Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 5. júní 2020 - Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020_sjomannadagsrad-lit_crop.jpeg

 

Sjómenn  eiga drjúgan þátt í velsæld þjóðarinnar. Er það óumdeilt að með sjósókn sinni hafa sjómenn náð að draga að landi verðmæti, sem ekki aðeins hafa verið lífsbjörg þjóðarinnar í fyrri tíð, heldur einnig skapað tekjur og gjaldeyri sem við byggjum okkar velmegun á. Þetta hefur ekki verið gert án fórna, en í 83ja ára sögu Sjómannadagsráðs hafa 1329 sjómenn látið lífið við störf sín á sjó, auk fjölda annarra sem orðið hafa fyrir slysum og hlotið hafa varanlega örorku af.

Þetta vita vonandi flestir, en það eru færri sem gera sér grein fyrir því að sjómenn hafa einnig átt frumkvæði að einu stærsta velferðarmáli þjóðarinnar. Í meira en átta áratugi hafa  samtök stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu (Sjómannadagsráð) unnið markvisst að uppbyggingu húsnæðis og þróun á þjónustu fyrir aldraða Íslendinga og eru þeir enn að. 

Í dag rekur Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins dótturfélögin Hrafnistu og Naustavör sem með sínu öfluga starfsólki veitir vel á annað þúsund öldruðum þjónustu allan sólarhringinn, alla daga ársins. Í þessari þjónustu felst svo til allt það sem aldraðir þurfa á að halda fyrir athafnir daglegs lífs s.s. eins og þak yfir höfuðið, reglulegar máltíðir og fulla umönnun heilbrigðisstarfsmanna þegar aðstæður eru þannig.

En eins og á við um svo margt annað, þá hefur þetta ekki gerst að sjálfu sér. Fyrir þessum framförum hafa sjómenn lagt sig í lima við að afla fjár svo hægt sé að standa að jafn myndalegri uppbyggingu eins þeirri sem við störfum við í dag. Til þess hafa sjómenn m.a. lagt fram eigin vinnu, notað afrakstur merkjasölu Sjómannadagsins, staðið að viðburðum, rekið kvikmyndahús og rekið Happdrætti DAS sem stofnað var árið 1954. Öllu því fé sem aflað hefur verið var fjárfest í byggingu eigin húsnæðis og til þess að stunda þá þróun sem nauðsynleg er í þjónustu við þennan stækkandi þjóðfélagshóp.  

Þótt ýmislegt hafi tekið breytingum í tímanna rás, s.s. eins og að í dag er félagið rekið af fagfólki sem hefur fulla atvinnu af því að láta gott af sér leiða, þá hefur hugsjón og markmið samtaka sjómanna ekki breyst. Enn í dag er félagið rekið sem góðgerðarfélag, án arðgreiðslumarkmiða. Þar gera eigendur þess enga kröfu um að fá nokkuð til baka frá félaginu annað en virðingu og þakklæti fyrir að hafa veitt þetta framlag sitt til þjóðarinnar.  Fyrir þetta ber að þakka sem gjarnan gleymist í daglegu þrasi á samfélags- og í fjölmiðlum. Það er einhernvegin þannig að við höfum tilheigingu til að gera of mikið úr þeim fáum málum sem miður fara og horfum framhjá þeim sem gera lífið betra.

Framundan er Sjómannadagurinn sem stéttarfélög sjómanna börðust fyrir í mörg ár að gera að frídegi sjómanna. Á Sjómannadeginum eigum við ekki aðeins að minnast þeirra sjómanna sem drukknað hafa við störf sín, heldur einnig til þeirra sem héldu baráttunni áfram og reistu þessa glæsilegu aðstöðu sem starfsemi Hrafnistu og Naustavarar fer fram í.

Takk fyrir framlag ykkar til þjóðarinnar og til hamingju með daginn sjómenn.

 

Sigurður Garðarsson,

framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur