Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 3. apríl 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 3. apríl 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Hrafnista fær 800 páskaegg að gjöf – horfið á Hringbraut á þriðjudaginn!

Þessa dagana erum við á Hrafnistuheimilunum að fá mikið af gjöfum frá fyrirtækjum og félagasamtökum. Það er hreint magnað að upplifa hvað margir hugsa hlýtt til okkar þessa dagana og fyrir allan þennan hlýhug erum við mjög þakklát. Í gær fengum við skemmtilega sendingu frá Sjónvarpsþættinum, Lífið er lag, sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, en í þátturinn fjallar um stöðu, hagsmuni og framtíðarsýn eldra fólks á Íslandi. Aðstandendur þáttarins komu færandi hendi til Hrafnistu með um átta hundruð Góupáskaegg að gjöf handa öllum íbúum Hrafnistuheimilanna sem búsettir eru á átta heimilum sem Hrafnista starfrækir á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Að sögn Sigurðar K. Kolbeinssonar þáttastjórnanda er gjöfin framlag þáttarins til íbúanna sem um þessar mundir geta því miður ekki þegið heimsóknir frá aðstandendum á meðan faraldur COVID-19 veirunnar gengur yfir.

Við erum auðvitað mjög þakklát en næsti þáttur af Lífið er lag verður sýndur á þriðjudagskvöld (7. apríl) þar sem stuttlega verður fjallað um afhendingu gjafarinnar.

 

Sérstök deild gerð klár fyrir COVID-19 smitaða á Hrafnistu

Hrafnista hefur í forvarnarskyni gert sérstaka deild tilbúna til móttöku á íbúum sem reynast smitaðir af COVID-19. Deildin, sem staðsett er á nýju heimili Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, er ætluð íbúum á öllum Hrafnistuheimilunum sex á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Hrafnista í Reykjanesbæ er langt komin með að undirbúa sambærilega aðstöðu fyrir Nesvelli og Hlévang. Á heimilunum átta búa um 800 manns í um fjórðungi hjúkrunarrýma á landinu og þar starfa alls um eitt þúsund og fimm hundruð manns.

Í hópi starfsliðs Hrafnistu hafa 92 einstaklingar farið í sóttkví frá upphafi faraldursins og einn reynst smitaður. Enn hefur enginn íbúi greinst smitaður af veirunni. Á heimilunum er fylgt skýrum verkferlum og viðbrögðum með tilliti til veirunnar enda eru nær allir íbúar í áhættuhópi. Neyðarstjórn Hrafnistu fundar daglega á fjarfundi um stöðu mála.

Komi til þess að íbúi á einhverju Hrafnistuheimilanna á höfuðborgarsvæðinu greinist smitaður af COVID-19 verður viðkomandi fluttur á deildina við Sléttuveg þar sem hann mun fá viðeigandi þjónustu meðan á veikindum stendur. Ráðstöfunin hefur verið kynnt fyrir íbúum og aðstandendum auk þess sem verið er að efla bakvarðarsveit heimilanna í forvarnarskyni komi til þess að fleiri í hópi starfsmanna þurfi að sæta sóttkví. Með það að leiðarljósi hefur aðstandendum m.a. verið boðið að skrá sig í bakvarðarsveitina og hafa viðbrögð í þeim hópi farið fram úr björtustu vonum. Sem stendur er þó ekki gert ráð fyrir að kalla þurfi til aðstandendur, en komi til þess munu viðkomandi starfa á öðrum heimilum en þeim sem nánustu skyldmenni búa.

Vonandi þurfum við þó aldrei að nota þessa deild í þetta verkefni!

 

Hrafnistubréf kemur út í næstu viku

Þessa dagana er að berast í hús nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Blaðið sem er í A4 broti er gefið út tvisvar á ári í 2.500 eintökum eins og venjulega. Auk þess að vera dreift til heimilismanna allra Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu; til annarra hjúkrunarheimila, alþingismanna, sveitarstjórnarfólks og fleiri. Blaðið er með hefðbundnu sniði en óvenju efnismikið enda mikið búið að vera gerast hjá okkur á Hrafnistu síðustu mánuði.

Sjálfsagt hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að gefa út blaðið og bið ég ykkur um að dreifa því fljótt og vel til heimilisfólks þegar það berst inn á deildir til ykkar.

Ef ykkur vantar aukaeintök er ykkur velkomið að snúa ykkur til Huldu S. Helgadóttur.

 

Gleðilega páska!

Ég vil nota þetta tækirfæri og óska ykkur öllum – hvort sem þið fáið gott frí eða þurfið að standa vaktina – sem og öðru starfsfólki, íbúum og góðvinum Hrafnistu og fjölskyldum, gleðilegrar páskahátíðar í þessum óvenjulegu aðstæðum sem nú rýkja í samfélaginu!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur