Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 28. febrúar 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 28. febrúar 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

*Um 800 manns heimsóttu Hrafnistu á Sléttuvegi í dag!

Á þeim tólf árum sem ég hef starfað fyrir Hrafnistu var einn merkilegasti dagurinn í starfi mínu í dag en þá var formleg vígsla á nýju hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi í Fossvogi. Nýja hjúkrunarheimilið er með 99 rýmum og verður án efa kærkomin búbót fyrir heilbrigðismál í landinu en erfitt ástand í starfsemi Landspítala undanfarin misseri hefur ekki síst stafað af miklum skorti á slíkum rýmum eins og stjórnendur spítalans, landlæknir og fleiri hafa ítrekað bent á.

Heimilið, sem er það áttunda sem Hrafnista starfrækir, er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, ríksins og okkar og gaman er að segja frá því að hjúkrunarheimilið, sem kostar um 2,9 milljarða, er bæði á réttum tíma og aðeins undir kostnaðaráætlun. Við Hrafnistufólk höfum verið svo heppin að vera með frábæran hóp stjórnenda og starfsfólks til að gera þetta verkefni jafn vel og glæsilega og raun ber vitni. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka kærlega þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóg í Sléttuvegsverkefninu.

Fyrstu fjórir íbúarnir eru þegar fluttir inn og í lok næstu viku verða íbúar orðnir um 30 talsins.
Við formlega vígslu fluttu ávörp meðal annars heilbrigðisráðherra, borgarstjóri og biskup Íslands, auk Hálfdans Henryssonar, formanns stjórnar Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu. Hjúkrunarheimilið var opið öllum til sýnis í dag og mættu um 800 manns til að skoða heimilið, meðal annars fjöldi starfsmanna annarra Hrafnistuheimila.

 

*Nesvellir stækka um helming árið 2023 – skrifað undir samning í gær!

Í gær vorum við Þuríður forstöðumaður í Reykjanesbænum ásamt ýmsum fleirum, viðstödd merkisatburð þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar undirrituðu samning um nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Heimilið verður byggt við Nesvelli og stækka því Nesvellir um helming, úr 60 rýmum í 120.

Áætlað er að árið 2020 verði notað í hönnun mannvirkisins og að framkvæmdir hefjist í byrjun næsta árs. Gert er ráð fyrir að heimilið verði tekið í notkun um mitt ár 2023.

Um leið og nýja heimilið opnar mun Hlévangur loka og því er fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum 30 rými samtals. Lokun Hlévangs ætti í raun ekki að koma neinum á óvart enda húsnæðið þar ekki lengur í samræmi við nútímakröfur til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum. Rétt er að taka skýrt fram að öllum starfmönnum Hlévangs mun bjóðast sambærileg vinna á nýja heimilinu.

Áætluð stærð nýja hjúkrunarheimilisins er um 3.900 fermetrar og áætlaður framkvæmdakostnaður er 2.435 milljónir króna. Samkvæmt samningnum verður framkvæmdin á hendi sveitarfélagsins. Sannarlega spennandi!

 

*Hrafnista heldur með Nínu!

Að lokum er gaman að segja frá því að það er orðið fátt sem gerist í þjóðfélaginu án þess að Hrafnista komi við sögu.

Annað kvöld verður til dæmis úrslitakeppni í söngvakeppni sjónvarpsins þar sem valið verður framlag Íslands í Eurovision.

Við á Hrafnistu eigum að sjálfsögðu fulltrúa okkar í keppninni en söngkonan Nína, sem flytur lagið Ekkó, er starfmaður á Hrafnistu Ísafold.

Við á Hrafnistu segjum því bara áfram Nína og góða skemmtun!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur