Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 22. nóvember 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 22. nóvember 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Nýtt eldhús Hrafnistu tekið í notkun á næstunni.

Hrafnista starfrækir nú tvö eldhús. Annað er í Reykjanesbæ sem eldar fyrir Nesvelli, Hlévang og nokkra aðra aðila á Suðurnesjum. Hitt eldhúsið er í Laugarásnum og sér það um Hrafnistuheimilin á höfuðborgarsvæðinu: Laugarás, Hraunvang, Boðaþing, Ísafold og Skógarbæ. Auk þess mun svo nýja heimilið á Sléttuvegi bætast í hópinn þegar það opnar á næsta ári. Miklar breytingar á aðaleldhúsi Hrafnistuheimilanna í Laugarásnum hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Eldhúsið hefur nú verið stækkað úr 680 m² í 1.050 m². Með þessari stækkun munu framleiðsluafköst fara úr 850 í 1.800-2.000 skammta á sólarhring en eftir breytingu verður eldhúsið eitt af stærstu framleiðslueldhúsum landsins.Áætlaður kostnaður við framkvæmdir eru 550 milljónir þar af er eldhúsbúnaður þ.e. pottar, ofnar, pönnur, borð, kælar og frystar um 70 milljónir.

Þessa dagana er allt að verða klárt og vonandi tekst að byrja starfsemi í nýja eldhúsinu á allra næstu dögum. Þetta verður kærkomið fyrir starfsfólkið okkar í eldhúsinu sem nú hefur verið í bráðabirgðaaðstöðu á framkvæmdatímanum eða í 10 mánuði.

 

Forvitnileg tölfræði um aldur og kyn starfsfólk Hrafnistu

Valgeir, deildarstjóri Bókhalds- og launadeildar tók saman forvitnilega tölfræði um starfsfólkið okkar, út frá þeim sem fengu úborguð laun um síðustu mánaðarmót. Um 1.400 manns fengu þá greidd laun. Í starfsmannahópi Hrafnistu eru nú karlmenn 7% og konur 93%. 47% starfsmanna eru 30 ára eða yngri, 28% eru 31-50 ára og 25% eru eldri en 50 ára.

 

Kótilettudagur Hrafnistu tókst ljómandi vel!

Það var fjör hjá okkur í gær þegar Kótilettudagurinn á Hrafnistuheimilunum var haldinn hátíðlegur. Þetta er árlegur viðburður, haldinn um það leyti sem Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistuheimilanna, á afmæli. Þá er „þjóðarrétturinn“ á matseðlinum, steiktar og ofnbakar kótilettur í raspi sem snæddar eru með „alles“;; sum sé rauðkáli, grænum baunum, léttbrúnuðum kartöflum og rabarbarasultu. Um 1.000 manns voru í hádegismat á Hrafnistuheimilunum sjö og  sporðrenndu nokkur þúsund kótilettum.Á Hrafnistu í Hafnarfirði fór fram árleg átkeppni undir stjórn Harðar Magnússonar íþróttafréttamanns og Óla kokks sem var dómari. Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og alþingismaður og ríkjandi meistari frá því í fyrra, varði titilinn með glæsibrag og sigraði meðal annar alþingismennina Vilhjálm Árnason og Ásmund Friðriksson, Sighvat Halldórsson frá Kiwanisklúbbnum Heklu, Gústa pípara og Frosta bílstjóra. Skemmtilegur dagur og kótiletturnar stóðu svo sannarlega fyrir sínu.

Gaman var svo að margir fjölmiðlar kíktu í heimsókn á kótilettuátkeppnina og fjölluðu um hana í sínum miðlum.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu ykkar sem lögðu hönd á plóginn við að gera kótilettudaginn jafn glæsilegan og raun bara vitni. Hrafnista rokkar!

 

Uppfært skipurit Hrafnistu

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur nú samþykkt uppfært skipurit Hrafnistu. Skipurit okkar er mikilvægur þáttur í því að hafa boðskipti og skipulag með skýrum og markvissum hætti. Í svo stóru fyrirtæki sem við erum, geta verið breytingar á skipulagi og stjórnendum öðru hverju. Það er því mikilvægt að uppfæra skipuritið með reglubundnum hætti og alveg kominn tími á að gera það núna, enda búnar að vera breytingar á nokkrum stjórnendum síðan í vor þegar skipuritið var uppfært síðast. Skipurit Skógarbæjar og Sléttuvegar eru nú komin inn. Uppfært skipurit er að finna á heimasíðunni undir flipanum „Um Hrafnistu“.

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur