Fréttasafn

Þakkir til starfsfólks hjúkrunarheimila

Lesa meira...

 

Þó fjöldamargir eigi þakkir skildar fyrir framlag sitt í þessu fordæmalausa ástandi, á starfsfólk hjúkrunarheimila skilið sérstakt hrós fyrir frammistöðu sína - eins og fram kemur í þessari grein sem birtist á visir.is í gær.

Grein á visir.is

 

Þakkir til starfsfólks hjúkrunarheimila

Þann 6. mars sl. var staðfest að smit vegna Kórónuveirunnar (COVID – 19) væri farið að berast á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Við það tilefni var lýst neyðarstigi almannavarna og sama dag ákváðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að beina því til hjúkrunarheimila landsins að loka heimilunum fyrir heimsóknum og umferð annarra en starfsfólks. Þau tilmæli voru ekki gefin út af léttúð, heldur að vel ígrunduðu máli og í samráði við starfsfólk hjá Embætti landlæknis og fjölda fagaðila sem starfa innan hjúkrunarheimilanna og í þjónustu við einstaklinga með heilabilun. Það var samdóma álit þessara fagaðila að þörf væri á slíkri aðgerð og að grípa yrði til hennar sem fyrst. Aðgerðin var gerð með velferð íbúa heimilanna að leiðarljósi en þeir eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma og eru því í sérstökum áhættuhópi tengt því að veikjast alvarlega af völdum veirunnar. Ljóst var frá upphafi að leita yrði allra leiða til að lágmarka eins og kostur var líkur á að íbúar heimilanna smituðust.

Nú eru um 2.800 hjúkrunarrými hér á landi. Ljóst var að bann við heimsóknum myndi hafa mikil áhrif á daglegt líf þúsunda landsmanna og yrði án efa mjög erfitt fyrir alla; íbúana sjálfa, ættingja og aðstandendur þeirra, sem og starfsfólk heimilanna. Það getur vitanlega reynst íbúum erfitt að fá ekki heimsóknir ættingja sinna og á sama hátt getur það reynst ættingjum erfitt að fá ekki að fara í heimsókn. Þann tíma sem bannið hefur varað hefur það ekki síður reynst starfsfólki hjúkrunarheimilanna erfitt, sem lagt hefur sig fram við að skipuleggja daglegt starf við breyttar aðstæður og unnið af alúð við umönnun íbúa með þeim hætti að þeir finni sem minnst fyrir breytingunum.

Aðstandendur og íbúar hafa sýnt ákvörðun hjúkrunarheimilanna skilning og unnið vel með stjórnendum og starfsmönnum heimilanna. Starfsfólkið hefur unnið þrekvirki undanfarnar vikur, ekki bara við aðlögun að breytingunum á vinnustöðunum heldur einnig með því að vanda sig sérstaklega í umgengni við aðra, innan sem utan vinnutíma. Margir starfsmenn hafa sjálfir búið í ákveðinni sóttkví í margar vikur og haldið sig með sinni fjölskyldu (og jafnvel án hennar ef aðstæður hafa verið þannig) innan veggja heimilisins, á milli þess sem þeir mæta til vinnu. Stjórnendur hafa unnið sleitulaust að breytingum á starfsmannahaldi, sóttvörnum og viðbragðsáætlunum. Þetta samstarf allra aðila hefur orðið til þess að núna þegar faraldurinn er á niðurleið hefur einungis komið upp smit á einu hjúkrunarheimili á landinu og af heildarfjölda starfsmanna hjúkrunarheimila hafa einungis örfáir smitast. Þetta verður að telja góðan árangur sem vert er að þakka. Fjölmiðlar hafa á síðustu vikum flutt fréttir af harmleikjum á hjúkrunarheimilum erlendis, þar á meðal Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Kanada og Bandaríkjunum þar sem málin hafa ekki verið tekin jafn föstum tökum og hér á landi.

Starfsfólk Almannavarna og Embættis landlæknis ásamt heilbrigðisstarfsfólki og fjölda annarra aðila í samfélaginu eiga bestu þakkir skildar fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn faraldrinum hér á landi. Okkur langar þó að nota þennan vettvang til að þakka sérstaklega þeim þúsundum starfsmanna sem vinna á hjúkrunarheimilum hér á landi fyrir að leggja sín mikilvægu lóð á vogarskálarnar í baráttunni. Ykkar framlag er ómetanlegt í þágu velferðar aldraðra hér á landi.

Nú er tillögugerð að ákveðnum tilslökunum á heimsóknarbanni á hjúkrunarheimilum á lokastigum. Tilslakanirnar verða framkvæmdar í nokkrum hægum skrefum í einu og tekur fyrsta skrefið gildi mánudaginn 4. maí. Fram að þeim tíma verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni. Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn 22. apríl. Það verður mikill léttir fyrir alla aðila þegar tilslakanirnar hefjast enda mun heimsóknarbannið hafa staðið í tæpa 60 daga þann 4. maí. Hættan er hins vegar langt frá því liðin hjá. Á næstu vikum og mánuðum þurfum við öll að sýna þolinmæði og halda þetta út því einungis með breiðri samstöðu mun okkur takast að sigla í gegnum þennan öldudal og sigrast að lokum á skaðvaldinum.

Höfundar eru Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, og Eybjörg H. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Lesa meira...

Tilslökun Hrafnistuheimilanna á heimsóknarbanni

Lesa meira...

 

Meðfylgjandi tilkynning verður send til aðstandenda Hrafnistuheimilanna í dag:

 

Ágæti aðstandandi,

22. apríl 2020

Það er okkur ánægja að kynna að ákveðið hefur verið að opna á heimsóknir á Hrafnistuheimilunum frá og með 4. maí næstkomandi, þó með ákveðnum takmörkunum.

Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum.  Nauðsynlegt er að takmarka þann fjölda gesta sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma, þar sem líkur á smitum aukast með hverjum þeim aðila sem kemur nýr inn á heimilið. Þess vegna biðjum við ykkur að reyna að velja einn aðstandanda sem kemur inn fyrstu tvær vikurnar.  Vonir eru bundnar við að rýmka enn frekar um heimsóknir í júní 2020.

Þriðjudaginn 28. apríl mun hvert heimili vera í sambandi við aðstandendur með nánari kynningu á því hvernig úthlutanir / pantanir fara fram.

Vinsamlega kynnið ykkur vel eftirfarandi heimsóknarreglur:

 1. Þú þarft að eiga úthlutaðan / pantaðan tíma til að koma í heimsókn.
 2. Ekki panta heimsóknartíma og alls ekki koma í heimsókn ef:
 3. Þú ert í sóttkví
 4. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
 5. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
 6. Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
 7. Heimild til heimsókna einu sinni í viku er veitt frá 4. maí.  Ef vel gengur í baráttunni við veiruna, verður tíðni heimsókna aukin.
 8. Við hvetjum ykkur til að hlaða niður í símana ykkar smitrakningnarappi almannavarna Rakning C-19 fyrir 4. maí
 9. Bíða skal eftir starfsmanni í anddyri heimilis á merktu svæði og hann fylgir ykkur til íbúa.  Munið að þvo eða/og spritta hendur áður en heimsókn hefst og að henni lokinni.
 10. Virða skal 2ja metra regluna og forðast beina snertingu við íbúa eins og hægt er.
 11. Óheimilt er að eiga samskipti við aðra aðstandendur af öðru sóttvarnarsvæði (önnur deild en þinn íbúi býr á) á meðan beðið er eftir að fara inn á deildina.

Við hvetjum ykkur til að nýta tímann til þess að heimsækja ástvin ykkar og ef einhver fyrirspurn er um heilsu hans, þá vinsamlega ræðið það á öðrum tíma í síma við hjúkrunarfræðing.

Það er von okkar að þessi ráðstöfun létti íbúum og aðstandendum lífið enda almennt heimsóknarbann ekki verið áður í gildi í 60 ára sögu Hrafnistu. Hættan er hins vegar langt frá því að vera liðin hjá. Á næstu vikum og mánuðum þurfum við öll að sýna þolinmæði og halda þetta út því einungis með breiðri samstöðu mun okkur takast að sigla í gegnum þennan öldudal og sigrast að lokum á skaðvaldinum.

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf neyðarstjórnar til aðstandenda 

 

 

Lesa meira...

Hópur listamanna söng fyrir íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi

Lesa meira...

 

Það skapaðist mikil gleðistund meðal íbúa og starfsfólks á Hrafnistu Sléttuvegi í gær þegar hópur landsþekktra listamanna, í forsvari Björgvins Franz Gíslasonar, lagði leið sína þangað til að syngja og gleðja íbúa og starfsfólk.

Hópurinn hefur áður sungið fyrir íbúa Hrafnistuheimilanna á Ísafold í Garðabæ, Hraunvangi í Hafnarfirði og Skógarbæ í Reykjavík við góðar undirtektir. Eins og flestir vita ríkir heimsóknarbann á Hrafnistuheimilunum vegna COVID-19 og því eru viðburðir af þessu tagi mikið gleðiefni fyrir íbúa.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar sönghópurinn kom sér fyrir út í garði á Sléttuveginum og söng fyrir íbúa sem margir hverjir sátu úti á svölum til að hlýða á sönginn.  

 

Lesa meira...

Takk Vigdís!

Lesa meira...

 

Í tilefni af 90 ára afmæli Frú Vigdísar Finnbogadóttur á dögunum hefur verið haldið upp á það með ýmsum hætti á Hrafnistuheimilinum. Í gær var til að mynda haldinn Vigdísardagur þar sem boðið var upp á sérstakar Vigdísar kökur á öllum Hrafnistuheimilunum með kaffinu.

Kökurnar voru mismunandi í laginu eins og meðfylgjandi myndir sýna og féllu afskaplega vel í kramið hjá bæði íbúum og starfsfólki.

 

Lesa meira...

Tilslakanir á heimsóknarbanni framundan

Lesa meira...

 

Neyðarstjórn Hrafnistu tók þá ákvörðun frá og með 7. mars s.l. að loka öllum Hrafnistuheimilunum fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta þar til annað verður formlega tilkynnt. Var þetta gert í samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna hefði verið lýst yfir fyrr um daginn.

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og það er í raun ástæðan fyrir þessum aðgerðum sem eru án fordæma í sögunni.

Þar sem íbúar Hrafnistu, rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. 

Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Því færri sem koma inn á heimilin því minni líkur á smiti. Hefur þetta ferli tekist mjög vel til og sannað gildi sitt.

Á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar 14. apríl s.l. nefndi forsætisráðherra í máli sínu að tilslakanir á heimsóknarbanni hjúkrunarheimila væru í undirbúningi og á daglegum fundi Almannavarna í gær nefndi Landlæknir að þessar tillögur yrðu kynntar í næstu viku.

Vinnuhópur á vegum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila hefur fundað reglulega síðustu vikur og er hópurinn nú að vinna tillögur að þessum tilslökunum. Þær verða gerðar í hægum skrefum en fyrstu tilslakanirnar munu taka gildi strax 4. maí. Fram að 4. maí verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni.

Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn í næstu viku (22. apríl) og miða m.a. við að aðeins einn geti heimsótt íbúa hjúkrunarheimilis í einu samkvæmt ákveðnum reglum og tekin verða lítil skref í einu.

Þetta verður auðvitað mikill léttir enda mun heimsóknarbann hafa staðið í tæpa 60 daga þann 4. maí.

Eins og áður segir verða nákvæmar reglur um þetta kynntar í næstu viku og verður þá farið í undirbúning á hverri deild í samræmi við það.

 

 

Lesa meira...

Lionsklúbburinn Njörður færir Hrafnistu í Skógarbæ sturtustól að gjöf

Lesa meira...

Lionsklúbburinn Njörður færði Hrafnistu í Skógarbæ rafknúinn sturtustól í dag 15. apríl 2020. Þessi gjöf gerir starfsmönnum kleift að sinna veikustu íbúunum sem ekki hafa getu til að sitja stuðningslausir í sturtu og einnig er hægt að nota stólinn fyrir salernisferðir. Stóllinn er vel bólstraður og því fer afskaplega vel um íbúa í honum. Stólinn er hægt að hækka, lækka og stilla í þægilega vinnuhæð fyrir starfsmenn og skiptir það sköpum fyrir vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu starfsmanna. Heimilið hefur ekki átt sambærilegan sturtustól og því erum við full af þakklæti fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

Meðfylgjandi mynd var tekin í dag þegar félagar frá Lionsklúbbnum Nirði afhentu stólinn til Hrafnistu Skógabæjar þar sem Pétur Magnússon forstjóri, Rebekka Ingadóttir forstöðumaður og Lilja Dögg Vilbergsdóttir deildarstjóri iðju- og sjúkraþjálfunar tóku á móti gjöfinni.

 

Lesa meira...

Viðtal við Þuríði Ingibjörgu Elísdóttur forstöðumann Hrafnistuheimilanna í Reykjanesbæ

Lesa meira...

 

Í páskablaði Víkurfrétta var rætt við Þuríði Ingibjörgu Elísdóttur forstöðumann okkar á Hrafnistuheimilunum í Reykjanesbæ, Nesvöllum og Hlévangi. Þar talar Þuríður m.a. um okkar helstu áskorun þessa dagana, COVID-19 veiruna og mikilvægi þess að allir sýni samfélagslega ábyrgð ásamt því að svara nokkrum laufléttum spurningum frá Víkurfréttum.

Viðtalið við Þuríði má finna á blaðsíðu 56 í Víkurfréttum sem kom út 7. apríl sl.

Ennig má lesa það með því að smella HÉR

 

 

Lesa meira...

Lífið á Hrafnistuheimilunum vikuna 1. - 8. apríl 2020

Lesa meira...

 

Laugarás

Skemmtilegur viðburður átti sér stað á dögunum þegar hópur barna úr Laugaráshverfinu tók sig saman og mættu í garðinn á Hrafnistu Laugarási til að gleðja heimilisfólk með söng. Íbúar voru mjög ánægðir með heimsóknina og fylgdust með börnunum út um gluggann. Þar hefur ekki verið setið auðum höndum síðustu daga frekar en á öðrum Hrafnistuheimilum. Horft var m.a. á Djöflaeyjuna og spjallað um braggalífið í kjölfarið á meðan aðrir sátu og hlustuðu á sögu, gripu í liti og flettu gömlum ljósmyndum. Spilað var bingó og skálað í serrýtári. S.l. föstudag var haldinn hattadagur og í dag var haldinn gulur dagur.

Hraunvangur

Í Hraunvangi hafa síðustu dagar einnig verið fjölbreyttir. Sjúkra- og iðjuþjálfar eru uppi á hæðum með gönguþjálfanir, hjól og alls kyns æfingatæki, boccia, söng-og hreyfistundir, og ekki má gleyma leikfimi með Helenu sem nú er varpað upp á allar hæðir. Allt þetta gerir daginn heldur betur skemmtilegan og styrkir, bætir og kætir.

Dundað hefur verið við páskaföndur og sl. föstudag var þemað „Gulur dagur“ þar sem starfsfólk og íbúar voru hvattir tl að klæðast einhverju gulu í tilefni þess að páskarnir eru á næsta leyti. Eins og myndirnar bera með sér létu íbúar ekki sitt eftir liggja og skörtuðu fögrum gulum lit í tilefni dagsins. Ýmislegt var á döfinni eins og bingó, boccia, leikfimi og bíó og svo var að sjálfsögðu sherrý, Bailys og Lemonchello í boði með kaffinu í tilefni dagsins 

Boðaþing

Í Boðaþingi kepptu íbúar og starfsmenn í boccia og höfðu mikið gaman af. Farið er reglulega í göngutúra og láta íbúar mjög vel af því að fá fríska loftið í lungun þó svo kuldinn hafi bitið í kinnar. Einnig er mikið spilað, lesið og hjólað. Það er gaman að sjá hvað íbúar eru tilbúnir til að nýta sér tæknina og hún er meira að segja nýtt til að spjalla á milli hæða!

Skemmtilegt viðtal var tekið við Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem býr hjá okkur á Hrafnistu í Boðaþingi. Viðtalið má lesa með því að smella HÉR

Nesvellir

Gleði, kærleikur og góðar samverustundir einkennir heimilislífið á Hrafnistu Nesvöllum.  Íbúar hafa nóg fyrir stafni alla daga við að spila, sauma, púsla, horfa á bíósýningar og spjalla um lífið og tilveruna. Stólaleikfimin er ávallt á sínum stað og á dögunum fór fram páskabingó.

Hlévangur

Bjórkvöld var haldið á dögunum á Hlévangi og var mikil ánægja með það á meðal íbúa. Þar voru sagðar skemmtisögur og brandarar. Búið er að páskaskreyta allt hátt og lágt og spilað var páskabingó þar sem í boði voru ýmiskonar vinningar.   

Ísafold

Á Ísafold er hreyfing stunduð á hverjum degi eins og á öllum Hrafnistuheimilinum. Katrín íþróttakennari stjórnaði m.a. spurningaleik það sem spurningarnar snérust um fjöll á Íslandi, Eystrarhorn, Keili, Hafnarfjall, Tindastól o.fl. Mikil þátttaka og virkni var á meðal íbúa í þessum leik og allir skemmta sér vel. Einn íbúi átti stórafmæli á dögunum og því var að sjálfsögðu fagnað með kökuveislu. Haldnar hafa verið söngstundir og skálað í sheerý. Þann 6. apríl fagnaði Hrafnista Ísafold sjö ára afmæli, þá gerðu íbúar og starfsfólk sér dagamun, dúkuðu upp borð og gæddu sér á kótilettum og ís í hádeginu. Síðan voru bakaðar vöfflur með kaffinu.

Skógarbær

Skógarbær nýtir vel DVD diska sem Sagafilm gaf heimilinu um daginn. Iðju- og sjúkraþjálfun flokkaði diskana og bjó til vídeóleigu í Félagsbæ. Íbúar geta farið yfir listann, hringt á videóleiguna og fengið myndina senda á sína deild. Á Hólabæ varð Mary Poppins fyrir valinu á meðan íbúar á Heiðabæ horfðu á Chaplin. Allaf er eitthvað í gangi, ýmist úti í góða veðrinu eða horft á bíó, föndrað, lesið og spjallað. Íbúar sem hafa átt afmæli í Skógarbæ hafa fengið sendan glaðning frá ættingjum í tilefni dagsins sem aðrir íbúar hafa einnig fengið að njóta.
Árlega kemur Lionsklúbburinn Engey í Skógarbæ og býður íbúum og aðstandendum þeirra í kaffi með öllu tilheyrandi. Þar sem nú ríkir heimsóknarbann gátu Engeyjarkonur ekki komið en í dag afhentu þær Katrín og Þórunn frá Lionsklúbbnum Engey íbúum á heimilinu páskaegg. Kærar þakkir til ykkar Engeyjarkonur fyrir hönd íbúa í Skógarbæ.

 

Starfsfólk á Hrafnistuheimilunum nýtir tæknina og aðstoðar íbúa við myndsímtöl og erum við á Hrafnistu ákaflega þakklát fyrir þær gjafir sem okkur hafa borist sem gera það kleift að íbúa okkar ná sambandi við sína aðstandendur í gegnum myndsímtöl.

Við erum ótrúlega þakklát fyrir alla þá sem hafa hjálpað okkur að gera síðustu vikur fjölbreyttar og skemmtilegar.  Undanfarið höfum við á Hrafnistuheimilunum fengið mikið af gjöfum frá fyrirtækjum og félagasamtökum. Það er hreint magnað að upplifa hvað margir hugsa hlýtt til okkar þessa dagana og fyrir allan þennan hlýhug erum við mjög þakklát.

Dæmi um þá glaðninga sem okkur hafa borist á undanförum vikum og dögum má sjá á þessum lista hér fyrir neðan og er þessi listi alls ekki tæmandi...

Ís frá Emmesís
Ís frá Kjörís
Æðibitar og Hraunbitar frá Góu
Flatkökur frá HP kökugerð
Skyrkaka frá Ásbirni Ólafssyni
Alls konar drykkjarföng frá CCEP
Söngur frá sönghópnum Lóunum
Páskaeggjabrot frá Nóa Sirius
Súkkulaðikúlur frá Omnom
Prins Polo frá Innnes
Söngur frá Stefáni Helga í Elligleði
Snakk frá Stjörnusnakk
Þristur frá Sambo
Páskaöl frá Ölgerðinni
Sælgæti frá Freyju
Handáburður frá Distica
Frá Samherja fengu öll Hrafnistuheimilin DVD diska með upptöku af Fiskideginum á Dalvík frá árunum 2014-2019.

 

Kærar þakkir til ykkar allra.

 

Lesa meira...

Gleðilegar páskakveðjur frá Hrafnistu!

Lesa meira...

 

Ágætu íbúar Hrafnistuheimilanna og aðstandendur,

 

Nú eru sannarlega óvenjulegir tímar í íslensku samfélagi, sem og heiminum öllum. Þetta eru aðstæður sem sjálfsagt enginn hefur búist við að upplifa.

Á Hrafnistuheimilunum átta búa um 800 manns í um fjórðungi hjúkrunarrýma á landinu og þar starfa alls um eitt þúsund og fimm hundruð manns.Ykkur til upplýsinga vildum við segja frá því að íhópi starfsliðs Hrafnistu hafa nú rúmlega 100 einstaklingar farið í sóttkví frá upphafi faraldursins en aðeins tveir reynst smitaðir, sem betur fer. Enn hefur enginn íbúi greinst smitaður af veirunni og óska þess allir heitt og innilega að svo verði áfram. Á heimilunum er fylgt skýrum verkferlum og viðbrögðum með tilliti til veirunnar enda eru nær allir íbúar í áhættuhópi og markvisst ferli fer í gang um leið og einhver íbúi sýnir möguleg einkenni. Neyðarstjórn Hrafnistu fundar daglega á fjarfundi um stöðu mála. Þessar aðstæður kalla á mikilar breytingar í daglegu lífi íbúanna okkar eins og þið þekkið.

Undanfarið höfum við á Hrafnistuheimilunum verið að fá mikið af gjöfum frá fyrirtækjum og félagasamtökum. Það er hreint magnað að upplifa hvað margir hugsa hlýtt til okkar þessa dagana og fyrir allan þennan hlýhug erum við mjög þakklát.

Hér neðar á síðunni má nálgast nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Hrafnistubréfið er fréttablað Hrafnistu sem er í A4 broti og er gefið út tvisvar á ári í 2.500 eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna allra Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu; til annarra hjúkrunarheimila, alþingismanna, sveitarstjórnarfólks og fleiri. Blaðið er með hefðbundnu sniði en óvenju efnismikið enda mikið búið að vera að gerast hjá okkur á Hrafnistu síðustu mánuði.

Sjálfsagt hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að gefa út blaðið. Með því að senda ykkur blaðið sem viðhengi í tölvupósti viljum við tryggja að það berist til ykkar allra, en ljóst er að hefðbundin dreifing verður brösuleg í þetta skiptið.

Hrafnistubréfið gefur aðeins innsýn í hið fjölbreytta starf sem er í gangi á Hrafnistuheimilunum. Við hvetjum ykkur svo til að skoða facebook-síður sem hvert Hrafnistuheimili hefur komið upp en þar er að finna nær daglegar fréttir úr starfinu og daglegu lífi.

Að lokum viljum við nota þetta tækifæri og óska ykkur öllum - íbúum, aðstandendum og góðvinum Hrafnistu og fjölskyldum þeirra, gleðilegrar páskahátíðar í þessum óvenjulegu aðstæðum sem nú rýkja í samfélaginu!

 

Starfsfólk Hrafnistuheimilanna

 

Hrafnistubréfið 1. tbl. 47. árg. apríl 2020 - smelltu til að skoða

 

 

Lesa meira...

Síða 6 af 133

Til baka takki