Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 28. ágúst 2020 - Gestahöfundur er Oddgeir Reynisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistu

Ágæta samstarfsfólk,

Fyrir tæplega tveimur árum síðan hóf ég störf sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistuheimilanna. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hið góða og metnaðarfulla starf sem tæplega 1.500 starfsmenn Hrafnistu inna af hendi með það markmið að sjá til þess að þeir tæplega 800 íbúar sem hér búa á 8 Hrafnistuheimilum og á annað hundrað dagdvalargestir sem nýta sér okkar þjónustu hafi það sem best og njóti sín sem einstaklingar. Á stórum sem smáum heimilum skiptir máli að allir séu meðvitaðir um hvað hlutir kosta og að lágmarka sóun.  Fyrirtækjarekstur er lítið annað en stækkuð mynd af rekstri heimilis. Móðir mín sem starfaði sem útibússtjóri í banka í mörg ár sagði mér að það væri ekki spurning hverju maður aflar heldur hverju maður eyðir og er mikill sannleikur í því. Það er aðdáunarvert hversu mikil kostnaðarmeðvitund starfsmanna er. Það er almenn meðvitund um að ef vel er haldið utan um reksturinn þá eru meiri möguleikar á að bæta aðbúnað íbúa og starfsmanna því ekki er greiddur arður út úr félagi enda um sjálfseignarstofnanir að ræða.

Þátt fyrir að rekstur sé erfiður þá er rekin hér blómleg starfsemi og það má ekki gleyma því að í lífinu er nauðsynlegt að brjóta upp hverdagsleikann og gera eitthvað annað en við gerum flesta daga.  Það eru þessi uppbrot í lífinu sem skapa okkar stærstu minningar sem ylja okkur um hjartarætur og býr til eftirvæntingu fyrir næstu atburði. Afi minn, sem fallinn er frá, var mjög athafnarsamur allt til dauðadags. Hann sagði mér að hann væri alltaf búinn að skipuleggja atburði fram í tímann til að hafa eitthvað til að hlakka til og vinna að. Svona uppbrot þurfa ekki alltaf að vera flókin. Ég segi stundum söguna af því þegar ég fór í tjaldferðalag með strákana mína til Hafnarfjarðar en þá bjó ég í Garðabæ. Fjölskyldan hefur alltaf verið dugleg að ferðast um landið en þessa helgi stóð bara þannig á að ég kom seint úr vinnu á föstudagskvöldi og ég hafði lofað strákunum mínum sem þá voru 4 og 7 ára útilegu. Þeir fengu að velja á milli tjaldsvæðisins í Laugardal og Víðistaðatúns í Hafnarfirði til þess að ná að nýta föstudagskvöldið í útileigu en ekki keyrslu í stressi. Þetta var alveg frábær ferð í alla staði þar sem við notuðumst við gamla fermingartjaldið mitt í stað tjaldvagns og var bílnum lagt og hjólað um Hafnarfjörð í dýrindis veðri alla helgina. Ódýr og umhverfisvæn ferð sem okkur fannst hin mesta skemmtun og enn þann dag í dag, 13 árum síðar, er verið að minnast á þessa ferð. Verum dugleg að safna minningum af smáum sem stórum uppbrotum í lífinu.

Eins og komið hefur fram m.a. á Workplace þá hefur Hrafnista gert fjarskiptasamning við Vodafone og hlaust nokkur hagræðing með þeim samningi og aukin gæði en hluti af þeim pakka, sem okkur þótti mikilvægt að ná í gegn, var að geta boðið starfmönnum einstök fjarskiptakjör hjá Vodafone með kostnaðarþátttöku Hrafnistu.  Ég vil benda þeim á sem ekki hafa skoðað þetta að fara á Workplace undir „Afslættir og tilboð“ og skoða þetta nánar.  Þessi kjör eru að verðmæti 183 þúsund krónur í launum á ári ef miðað er við almennt verð á þessum vörum.  Þessi kjör gilda út júní 2021 en ef vel gengur þá verður skoðað að framlengja þennan hluta samningsins. Til gamans má geta þess að ef allir starfsmenn Hrafnistu nýttu sér tilboðið og voru í sambærilegum pökkum þá samsvaraði sparnaðurinn rúmlega 274 milljónum á ári í launatekjur.

 

Oddgeir Reynisson

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur