Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 26. apríl 2019 - Gestaskrifari er Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Hraunvangi

Á fjögurra ára fresti er haldin alþjóðleg iðjuþjálfaráðstefna og ákvað undirrituð að bregða undir sig betri fætinum (ásamt nokkrum tugum íslenska iðjuþjálfa reyndar líka) og skella sér á eina slíka í maí í fyrra. Hún var haldin í Cape Town í Suður-Afríku og því talsvert ferðalag að koma sér á staðinn.

Ráðstefnan var vel sótt, um 2000 iðjuþjálfar víðsvegar að úr heiminum sem mættu og fyrirlestrarnir voru þó nokkuð margir líka eða um 1150 takk fyrir. Það var því úr vöndu að velja og margir áhugaverðir fyrirlestrar þar sem menningarheimur fyrirlesaranna var oft á tíðum töluvert frábrugðin því sem við eigum að venjast.

Það var sérstaklega eitt erindið sem situr fastar en önnur í huga mér en það var frásögn iðjuþjálfa sem starfar í dreifbýli Suður-Afríku. Þau eru með flott teymi sem í eru læknar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar og fleiri fagstéttir sem eru vel tækjum búin og með mikla reynslu. Verkefni þeirra eru mörg en þeirra helsta áskorun í vinnu sinni er að fá að nálgast fólkið sem þarf að aðstoða m.a. vegna sterkrar hefðar hjá ættbálkum. Ættbálkamenningin er gríðarlega mikil þarna og sterk hefð fyrir því að kalla t.d. á seiðkarl ef eitthvað amar að hjá þeirra fólki frekar en að kalla til langskólagengna einstaklinga í hvítum sloppum eða því um líkt.  Það var því áhugavert að heyra iðjuþjálfann segja frá reynslu sinni þar sem amman í einum ættbálknum var komin með heilabilun og var að sögn ættbálksins haldin illum öndum og talaði tungum. Seiðkarlinn var kallaður til og hans lausn á málinu var að söngla einhverskonar söng yfir henni með alls kyns handabendingum og dansi og að lokum var önnur höndin tekin af ömmunni við öxl! Við þetta átti hún að læknast og illir andar fara lönd og leið. Ættbálkurinn samþykkti þetta og höndin var tekin af ömmunni sem hélt auðvitað áfram að „tala tungum“ þrátt fyrir handamissirinn. Það var ekki fyrr en þá sem að teymið fékk að koma að ömmunni og veita aðstandendum hennar fræðslu og henni þá aðstoð sem hún þarfnaðist.

Mikil fátækt er þarna í Cape Town eins og víðast hvar í Afríku. Fleiri ferkílómetrar fátækrahverfis (eða Township eins og þau eru kölluð) eru víðs vegar í útjaðri borgarinnar. Þar býr fólk sem býr þar af illri nauðsyn vegna fátæktar en einnig búa þar einstaklingar sem hafa vinnu eins og t.d við þjónustustörf á hótelum, matsölustöðum o.fl. en kýs að búa áfram í hverfinu og safna pening til þess að geta ferðast eða keypt sér bíl. Einnig vegna þess að öll þeirra fjölskylda býr þarna í hverfinu og blöndun á milli hvítra og litaðra einstaklinga er ekki mikil á þessum slóðum og erfitt getur verið að fóta sig í betra hverfi þrátt fyrir að eiga peninginn til þess að geta keypt húsnæði þar.

Það var hópur kvenna sem kölluðu sig ömmurnar sem fluttu einnig erindi á ráðstefnunni og sögðu þær frá sínu sjálfboðastarfi sem fer að mestu fram í fátækrahverfunum. Þær fara um hverfin, leiðbeina fólki með eigin umsjá og veita fræðslu og aðstoð. HIV veiran hefur stungið sér töluvert þarna niður og hafa þær m.a. gert átak í að fræða þá sem hafa smitast, þar sem vitneskja þeirra smituðu var ekki mikil um veiruna eða sjúkdóminn sem veirunni fylgir. Áður en þær komu með sína vinnu inn í hverfið var ferlið hjá hinum smitaða svolítið þannig að hann fékk að vita að hann væri veikur af HIV veirunni en fékk engar frekari upplýsingar um smitleiðir eða annað og var því ekki svo mikið að velta sér upp úr hætttunni sem stafaði af veirunni og smitleiðirnar því galopnar. Með ömmunum hefur HIV tilfellum fækkað til muna og aðstaða hinna smituðu batnað til muna.

Þegar komið er alla leið til Suður-Afríku er ekki annað hægt en að skoða sig líka aðeins um og kynnast menningunni. Við skoðuðum borgina úr háloftunum í þyrlu, fórum á snekkju áleiðis að Robben eyju þar sem Nelson Mandela var í fangelsi á sínum tíma, fórum í vínsmökkun, sáum villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi, fórum með bát út að selaeyju og skoðuðum og upplifðum allt það helsta sem var þarna í boði.

Í lok ráðstefnunnar var svo boðið til kvöldverðar á stað sem kallast Gold og var þar boðið upp á rétti frá öllum löndum Afríku, afrískan dans og söng og fleira sem tilheyrir þeirra menningu. Til að setja punktinn yfir i-ið á þessari frábæru ferð fengum við svo eftirrétt sem gulli hafði verið dreift yfir ⯑Ótrúlega flottur endir á frábærri og ógleymanlegri ferð.

 

Harpa Björgvinsdóttir,

deildarstjóri iðjuþjálfunar

Hrafnistu Hraunvangi

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur