Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 14. febrúar 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 14. febrúar 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Kærar þakkir fyrir lipurð og samstillt viðbrögð í vonda veðrinu!

Í morgun og nú fram eftir degi hefur djúp lægð gengið yfir landi. Gefin var út rauð veðurviðvörun, mörgum skólum og fyrirtækjum lokað og almenningssamgöngur lögðust tímabundið af.

Ólíkt mörgum skólum og fyrirtækjum er ekkert í boði að loka á Hrafnistuheimilunum. Heimilin okkar fóru því í gær að gera ráðstafanir svo starfsfólk kæmist til og frá vinnu. Á flestum hjúkrunardeildum mætti hluti starfsmanna til vinnu eldsnemma í morgun þannig að nægt starfsfólk yrði til staðar í upphafi morgunvaktar í morgun.

Ég hef nú heyrt frá flestum heimilunum og allt virðist hafa gengið í heildina mjög vel. Nú þegar að veðrið er gengið niður að mestu er ljóst að engin alvarleg atvik áttu sér stað hvað húsin okkar varðar.

Mér er því efst í huga þakklæti til ykkar allra fyrir lipurð og samstillt vinnubrögð vegna vonda veðursins. Hafið heiður og þakkir fyrir!

Starfsafmæli í febrúar

Í hverjum mánuði á hópur starfsmanna formleg starfsafmæli hér hjá okkur á Hrafnistu og fá allir afhentar starfsafmælisgjafir í samræmi við það. Í febrúar eiga eftirfarandi starfsmenn starfsafmæli.

3 ára starfsafmæli: Magdalena Zakrzewska í eldhúsinu í Laugarási og Kristín Rúnarsdóttir á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi. Á Ísafold eru það Birna Björnsdóttir, Charlyn Burabod Gomez, Darunee Kornee, Elín Ragnheiður Magnúsdóttir, Elísabet Dagfinnsdóttir, Eyrún Eðvaldsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Hafdís Lilja Þórsdóttir, Hanna Bednarek, Helga Björk Sigurðardóttir, Johanna Engelbrecht, Katrín Jónsdóttir, Kristín Þorbjörg Guðmundsdótti, Kristrún Anna Borgþórsdóttir, María Rós Magnúsdóttir, Maureen Achieng Gaya Ingvarsson, Natalia Molina Marchadesch, Sigurborg A. Helgadóttir, Tara Katrín Sigursteinsdóttir og Þórný Alda Kristjánsdóttir allar á hjúkrunardeildum. Adam Daniel Tumowski, Anthony Escote Armada í ræstingu, Lára Íris Lárusdóttir ræstingastjóri og hjúkrunarfræðingarnir Andrea Fanney Harðardóttir og Margrét Unnur Ólafsdóttir og Steinunn Ósk Geirsdóttir deildarstjóri.

5 ára starfsafmæli: Malgorzata Barylowicz í eldhúsi og Edda Rún Halldórsdóttir ræstingarstjóri, báðar á Nesvöllum í Reykjanesbæ.

10 ára starfsafmæli: Margrét Valdimarsdóttir á Sjávar-/Ægishrauni Hrafnistu Hraunvangi.

20 ára starfsafmæli: Vaka Reynisdóttir á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu.

Þorrablótum Hrafnistu 2020 lokið – þakkir til ykkar!

Á fimmtudag og föstudag fóru fram skemmtileg þorrablót fyrir íbúana okkar í Hraunvangi og Boðaþingi. Þar með er lokið þorrablótshátíðum á öllum Hrafnistuheimilunum sjö þennan þorrann. Við hér á Hrafnistu höfum jafnan lagt mikið upp úr þorrablótum sem við viljum halda með stæl fyrir íbúana okkar. Flottar og skemmtilegar myndir frá öllum blótunum okkar eru komnar inn á heimasíðuna og sýna þær sannarlega að við á Hrafnistu kunnum að halda hátíðir og hafa gaman.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu úr ykkar hópi sem lögðu hönd á plóginn við þorrablótin okkar. Það er mikið aukalega lagt á sig við að gera þetta svona glæsilegt og kann ég ykkur bestu þakkir fyrir ykkar framlag við að gera góðar Hrafnistur ennþá betri!

 

Gleðilegan Valentínusardag og góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur