Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 20. mars 2020 - Gestahöfundur er Kristín Hrund mannauðsráðgjafi

Við erum að upplifa mjög óvanalega tíma á meðan Covid-19 kórónafaraldurinn gengur yfir. Við sem vinnum á hjúkrunarheimili erum með viðkvæman hóp sem krefst þess að við séum vel upplýst um stöðu mála. Við fylgjumst daglega með fréttamiðlum, beinum útsendingum af fréttafundum, upplýsingavefnum covid.is og þeim breytingum og tilmælum sem berast okkur daglega. Þetta sérstaka ástand getur verið mjög kvíðavaldandi og óttinn við að smita aðra yfirþyrmandi, enda erum við jú öll almannavarnir. Til þess að lágmarka kvíða og streitu skiptir miklu máli að taka hlutunum af yfirvegun, vera upplýstur um stöðu mála án þess að vera of upptekin af ástandinu allan sólarhringinn og aðgreina hvað er raunverulegt og hvað ekki.

Í þessu undantekningarástandi fer hversdagsleikurinn á hvolf og það sem vanalega er í reglu og rútínu fer úr skorðum. Það er eins og það hægist á öllu og heimurinn okkar minnki í þessu ástandi. Börnin eru lítið eða jafnvel ekki í skólum og leikskólum, sumir í fjarnámi og fólk komið með vinnuna sína heim í stofu. Samkomubann, sóttkví og öll erum við almannavarnir - allt í einu getum við ekki gert allt sem okkur hefur fundist sjálfsagt að gera, viðburðir frestast eða er aflýst og öll óþarfa faðmlög eða handabönd eru bönnuð. Í aðstæðum sem þessum skiptir miklu máli að koma sér upp venjum sem líkjast þeim hefðbundnu eins og kostur er.

Sjaldan verður jafn áberandi og einmitt þessa dagana, hvað hugarfar og það hvað við veljum að beina sjónum okkar að skiptir miklu máli. Þegar heimurinn minnkar er góður tími til að sinna því sem við getum annars ekki gert með sama hætti eins og að eiga fleiri gæðastundir með börnunum sínum og maka, spila, lesa og jafnvel læra eitthvað á eigin spýtur sem okkur hefur alltaf langað að gera en við höfum aldrei haft tíma til að gera.  Það skiptir auðvitað öllu máli að styrkja ónæmiskerfið, hugsa vel um heilsuna, borða næringarríkan mat, hreyfa sig úti í náttúrunni og  finna leiðir til að stunda líkamsrækt heima í stofu.  Þetta er líka góður tími til að horfa inn á við, sinna sjálfsrækt, endurhugsa í ró og næði forgangsröðun okkar og gildi í lífinu og velja vel hvað við setjum tímann okkar í þegar lífið fer aftur að ganga sinn vangagang og heimurinn stækkar á ný.

Sérstaklega jákvætt þessa dagana er að upplifa samheldnina í samfélaginu og meðvitundina um  samfélagslega ábyrgð. Við stöndum saman sem ein heild og erum öll að leggja okkar af mörkum til að láta hlutina ganga. Fyrirtæki keppast við að láta gott af sér leiða og gera ástandið sem bærilegast fyrir alla. Síminn býður í augnablikinu til að mynda upp á ótakmarkað gagnamagn, Nova TV er öllum opið og Eddu forlagið  býður upp á ókeypis Disney-hljóðbækur fyrir börnin (https://www.mbl.is/edda/disney-klubbur/). Borgarleikhúsið býður upp á upplestur í Borgó í beinni (sjá hér: https://www.borgarleikhus.is/ ).

Ýmsir aðilar bjóða upp á afþreyingu og viðburði í gegnum netið eins og t.d. hugleiðslur (t.d. https://www.kyrrdarjoga.is/hugleidslur ). Lótushúsið býður upp á leidda hugleiðslu í beinni útsendingu (sjá hér: http://lotushus.is/dagskra-skraning/ ) og Andagift býður uppá ýmsa nettíma tengda jóga, hugleiðslu og hugarrækt (sjá hér: https://andagift.is/ ).

Á síðunni https://sjalfsmynd.is má svo finna töluvert af fjölbreyttum fróðleik tengdum sjálfsmynd, kvíða, núvitund, seiglu, skjámiðlum o.fl. Vefsíðan er á vegum Sálfræðinga Höfðabakka og ættu allir að geta nýtt sér þetta gagnlega efni heima við.

Stöndum áfram saman sem ein heild og hugum vel að okkur sjálfum og hvert að öðru. Munum að líta á jákvæðu hliðarnar í erfiðum aðstæðum og sýnum öll samfélgslega ábyrgð.

 

Kristín Hrund Whitehead , mannauðsráðgjafi á Hrafnistu. 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur