íbúanna okkar og tryggja þeim góð lífsgæði. Ég þreytist sjaldan á að segja stolt frá hversu magnaður hópur hefur valist til starfa hér á Hrafnistu Sléttuvegi. Ég er ekki að segja að það hafi ekki skipst á skin og skúrir hjá okkur en ég get ekki annað sagt en að í heildina er þetta frábær hópur sem vinnur vel saman.

Ég horfi því bjartsýn fram á veginn með þetta frábæra starfsfólk mér við hlið og hlakka til að takast á við áframhaldandi verkefni og áskoranir með þeim.

 

Njótið helgarinnar.

Valgerður K. Guðbjörnsdóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu Sléttuvegi

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur