Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 6. september 2019 - Gestahöfundur er Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins

Föstudagsmolar 6. september 2019.

 

Nú líður að hausti og margt sem leitar á hugann við slík tímahvörf.  Byggingu nýs hjúkrunarheimilis nýrrar Hrafnistu nálgast óðum framkvæmdalok og að íbúar flytji inn í hið glæsilega hús.  Þegar hefur verið ráðið starfsfólk til að undirbúa opnun heimilisins, sem gert er ráð fyrir að verði í febrúar á næsta ári. Um mikla framkvæmd er að ræða en gert er ráð fyrir allt að hundrað íbúum á hjúkrunarheimilinu með öllu því starfsfólki sem nauðsynlegt er fyrir slíkan rekstur. Húsið er byggt eins og við metum að það komi að mestum notum sem heimili fyrir aldraða einstaklinga.  Þar höfum við notið reynslumikils starfsfólks Hrafnistu en húsið er hannað að öllu leyti í samræmi við óskir þess og langrar reynslu. Hrafnistuheimilin eru nú alls sjö  og er heimilið við Sléttuveg því númer átta í röðinni.  Síðastliðið sumar bættist Skógarbær við rekstur Hrafnistu og bindum við miklar vonir við að rekstur þess gangi í takt við önnur Hrafnistuheimili.  Samfara þessari aukningu  varð að ráðast í umfangsmiklar breytingar á eldhúsi Hrafnistu í Reykjavík en fyrirséð var að það myndi ekki geta annað þessari aukningu.  Gert er ráð fyrir að breytingum eldhússins verði að fullu lokið þegar Hrafnista við Sléttuveg tekur til starfa.  Mikið rask hefur fylgt þessum breytingum á Hrafnistu í Laugarási og á Hrafnistu við Hraunvang en þangað var stærstur hluti starfsemi eldhússins fluttur til bráðabirgða meðan á framkvæmdum hefur staðið. Þá er kannski komið að meginpistli þessa föstudagsmola en það er hvernig íbúar og starfsfólk hafa tekið þessum framkvæmdum sem  bæði hafa verið á köflum æði hávaðasamar og leitt af sér allskonar ónæði fyrir íbúa og starfsfólk.  Það er einmitt við mál sem þessi að manni verður ljós ómetanlegur stuðningur íbúa og starfsfólks.  Engar kvartanir hafa borist vegna þeirra og allir hafa tekið þessu af miklu æðruleysi og skilningi.  Við sem lögðum þessar kvaðir á erum óendanlega þakklát fyrir allan þann skilning sem við höfum fengið og biðjumst enn og aftur afsökunar á öllu ónæðinu.  Við eru þess fullviss að eldhúsið okkar verði með þeim bestu sem völ er á. Margt annað en framkvæmdir hafa sótt á okkur á undanförnum mánuðum en deilt hefur verið í fjölmiðlum á ýmislegt sem talið hefur verið að betur mætti fara í rekstri.  Mjög hefur reynt á starfsfólk okkar sem alltaf hefur reynt að sinna störfum sínum af alúð og nærgætni.  Að reka hjúkrunarheimili er viðkvæmur rekstur og opinn fyrir tilfinningaþrungnum athugasemdum og skoðunum.  Allar athugasemdir  eru skoðaðar og reynt að bæta úr reynist eitthvað skoðunarvert. Unnið er eftir gæðahandbók og opinberum reglum sem um  þennan rekstur gilda.  Í starfsmannahópi Hrafnistuheimilanna er afar fært starfsfólk sem reynir allt hvað það getur til að íbúum líði sem best og eigi notalega daga svo sem kostur er. Fyrir tveimur dögum eða þann 2. september sl.  birtist í Vísi grein eftir Maríu Fjólu Harðardóttur framkvæmdastjóra heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna og er greinin endurflutt í Mbl. þann fimmta september sl..  Þessi grein er þörf lesning fyrir alla sem láta sig þessi mál varða og eru henni færðar alúðar þakkir fyrir. Nú eins og fyrr þakkar Sjómannadagsráð starfsfólki sínu öllu, starfsfólki Hrafnistuheimilanna, starfsfólki Naustavarar og Ölduvarar ásamt starfsfólki happdrættis DAS og starfsfólki á skrifstofu Sjómannadagsráðs mikinn skilning og fórnfýsi við þessar framkvæmdir allar.

 

Hálfdan Henrysson

Stjórnarformaður

Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur