Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 13. mars 2020 - Gestahöfundar eru Soffía og Helga Björk umboðsmenn íbúa og aðstandenda

Þessa dagana er daglegt líf ólíkt öllum venjulegum dögum á Hrafnistu.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að grípa þurfti til þess að loka Hrafnistuheimilunum fyrir allri utanaðkomandi umferð um síðustu helgi vegna Covid-19 veirunnar. Þetta var vissulega gert til þess að vernda íbúa Hrafnistu þar sem þau tilheyra hópi þeirra sem teljast hvað viðkvæmust í þjóðfélaginu. 

Við finnum að slíkar aðgerðir hafa ekki einungis áhrif á íbúa Hrafnistu heldur svo marga sem að þeim standa. Það veldur mörgum kvíða að geta ekki komið í sínar reglulegu heimsóknir og létt viðkomandi lífið og átt með þeim gæðastundir í hversdeginum.

Allir eru að gera sitt besta í flóknum aðstæðum og vinna saman að því að fólkinu okkar líði sem best.

Aðstandendur eru oftast mikilvægasta fólkið í lífi íbúa okkar og hafa mikið um það að segja hvernig dagurinn þeirra líður og koma með tilbreytingu inn í daginn. Þessar takmarkanir á heimsóknum eru því áskorun fyrir alla.

Í ljósi þessa þurfum við að vera hugmyndarík og fara nýjar leiðir í því að aðstoða fólkið okkar við að heyra í ættingjum og vinum. Samskiptin við ættingja sem venjulega eru í formi heimsókna breytast á meðan á lokun stendur í rafræn samskipti eða skilaboð sem við getum annað hvort hjálpað til við að senda eða komið til skila.

Þó að faðmlög og snerting þurfi að bíða um sinn er gott að muna að nútímatæknin getur hjálpað okkur til þess að eiga nærandi samskipti án þess að vera í sama húsi.

Við starfsfólkið þurfum ef til vill að bjóðast til þess að aðstoða einhverja við það að hringja í fólkið sitt. Sumum gæti þótt gott að fá hjálp við að hringja mynd-símtal (video-call) í gegnum snjalltæki og öðrum gæti hentað að fá starfsmann til þess að koma skilaboðum áfram. Með því að fara fjölbreyttar leiðir erum við að hjálpa bæði íbúum og aðstandendum að vera áfram í sambandi.

Þannig viðhaldast þessi dýrmætu og mikilvægu tengsl sem skipta okkur öll svo miklu máli. Ekki síst þegar aðstæður eru eins fordæmalausar og raunin er þessa dagana.

Góða helgi!

Soffía Stefanía Egilsdóttir og Helga Björk Jónsdóttir

Umboðsmenn íbúa og aðstandenda.

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur