Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 22. maí 2020 - María Fjóla Harðardóttir og Sigurður Garðarsson

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 22. maí 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Hrafnista hefur um langt skeið verið í fararbroddi íslenskrar öldrunarþjónustu og skipar í dag mjög mikilvægan sess í samfélaginu. Innan okkar raða er glæsileg framvarðarsveit starfsmanna sem láta sér varða lífsgæði aldraðra og það má með sanni segja að það sé áhuga ykkar og eldmóði að þakka að við séum stödd þar sem við erum í dag. Í þessa átt ætlum við stefna áfram í framtíðinni.

Tímamót

Nú eru sannarlega tímamót á Hrafnistu en undanfarna daga hafa orðið allmiklar breytingar þar sem Pétur Magnússon forstjóri ákvað að kveðja okkur og skella sér á vit nýrra ævintýra. Eins mikið og við óskum honum velfarnaðar í nýju starfi og vitum hvað Reykjalunds fólk er heppið að fá hann, þá sjáum við eftir honum. Hann skilur eftir sig fyrirtæki sem er vel skipulagt, þar sem margt hefur áunnist með góðri fyrirtækjamenningu og léttleika í fyrirrúmi. En nú hefur veldissprotinn verið færður í nýjar hendur sem við tökum við með auðmýkt og virðingu fyrir því mikilvæga hlutverki sem Hrafnista gegnir. Við gerum okkur grein fyrir að þessu fylgir mikil ábyrgð og hvað það skiptir miklu máli að halda áfram að gera jafn vel og jafnvel enn betur.  Á svona tímum er einnig gott að minna okkur á að Hrafnista er fyrirtæki breytinga og því eigum við að fagna þar sem tímamótum fylgja ávallt ný tækifæri. Þann daginn sem við förum að hræðast breytingar þá vitum við að við erum stöðnuð og þar viljum við alls ekki vera.

En hver er forstjórinn?

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú falið tveimur aðilum að gegna því mikilvæga starfi að stýra Hrafnistu þar til að önnur framtíðarskipan hefur verið ákveðin. Það er því eðlilegt að spurt sé hver sé „forstjórinn“? Við undirrituð höfum sjálf undanfarna daga verið að velta því sama fyrir okkur, en erum nú komin með góða niðurstöðu að okkar mati. Á milli okkar tveggja verður því þannig háttað að María Fjóla mun stýra áfram almennum rekstri Hrafnistu og sinna þeim fjölmörgu málum sem fylgja daglegum rekstri heimilana okkar. Sigurður mun koma meira að eignum ásamt þróunarmálum samhliða sínu fyrra starfi. Framundan eru mörg spennandi verkefni, eins og t.d. að ljúka við uppbyggingu á Sléttuvegi, undirbúa viðbætur á Nesvöllum og vonandi einnig nýrri viðbót í Kópavogi. Saman ætlum við síðan að þjóna heimilunum og styðja starfsfólk í sínum mikilvægu störfum við rekstur Hrafnistuheimilana.

Þá munum við leita til Bjarneyjar Sigurðardóttur, verkefnastjóra á heilbrigðissviði, til að leysa Maríu tímabundið af sem framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs.

Við erum örugglega sammála um að það er tilhlökkun að vita til þess að sumarið og sólin er hinum megin við hornið og að COVID sé allavega ennþá á undanhaldi og við þ.a.l. að losna í smáum skrefum úr þeim hömlum sem það hefur sett okkur. Vitum þó að við verðum að læra að lifa eitthvað áfram með COVID áhættu.

Við erum stolt af því að fá að vinna með ykkur og göngum auðmjúk með ykkur í þau verkefni sem eru framundan í því skyni að aðstoða ykkur við að gera enn betur.

Hlökkum til framtíðarinnar með ykkur.

 

Bestu kveðjur,

María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs og

Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur