Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 24. apríl 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 24. apríl 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Gleðilegt sumar!

Það er vel við hæfi að hefja þennan pistil á góðri sumarkveðju til ykkar og þó maður sé ekki kominn í stuttbuxurnar ennþá er alveg ljóst að sumarið er á næsta leiti eftir óvenju erfiðan og óvenjulegan vetur. Um leið og ég bíð sumarið velkomið, vil ég nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki, stjórnendum, stjórnarmönnum, íbúum og aðstandendum Hrafnistuheimilanna fyrir samstarf og samverustundir á liðnum vetri. Megi sumarið 2020 verða ykkur gæfurík!

Starfsafmæli í apríl

Í hverjum mánuði á hópur starfsmanna formleg starfsafmæli hér hjá okkur á Hrafnistu og fá allir afhentar starfsafmælisgjafir í samræmi við það. Í apríl eiga eftirfarandi starfsmenn starfsafmæli.

3 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru það Valgerður Selma Lúthersdóttir á Sól-/Mánateig og Aníta Lan Tam Huynh í borðsal. Hrönn Benediktsdóttir deildarstjóri í borðsal og eldhúsi og Guðrún Svava Sveinsdóttir báðar í Hraunvangi.

5 ára starfsafmæli: Chanariya Svanhvít Prompradit á Sól-/Mánateig í Laugarási. Í Hraunvangi eru það Harpa Gunnlaugsdóttir og Embla Mjöll Elíasdóttir báðar á Báruhrauni. Á Hrafnistu Nesvöllum er það Erla Vigdís Maack.

10 ára starfsafmæli: Á Hrafnistu Ísafold er það Erna Valdís Valdimarsdóttir.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu. Vegna ástandsins í samfélaginu hafa gjafirnar ekki verið afhentar ennþá en það verður gert við fyrsta tækifæri.

Heimsóknir með takmörkunum leyfðar á ný á Hrafnistuheimilunum

Í samræmi við tillögur vinnuhóps á vegum stjórnvalda þess efnis að leyfa á ný heimsóknir aðstandenda til íbúa hjúkrunarheimila frá og með 4. maí, höfum við á Hrafnistuheimilunum ákveðið að opna heimilin á ný með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin fela m.a. í sér að einungis mun einn aðstandandi geta komið í heimsókn í einu í samræmi við tillögur starfshópsins enda mikið í húfi að viðhalda megi þeim góða árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn heimsfaraldri COVID-19 hér á landi. Ljóst er að enn um sinn þarf að viðhalda ítrustu varkárni og virða í hvívetna allar sóttvarnaráðstafanir, einnig í heimsóknum til Hrafnistuheimilanna. Af þeim sökum verður enn um sinn nauðsynlegt að takmarka fjölda gesta hverju sinni til Hrafnistu, þar sem líkur á smiti aukast í réttu hlutfalli við aukinn gestafjölda. Því verður þess óskað að aðstandendur skipuleggi sín í millum hver fari í heimsókn á hverjum tíma.

Hrafnista sendi s.l. miðvikudag, bréf til um eitt þúsund aðstandenda með upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar og næstu skref, en bréfið er einnig birt á heimasíðu Hrafnistu.

Þriðjudaginn 28. apríl munu stjórnendur heimilanna hafa samband við aðstandendur til að veita frekari upplýsingar og skipuleggja í samráði við þá heimsóknir þeirra frá og með 4. maí en ferlin við heimsóknir þarf að aðlaga að ólíkum deildum og heimilum hjá okkur.

Vonir standa til að rýmka megi takmarkanirnar enn frekar í júní.

Það er einlæg von okkar á Hrafnistu að rýmkun banns við heimsóknum létti íbúum og aðstandendum lífið enda engum léttbært, hvorki íbúum, aðstandendum né starfsfólki heimilanna.

Hátíðarhöld sjómannadagsins falla niður í ár

Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistuheimilanna, sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kynnt var að skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn í Reykjavík sunnudaginn 7. júní hefur verið aflýst í ár vegna aðstæðna í samfélaginu og þar með Hátíð hafsins sem haldin er á svæði gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn í áttatíu og þriggja ára sögu ráðsins sem dagskránni er aflýst, en sjómannadagurinn var fyrst haldinn 1938.

Sjómannadagurinn hefur jafnan verið haldinn hátíðlegur á Hrafnistuheimilunum og ljóst er að dagurinn verður með breyttu sniði á öllum heimilum okkar. Við munum þó að sjálfsögðu gera eitthvað í tilefni dagsins enda er sjómannadagurinn ekki síst helgaður minningu látinna sjómanna sem við viljum halda í heiðri.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur