Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 25. september 2020 - Gestahöfundur er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

 

Haustið er komið í allri sinni litadýrð. Alltaf hrekk ég aðeins við fyrsta morguninn sem ég þarf að skafa rúðurnar á bílnum enda reynir maður í lengstu lög að halda í sumarið.

Haustið er tími sem við búum okkur undir veturinn,  við tökum uppskeruna  úr garðinum, förum í berjamó, sultum og söftum, tínum sveppi og tökum slátur.

Haustið er tími sem við setjum okkur markmið að vera duglegri að hreyfa okkur og borða hollari mat eftir of margar grillsteikur sumarsins, en einnig sá tími sem við eigum notalega stund og kveikjum á kertum í kvöldrökkrinu.

Sumarstarfsfólkið okkar sem kom inn með ferskan blæ á vordögum er flogið á vit nýrra ævintýra og samstarfsfólk flest komið aftur til starfa, búið að hlaða batteríin og tilbúið að takast á við verkefni vetrarins.

Þetta haust ber hins vegar óneitanlega með sér óvenjulegan blæ, ýmsar takmarkanir, lokanir, frestanir og áskoranir mæta okkur, flestar tengdar Covid veirunni. Þetta hefur reynt á okkur öll en með jákvæðni og samstöðu að vopni þá sigrumst við á þessu saman. Ég er sérlega stolt af starfsfólki Hrafnistu sem hefur lagt sig fram um að láta allt ganga upp og hefur sett vellíðan og öryggi íbúanna okkar í fyrsta sæti. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um síðustu mánuði í vinnunni, þakklæti til samstarfsfólks, íbúa og aðstandenda sem hafa mætt þessari vá með stóískri ró og yfirvegun.

Þar sem ég vinn á frábærum vinnustað hlakka ég til haustsins, hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni og áskoranir vetrarins með frábæru fólki!

 

Njótið helgarinnar,

Árdís Hulda Eiríksdóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur