Fréttasafn

Sjómannadagsráð gæti byggt og rekið ódýrari hjúkrunarrými og afhent þau fyrr

Lesa meira...

 

Nýlega áttu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu fund með heilbrigðisráðherra, til að kynna hugmyndir um átak til að flýta núverandi áætlunum hins opinbera um byggingu og rekstur nýrra hjúkrunarrýma. Frumkvæði og tilefni fundarins var ekki síst umræðan um erfitt ástand í starfsemi Landspítalans, sem stafar ekki síst af miklum skorti á hjúkrunarrýmum, eins og stjórnendur spítalans hafa ítrekað bent á. Vildu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu kynna sína hugmyndir um lausn vandans, enda hefur Sjómannadagsráð langa reynsluaf nýbyggingum hjúkrunarrýma og leiguíbúða í fyrir aldraðra.

Áætlanir um 717 ný hjúkrunarrými til 2024

Í greinargerð með núgildandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (2020 – 2024) eru lögð fram markmið um að fjölga nýjum hjúkrunarrýmum um 717  á tímabilinu. Reynsla síðustu ára hefur sýnt að það tekur of langan tíma að koma hjúkrunarheimilum í notkun eftir að samkomulag milli ríkis og sveitarfélags hefur verið undirritað. Mörg dæmi eru um að það líði yfir 5 ár frá því að heilbrigðisráðuneytið tekur ákvörðun um byggingu nýs hjúkrunarheimilis þar til rekstur þess hefst. Ljóst er að með þessu fyrirkomulagi mun reynast torvelt að ná áðurnefndu markmiði, nema að ráðstafanir verði  gerðar til að stytta tímann sem ferlið tekur.

Stenst markmið um byggingartíma og kostnað

Nú styttist í að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun við Sléttuveg í Fossvogi. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja aðila, þ.e. Heilbrigðisráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs/Hrafnistu. Samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg frá maí 2017 tók Sjómannadagsráð, með aðkomu Hrafnistu, að sér að hafa umsjón með framkvæmdum við byggingu á nýju 99 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Nú, aðeins 32 mánuðum síðar, er rekstur hins nýja hjúkrunarheimilis hafinn og fyrstu íbúarnir flytja inn eftir að vígsla þess hefur farið fram þann 28. febrúar næstkomandi. Þetta er styttri framkvæmdatími en áður hefur þekkst, auk þess sem byggingarkostnaður verður talsvert undir þeim markmiðum sem sett voru í samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar í október 2016. Það gerist þrátt fyrir að bæði byggingar- og launavísitala hafi hækkað um 15-20% á tímabilinu og gengi krónunnar lækkað um 8-9%. Í samanburði við önnur áform við byggingu hjúkrunarheimila hefur framkvæmdin á Sléttuvegi gengið mun hraðar fyrir sig og byggingarkostnaðurinn verður tugum prósenta lægri en hjá öðrum hjúkrunarheimilum sem nú eru í byggingu, eða hafa nýlega verið tekin í notkun.

Byggist á reynslu og góðum samstarfsaðilum

Þennan góða árangur má þakka góðu samstarfi milli Heilbrigðisráðuneytisins,  Reykjavíkurborgar og Hrafnistu. Að mati Sjómannadagsráðs skiptir það sköpum að hafa frá byrjun aðgang að þeim rekstrararaðila sem tekur við starfseminni til að gera það mögulegt að taka allan þann fjölda ákvarðana sem þarf í svona flóknu verkefni. Hrafnista sem býr að langri og ómetanlegri reynslu af rekstri hjúkrunarheimila sem gerir kleift að skila af sér heimili sem uppfyllir kröfur og væntingar notenda og um leið að skila því innan settra markmiða um byggingartíma og kostnað. Hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi fylgir öllum reglum ríkisins um aðstöðu og aðbúnað, auk þess sem þar eru að finna ýmsar nýjungar í hönnun og skipulagi sem gera kleift að veita enn betri þjónustu.

Sjómannadagsráð getur komið að brýnum verkefnum

Á fundinum með ráðherra lýstu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu áhuga sínum að koma að frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstunni í samstarfi við hið opinbera, að því tilskyldu að stuðst verði við sambærilegt fyrirkomulag og við Sléttuveg. Það fólst í meginatriðum í því að Sjómannadagsráði og Hrafnistu verði falin umsjón með hönnun, framkvæmdum og rekstri hjúkrunarrýmanna. Með slíku samkomulagi væri gerlegt að byggja ný hjúkrunarrými mun hraðar og ódýrar en núverandi fyrirkomulag ríkisins myndi leiða af sér. Meðal verkefna sem hrinda mætti í framkvæmd nú þegar eru t.d. stækkun hjúkrunarheimilisins við Boðaþing í Kópavogi (áætluð 64 rými), nýbygging á stóru hjúkrunarheimili í Reykjavík (100-200 rými) auk annarra brýnna verkefna sem bíða úrlausnar.

 

Lesa meira...

Dagdvöl á Hrafnistu Sléttuvegi

Lesa meira...

 

Dagdvölin er ætluð þeim sem eru 67 ára eða eldri og búa í Reykjavík. Opið verður alla virka daga milli kl. 08:00 - 16:00. Daggestir greiða ákveðið daggjald og akstur er í boði til og frá heimili.

Markmið dagdvalar er að viðhalda sjálfstæði einstaklingsins og rjúfa félagslega einangrun. Hrafnista Sléttuvegi hefur leyfi fyrir 30 rýmum í dagdvöl.

Deildarstjóri dagvalar á Hrafnistu Sléttuvegi er Bryndís Rut Logadóttir. Til að sækja um dagdvöl á Sléttuvegi þarf að fylla út þar til gerða umsókn og með henni er óskað eftir hjúkrunar/læknabréfi í gegnum Sögukerfið.

 

Umsókn um dagdvöl má nálgast hér.

 

Lesa meira...

Hrafnista á UT- messunni

Lesa meira...

Hrafnista átti einn af fyrirlesurum UT-messunnar 2020 en ráðstefnan fór fram í Hörpu um síðustu helgi. UT-messan (UpplýsingaTækniMessan) er stærsti viðburður ársins í tölvu- og upplýsingatækniheiminum. Á UT-messuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins (og auðvitað starfsfólk) og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst. Um 10 til 20 þúsund manns sækja hátíðina á hverju ári.
Það var Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna sem hélt fyrirlestur á ráðstefnunni. Fyrirlesturinn bar heitið „Þjónusta við aldraða og velferðartækni – hver er staðan?“ og var það samstarfsverkefni Hrafnistu og Opinna Kerfa.
Pétur fjallaði um fjölgun aldraðra og hvernig velferðartækni og tæknilausnir spila þar inn í þjónustuna, sem og kynnti nokkur dæmi um spennandi velferðartækniverkefni. Meðal annars sýndi Pétur köttinn Kela, sem er vélkisa en malar og mjálmar og hreyfir sig ef honum er klappað. Svona kisur erum við á Hrafnistu farin að nota töluvert, sérstaklega fyrir einstaklinga sem glíma við heilabilun en einnig marga aðra með góðum árangri.
Það er mjög skemmtilegt fyrir Hrafnistu að fá að taka þátt í svona viðburði.

 

Lesa meira...

Myndir frá þorrablóti á Hrafnistu Boðaþingi

Lesa meira...

Í hádeginu föstudaginn 7. febrúar sl. var árlegt þorrablót á Hrafnistu í Boðaþingi haldið. Það er alltaf gaman að gera sér dagamun og á því var engin undantekning í þetta sinn. Hefðbundinn þorramatur var á borðum og hafði fólk á orði að eldhúsið hefði gert sérlega glæsilega þorrabakka í ár. Svenni okkar mætti eins og síðustu ár, þandi harmonikkuna og hvatti okkur áfram í söng og gleði. Hjördís Geirsdóttir var honum til halds og trausts með gítarinn ásamt nokkrum starfsmönnum sem sáu um raddir. Hákarlinn var gríðarlega vinsæll og rann ljúflega niður með al-íslensku brennivíni.  Það er ákveðin tilhlökkun yfir bættu veðri og bjartari tíð á Hrafnistu í Boðaþingi og einn íbúi fór með þessa vísu en var ekki viss hver væri höfundur:

 

Ég langsemi á mér finn

oft í myrkri svörtu.

Þegar kemur Þorri minn

þá skal hátta í björtu.

 

Lesa meira...

Heimsóknavinir Rauða krossins Brynhildur, Skuggi og Maja

Lesa meira...

Í dag komu vinir okkar Brynhildur, Skuggi og Maja í síðasta skiptið til okkar í heimsókn (a.m.k. í bili). Brynhildur og Skuggi eru heimsóknavinir Rauða krossins og hafa komið til okkar í heimsókn á Báruhraunið, á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði, einu sinni í viku í 5 ár. Maja systir Skugga bættist svo í hópinn fyrir um 2 árum.
Það hafa verið miklar gleðistundir þegar þau hafa komið til okkar og hafa þau gefið íbúum okkar ómetanlega væntumþykju og hlýju með heimsóknum sínum. Við þökkum þeim kærlega fyrir samveruna undanfarin ár og óskum þeim góðs gengis í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur á komandi tímum.

 

Lesa meira...

Myndir frá þorrablóti Hrafnistu Hraunvangi

Lesa meira...

 

Þorrablót Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði var haldið hátíðlegt fimmtudaginn 6. febrúar sl. Þorrablótið gekk í alla staði mjög vel og var þátttaka virkilega góð. Maturinn og brennivínið stóðu svo sannarlega fyrir sínu og voru íbúar, gestir og starfsmenn mjög lukkulegir með þorramatinn. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona og Davíð Sigurgeirsson gítarleikari sáu um veislustjórn, fluttu nokkur vel valin lög og stjórnuðu fjöldasöng. Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu sendi góðar kveðjur og skálaði fyrir gestum og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar flutti ávarp. Bjarney Sigurðardóttir verkefnastjóri á heilbrigðissviði Hrafnistu flutti minni karla en Valgeir Elíasson deildarstjóri bókhalds-og launadeildar Hrafnistu flutti minni kvenna. Að lokum lék Silfursveiflan á mjög skemmtilegu og eftirminnilegu balli.

 

Lesa meira...

Myndir frá þorrablóti Hrafnistu Hlévangi í Reykjanesbæ

Lesa meira...

 

Hið árlega þorrablót Hrafnistu Hlévangi var í hádeginu föstudaginn 24. janúar sl. Íbúar, starfsmenn og gestir áttu ljúfa samverustund saman og gæddu sér á dýrindis þorramat og skoluðu því niður með íslensku brennivíni og malt og appelsíni. Bragi Fannar harmonikkuleikari þandi nikkuna og spilaði öll gömlu góðu lögin.

 

Lesa meira...

Til upplýsingar tengt stöðu mála á Hrafnistu vegna kórónavírusfaraldursins:

Lesa meira...

Fylgst er mjög vel með gangi mála dag frá degi á heilbrigðissviði Hrafnistu og verið er að vinna í viðbragðsáætlunum í samvinnu við viðbragðsaðila.  

Eins og við allar aðrar sýkingar er besta sýkingavörnin handþvottur og handsprittun og hvetjum við ykkur eins og ávallt til að vera vakandi fyrir mikilvægi þess.

Við munum halda ykkur vel upplýstum um gagn mála og næstu skref, ef þeirra er þörf.

 

Lesa meira...

Nýr verkefnastjóri á heilbrigðissvið Hrafnistu

Lesa meira...

 

Frá og með 1. febrúar 2020 er Hulda Sigurveig Helgadóttir nýr verkefnastjóri á heilbrigðissviði Hrafnistuheimilanna. Hulda er með BS gráðu í viðskiptafræði og hefur nýlokið meistaranámi í Forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún hefur starfað á Hrafnistu frá árinu 2011, fyrst á launadeild og í gæða- og fræðslumálum en síðustu sex ár hefur hún starfað á skrifstofu Hrafnistu í Laugarási.

 

Lesa meira...

Síða 11 af 133

Til baka takki